Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Stórir evrópskir bankar gætu horft fram á gjaldþrot
Fréttir 24. febrúar 2016

Stórir evrópskir bankar gætu horft fram á gjaldþrot

Höfundur: Hörður Kristjánsson
„Evrópskir bankar eru nálægt því að falla í hræðilega kreppu,“ var haft eftir Raoul Pal á bandarísku sjónvarpstöðinni CNBC í byrjun þessa mánaðar. 
 
Raoul Pal er fyrrverandi stjórnandi áhættufjárfestingasjóða hjá Goldman Sachs-fjárfestingabankanum. Hann segir fjölda evrópskra banka sitja á miklum marglaga lánum sem séu að missa fótfestu sína. Það geti þýtt að stærstu evrópsku bankarnir verði hreinlega gjaldþrota. Á fréttastöð Bloomberg í síðustu viku viðruðu margir hagspekingar áhyggjur sínar yfir að ef evrópsku bankarnir fari að falla kunni þeir að draga bandarísku bankana með sér í fallinu: Það er vegna alþjóðlegra skulda og krosstenginga skuldabréfavafninga sem allir þessir bankar séu flæktir í. Á síðasta ári urðu átta bandarískir bankar gjaldþrota. 
 
Neikvæðir vextir fara illa með bankakerfið
 
Verðhjöðnun í Evrópu og langvarandi stöðnun efnahagslífsins, afar lágir og jafnvel neikvæðir stýrivextir, ásamt lækkandi olíuverði og skuldasöfnun olíuiðnaðarins, ásamt minnkandi hagvexti í Kína, séu að valda bönkunum miklum vandræðum. Pal telur að neikvæðu vextirnir séu þó helsta ástæðan fyrir vandræðum bankanna. Þeir nái einfaldlega ekki að skrapa saman nægum tekjum til að halda rekstrinum gangandi. Stærstu evrópsku bankarnir séu auk þess þegar verulega þandir vegna vanda á alþjóðlega vísu. 
 
Almenningur í Evrópu látinn borga brúsann
 
Við hrun evrópskra banka 2008 greip Evrópusambandið og ríkin innan þess til þess ráðs að bjarga bönkum með peningum úr vösum almennings. Þannig voru gríðarlegar upphæðir í ónýtum lánum og verðbréfavafningum afskrifuð á kostnað almennings í stað þess að láta bankana, sem flestir voru einkabankar, fara á hausinn á kostnað fjármagnseigenda. Evrópuráðið samþykkti að verja 592 milljörðum evra í slíka endurreisn bankanna frá október 2008 til ársloka 2012. Það eru um 643 milljarðar evra með uppreiknuðum vöxtum. 
 
Reynt var að telja almenningi trú um að þetta væri besta leiðin fyrir efnahagskerfið í heild til að koma í veg fyrir glundroða og algjört hrun. Annað er að koma á daginn og má helst sjá það í langvarandi stöðnun og verðhjöðnun og endurtekningu á vandræðunum frá 2008. 
 
Aðeins hluti kostnaðar sóttur í vasa fjármagnseigenda
 
Innan ESB hafa menn nú efasemdir um að hægt sé að beita sömu meðölum gagnvart þeim bönkum sem nú eru aftur að rata í vandræði. Þetta kemur m.a. fram í grein sem birt var nýverið eftir Hugo Dixon á vefsíðu Reuters. Nú tala menn digurbarkalega um að ekki komi til greina að veita fé úr ríkissjóðum landanna fyrr en fjármagnseigendur í bönkunum hafa afskrifað „að minnsta kosti 8%“ af eigin fé í bönkunum. Með öðrum orðum, ef meira þarf að afskrifa, þá verður það væntanlega á kostnað almennings eins og áður. 
 
Þá eru menn nú farnir að efast um hversu vel muni ganga að tryggja innistæður upp að 100.000 evrum sem bönkunum er gert að hafa í varasjóði. 
 
Ótti við nýtt bankahrun
 
Þann 1. janúar 2016 gekk í gildi svokallað „bail-in“ kerfi gagnvart öllum bönkum innan evrusamstarfs ESB sem takmarkar það fé sem borgararnir geta tekið út úr bönkum í einu ef til áhlaups á bankana kemur. Horfa menn þá til þess áhlaups sem varð á bankakerfið á Kýpur á sínum tíma. Var lagt hart að aðildarríkjunum Eurozone að klára samþykkt þessarar reglugerðarinnleiðingar fyrir áramót sem þekkt er sem „Bank Recovery and Resolution Directive (BRRD)“. Var sex ESB-ríkjum stefnt vegna seinagangs við að innleiða regluverkið. Þetta voru Pólland, Holland, Lúxemborg, Svíþjóð, Rúmenía og Tékkland. Er sú taugaveiklun talin til merkis um að innan ESB sé mikill ótti við að nýtt bankahrun kunni að vera í uppsiglingu. Ýmsir fjármálaskýrendur telja þó að þetta regluverk sé þegar fallið um sjálft sig, þar sem eftir er að fjármagna fjóra gríska banka fyrir 25 milljarða evra. 
 
Bankabjörgun á Ítalíu og í Portúgal
 
Ítalir dældu 3,6 milljörðum evra af almannafé til að bjarga fjórum „litlum“ bönkum þar í landi í nóvember. Þetta er bannað samkvæmt nýjum ESB-reglum nema að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. 
 
Vinstri stjórnin í Portúgal missti meirihluta sinn á þingi í fyrra þegar hluti stuðningsmanna hennar neitaði að bakka hana upp í að leggja 2,25 milljarða evra af almannafé til að bjarga  Banco Internacional do Funchal og Banif-bönkunum. Það voru hins vegar stjórnarandstæðingar sem komu þá vinstri stjórninni til bjargar við að eyða peningum almennings í þágu fjárfesta. Talað er um að aðgerðir Ítala og Portúgala hafi verið á mjög gráu svæði með hliðsjón af nýjum leikreglum innan evrusvæðisins. 
 
Víðtæk gjaldþrot í olíuiðnaðinum
 
Í fyrri viku höfðu 42 olíufyrirtæki í Norður-Ameríku lýst sig gjaldþrota frá ársbyrjun 2015 samkvæmt gjaldþrotalista lögfræðiskrifstofu Haynes and Boone í Houston. 
 
Matsfyrirtækið Standard & Poors áætlar að hugsanlega þurfi að afskrifa um 50% „ruslbréfa“ í orkugeiranum. Þá hefur matsfyrirtækið Moody´s verið að lækka lánshæfismat Clydesdale Bank og Yorkshire Bank. Clydesdale Bank varð nýlega sjálfstæður banki eftir að hann var seldur frá móðurbankanum National Australian Bank eftir 95 ára eignarhald.
 
„Ég hef ekki séð neitt þessu líkt í langan tíma“
 
 „Ég held að almenningur hafi ekki náð að fylgjast með því hvað er að gerast og það veldur mér miklum áhyggjum,“ sagði stofnandi Global Marco Invest í samtali við fréttamann viðskiptaþáttarins „Fast Money“ á CNBC. „Ég hef ekki séð neitt þessu líkt í langan tíma.“
 
Olía seld langt undir kostnaðarverði
 
Á vefsíðu CNN Money er bent á að undanfarin ár hafi fyrirtæki á Wall Street kynt undir fjármögnun á miklum olíuborunum víða um heim. Það hafi nú leitt til ofmettunar markaðarins og verðhruni á olíu. Undanfarið hafi olíutunnan verið verðlögð á um 30 dollara, en talið er að það kosti um 70 dollara eða meira að framleiða olíu í hverja tunnu. 
 
Tugir olíufyrirtækja hafa þegar orðið gjaldþrota og önnur hafa sagt upp tugþúsundum starfsmanna í olíuiðnaðinum. Gríðarleg lán sem bankar hafa veitt í þessa grein kunna nú að vera að tapast. 
 
Bankamenn farnir að óttast að dómsdagsspáin gangi eftir
 
Þrír stærstu bankar Bandaríkjanna vöruðu við því í fyrri viku að olíuverðið ætti enn eftir að lækka. Það myndi framkalla mikinn hausverk á Wall Street. Einkum ef dómsdagsspá gengi eftir um að olíuverðið fari niður í 20 dollara eða jafnvel í 10 dollara á tunnu. 
 
JP Morgan Chase-bankinn lagði til hliðar aukalega 124 milljónir dollara til að mæta tapi af lánum til olíu- og gasiðnaðarins. Varaði bankinn jafnframt við því að sú upphæð gæti farið í  750 milljónir dollara, ef olíverðið helst áfram í 30 dollurum næstu 18 mánuði. JP Morgan reynir nú hvað hann getur að draga sig út úr viðskiptum við olíuiðnaðinn. 
 
Citigroup hefur verið að byggja upp um 300 milljón dollara sjóð til að mæta tapi vegna olíuviðskipta. Ef olíuverðið helst áfram í 30 dollurum á tunnu horfir  Citigroup fram á að tapa 600 milljón dollurum á fyrri helmingi ársins 2016 vegna olíulána. Ef olíuverðið fer niður í 25 dollara á tunnu um lengri tíma segja talsmenn bankans að tapið geti orðið 1,2 milljarðar dollara. 
Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...