Stórhólsbændur bíða enn
Bændur á Stórhóli í Húnaþingi vestra bíða enn frétta um hvort fé þeirra með verndandi og mögulega verndandi arfgerðir gegn riðu sleppi við niðurskurð í kjölfar þess að riðutilfelli greindist í sláturfé frá bænum í lok október.
Yfirdýralæknir hefur nú sent matvælaráðherra tillögu um aðgerðir og í kjölfarið gefur ráðherra út úrskurð um hvernig á málum verður tekið á Stórhóli. Bændur hafa andmælarétt, séu þeir ekki sáttir við niðurstöðuna.
Tæplega 590 fjár eru nú á Stórhóli. Af því eru 27 gimbrar og 10 hrútar með verndandi arfgerðir en fleiri með mögulega verndandi arfgerðir.
Garðar V. Gíslason, bóndi á Stórhóli, lét á eigin kostnað taka DNA-sýni úr um 250 fjár fyrir nokkrum misserum. Þegar riðutilfelli fannst í sláturfé frá Stórhóli í haust lét hann taka sýni úr afganginum af fénu og reiknar með að Matvælastofnun beri kostnað af því.
Aðspurður hvort hann viti nú hversu margt fé með mögulega verndandi arfgerðir þau eigi svarar hann því til að þetta séu rétt um 100 kindur í allt sem beri verndandi og mögulega verndandi arfgerðir. „Þetta eru um fimmtíu ær, hitt er allt gemlingar,“
Umfangsminna niðurrif
„Ég trúi ekki öðru en að ég fái að vita um allavega kindurnar í þessari viku,“ segir hann. Hann segist þó ekki mjög óþolinmóður: „Málið tekur sinn tíma og þetta er svo sem bara nýtt fyrir alla,“ bætir hann við.
Um það að Stórhóll sé í raun á þeim merku tímamótum þar sem sauðfjárbændur vonist eftir nýrri og fordæmisgefandi nálgun í riðuvörnum segir Garðar að hann voni svo sannarlega að það sé raunin: „Það yrði í það minnsta aðeins skárra en hitt.“
Vonir eru bundnar við að ekki þurfi að fara í jafn umfangsmiklar aðgerðir varðandi rif og sótthreinsun fjárhúsa o.fl. eftir riðu og áður. „Já, mér skilst að eigi að breyta því,“ segir Garðar og heldur áfram: „Maður veit svo sem ekkert um það enn þá og ekki búið að ræða það neitt. En mér skilst að þetta verði eitthvað öðruvísi. Það verður þó alltaf að henda slatta. Húsin munu samt standa óbreytt í vetur náttúrlega, það næst ekkert að gera neitt í þessu fyrir veturinn. En í vor verður þá eitthvert niðurrif. Eins og ég segi, það er ekkert búið að ræða þetta.“
Hefðu mögulega hætt
Rætt hefur verið um að bændur geti í kjölfar riðuniðurskurðar eftirleiðis tekið fé aftur fyrr en áður var. „Mér skilst það, já,“ segir Garðar. „En maður hleypur ekkert í að kaupa strax alveg á fullu – ekki á næsta ári. Þetta er auðvitað verulegt tjón.“
Hann ítrekar að arfgerðaumræðan og riðu-reglugerðarbreyting ráðherra séu ný af nálinni og ekki liggi fyrir hvernig verði samið. „En það er enginn að fara að lifa á þessum hundrað. Þetta er bara eitthvað sem á eftir að ræða.“
Um það hvort hann hafi velt fyrir sér að hætta búskap segir hann einfaldlega: „Ég hugsa að við hefðum gert það ef ekki hefði verið komið neitt svona,“ og á þar við stefnubreytingu í riðumálum vegna verndandi arfgerða í fé. „Það er svona ljós aðeins í þessu núna, mér finnst það nú frekar. En þetta er allt í pattstöðu í bili.“
Garðar og Maríanna E. Ragnarsdóttir, bændur á Stórhóli, bíða því átekta enn um sinn.