Tillaga að deiliskipulagi fiskeldis í Núpsmýri
Sveitarstjórn Norðurþings samþykkti á fundi sínum í síðasta mánuði að auglýsa til almennrar kynningar tillögu að deiliskipulagi fyrir fiskeldi í Núpsmýri í Öxarfirði ásamt tilheyrandi umhverfisskýrslu.
Tillaga að deiliskipulagi fyrir fiskeldi í Núpsmýri felur í sér mótun ramma um uppbyggingu frekari mannvirkja á iðnaðarsvæði I3 að Núpsmýri í Öxarfirði.
Fiskeldi hefur verið starfrækt á lóðinni um áratugaskeið en svæðið hefur þó ekki verið deiliskipulagt fyrr. Svæðið er nú þegar umtalsvert upp byggt en horft er til frekari uppbyggingar til aukningar framleiðslu.
Skipulagssvæðið spannar eignarlóð fyrirtækisins, sem er 8,39 ha, en fyrirhuguð uppbygging er þó innan 5,6 ha iðnaðarsvæðis til samræmis við ákvæði aðalskipulags.
Frestur til að gera athugasemdir rennur út 12. mars.