Þrjár efstu frá sama bæ
Fjórtán hryssur hljóta heiðursverðlaun fyrir afkvæmi í ár. Þrjár efstu hryssurnar, Tíbrá, Prýði og Vár, eru allar frá Auðsholtshjáleigu, ræktaðar af Gunnari Arnarsyni og Kristbjörgu Eyvindsdóttur.
Árið 2011 léku þau Gunnar og Kristbjörg sama leik, þ.e. áttu þrjár efstu heiðursverðlaunahryssur ársins, þær Gígju, Trú og Vordísi. Þær Tíbrá og Vár eru að feta í sömu fótspor mæðra sinna en Tíbrá er undan Trú og Vár er undan Vordísi.
Efsta hryssan í ár er Tíbrá frá Auðsholtshjáleigu og hlýtur hún Glettubikarinn. Tíbrá er undan Gára og Trú frá Auðsholtshjáleigu en þau bæði hlutu heiðursverðlaun fyrir afkvæmi á sínum tíma. Hæst dæmda afkvæmi hennar er Hljómur frá Auðsholtshjáleigu sem er með hæst dæmdu sex vetra stóðhestum ársins með 8,69 í aðaleinkunn. Önnur í röðinni er Prýði undan Kvist frá Skagaströnd og Perlu frá Ölvaldsstöðum. Hæst dæmda afkvæmi hennar er Valdís frá Auðsholtshjáleigu en Valdís er eina hrossið sem hefur hlotið 10 fyrir höfuð og er hún með 8,60 í aðaleinkunn í kynbótadómi. Vár er þriðja í röðinni en hún er undan Spuna frá Miðsitju og Vordísi frá Auðsholtshjáleigu. Viðar frá Skör, hæst dæmdi íslenski hesturinn með 9,04 í aðaleinkunn, er undan Vár og Hrannari frá Flugumýri II.
„Þetta er ótrúlega gaman, við vorum að vona að við næðum þeim áfanga aftur að eignast þrjár heiðursverðlaunahryssur á sama árinu, en að þær yrðu efstu hryssurnar var algjör bónus. Við reiknuðum ekki með því árið 2011 að ná þessu aftur,“ segir Kristbjörg. Hún segir samspil margra þátta þurfa að ganga upp til að ná árangri í hrossarækt.
„Það er erfitt að segja hvernig maður nær svona árangri, það þarf margt að hjálpast að. Það þarf að rækta góð hross, þau þurfa gott atlæti og uppeldi, fjöldi afkvæma þarf að vera nægur, góðir tamningamenn og knapar, það þarf einfaldlega allt að ganga upp og slatta af heppni.“