Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Spuni frá Vesturkoti hlaut Sleipnisbikarinn á Landsmóti hestamanna 2018. Hér eru eigendur Spuna ásamt knapa. Talið frá vinstri: Kristín Vigfúsdóttir,  Finnur Ingólfsson, Þórarinn Ragnarsson og Hulda Finnsdóttir.
Spuni frá Vesturkoti hlaut Sleipnisbikarinn á Landsmóti hestamanna 2018. Hér eru eigendur Spuna ásamt knapa. Talið frá vinstri: Kristín Vigfúsdóttir, Finnur Ingólfsson, Þórarinn Ragnarsson og Hulda Finnsdóttir.
Mynd / ghp
Fréttir 4. september 2018

Tíu stóðhestar hlutu fyrstu verðlaun fyrir afkvæmi og fjórir hlutu heiðursverðlaun

Höfundur: Þorvaldur Kristjánsson ábyrgðarmaður í hrossarækt thk@rml.is
Á Landsmóti 2018 í Víðidal hlutu tíu stóðhestar fyrstu verðlaun fyrir afkvæmi og fjórir hlutu heiðursverðlaun fyrir afkvæmi. 
 
Afar áhugavert og lærdómsríkt er fyrir ræktendur að fylgjast með þessum sýningum; sjá heildarsvip hópanna og átta sig á kostum og göllum hvers hests með framtíðar paranir í huga. Afkvæmasýningarnar voru í heildina vel heppnaðar og ljóst að aðstandendur hestanna lögðu metnað sinn í að gera þær sem best úr garði. Í þessum pistli eru birt dómsorðin sem dómnefnd kynbótahrossanna samdi um hvern og einn afkvæmahestinn á mótinu.
 
Magnað sýningaratriði
 
Sýning afkvæmahesta er eitt áhugaverðasta atriði hvers Landsmóts fyrir ræktendur og yfirleitt afar magnað sýningaratriði hvort sem fólk hefur áhuga á ræktun eða ekki. Þótt flest afkvæmi stóðhestanna komi fram í öðrum sýningaratriðum á mótinu er afar verðmætt að fá afkvæmin saman til sjá heildar yfirbragð hópanna og helstu einkenni. 
 
Eitt af því sem er lærdómsríkt við sýningar afkvæmahesta er að sjá hve hestarnir eru oft sterkir á kosti sína og galla og hversu ákveðin heildarsvipur einkennir oft og tíðum afkvæmahópanna. Þessi einkenni eru í byggingu hestsins og oft hreyfingamynstri, hvort sem það liggur í fjaðurmagni, skreflengd, skrokkmýkt eða léttleika hreyfinga. Einkum er þetta áberandi þegar hestarnir eru sýndir sjálfir með afkvæmum sínum en afar skemmtilegt er þegar hestarnir sjálfir eru í sýningarformi og koma fram með afkvæmum sínum. Þessi sameiginlegu einkenni hestsins og afkvæmanna endurspegla það tiltölulega háa arfgengi sem er til dæmis á eiginleikum hæfileikanna, sem segir manni að frammistaða hestsins sjálfs gefur manni strax töluvert miklar upplýsingar um kynbótagildi hans. Þess vegna er mælt með því að setja flestar hryssur stofnsins strax undir þá hesta sem koma vel út úr einstaklingsdómi eða um 60-70%. Þá eiga um 20% af hryssunum að fara undir hesta sem koma vel út úr afkvæmadómi; það er hærra öryggi á þeim pörunum en ástæðan fyrir því að ekki er mælt með því að hærra hlutfall hryssna fari undir reynda afkvæmahesta er sú að það myndi lengja um of ættliðabilið. En sem hröðust árleg erfðaframför byggir á því að ættliðabilið sé ekki of langt; að við séum ekki í of miklum mæli að nota of gamla foreldra. Í því augnamiði er einnig mælt með því að nota efnilega ungfola að ákveðnu marki. 
 
Margir afar vel nothæfir stóðhestar 
 
Það er afar verðmætt að sjá hversu margir afar vel nothæfir stóðhestar standa ræktendum til boða þessa dagana, hversu margvíslegar hestgerðir má finna í þeirri flóru, sem geta fallið vel að mismunandi ræktunarmarkmiðum ræktenda. 
 
Þegar litið er yfir afkvæmahesta hverju sinni er einnig athyglisvert að sjá að bestu afkvæmi hestanna eru oftast þau þegar hugsun hefur verið sett í pörunina; þegar móðirin bætir upp helstu vankanta hestsins. Til að viðhalda þeirri miklu erfðaframför sem náðst hefur á síðastliðnum árum verður að sjálfsögðu að stunda úrval til að árangur náist. Nota til ræktunar einungis þær hryssur sem komast eins nálægt ræktunarmarkmiði ræktandans eins og mögulegt er, að velja saman hryssu og hest með tilliti til kosta og galla beggja og nota til þess allar mögulegar upplýsingar. Þar nýtist kynbótmatið frábærlega en það tekur saman allar mögulegar upplýsingar um hvern hest og matreiðir þær á eins nákvæman hátt og unnt er fyrir notendur.  
 
Óvanalega margir afkvæmahestar
 
Afkvæmahestar hafa yfirleitt verið verðlaunaðir á Landsmótum sem eru nú á tveggja ára fresti (það hefur einnig verið gert á Fjórðungsmótum og má að sjálfsögðu enn) og nokkuð misjafnt er hversu margir þessir hestar eru. Nú í ár voru þeir óvanalega margir. Þess vegna er áhugavert að skoða hversu margir hestar úr hverjum árgangi hafa hlotið þessi verðlaun í gegnum tíðina. 
 
Þegar fjöldi og hlutfall hesta úr hverjum árgangi er skoðað frá 1980 má sjá að þetta eru að meðaltali um 3 hestar úr hverjum árgangi sem hafa hlotið fyrstu verðlaun fyrir afkvæmi (einn til sjö) eða að meðaltali 0.6% (0,2% til 1.3%). Þetta eru yfirleitt á bilinu 2-4 hestar úr hverjum árgangi, oftast þrír. Nokkrir árgangar skera sig úr með fjölda en það eru árgangarnir 1984 og 1999 með fimm hesta og 2007 árgangurinn með sjö hesta. 2007 árgangurinn sker sig líka úr með hátt hlutfall en 1.3% hestanna úr þeim árgangi hafa hlotið fyrstu verðlaun fyrir afkvæmi. Þetta eru nánast allt hestar sem voru í verðlaunasætum á Landsmóti 2011 fjögurra vetra eða þeir 
Sjóður frá Kirkjubæ, Jarl frá Árbæjarhjáleigu II, Eldur frá Torfunesi, Hákon frá Ragnheiðarstöðum, Arion frá Eystra-Fróðholti, Skýr frá Skálakoti og Álffinnur frá Syðri-Gegnishólum sem hlaut fyrstu verðlaun fyrir afkvæmi á Landsmóti 2016. 
 
Þegar fjöldi og hlutfall þeirra hesta sem hafa hlotið heiðursverðlaun fyrir afkvæmi úr hverjum árgangi frá 1980 er skoðað er fjöldinn frá 0 til 4; að meðaltali rétt rúmlega einn hestur úr hverjum árgangi. Hlutfall heiðursverðlauna hesta úr hverjum árgangi er að meðaltali 0,2%. 
 
Fjöldi og hlutfall hesta sem hljóta afkvæmaverðlaun úr hverjum árgangi virðist ekki vera að hækka síðastliðin ár en þetta er áhugavert að velta þessu fyrir sér með tilliti til þróunar þessa verðlaunastigs.   
Hér fyrir neðan má sjá dómsorð sem dómnefnd Landsmóts 2018 samdi um afkvæmahestana en þau eiga að lýsa þeim meginþáttum sem einkenna afkvæmahóp hvers hests. Þessar lýsingar eru komnar inn í WorldFeng en þar má einnig finna nánari upplýsingar um kynbótamat og meðaleinkunnir afkvæma hestsins fyrir hvern og einn eiginleika. Hestarnir eru taldir upp í sætisröð en fyrir aftan nafn hestanna er kynbótamat aðaleinkunnar; í þeim tilfellum sem hestarnir eru jafnir að stigum var þeim raðað á aukastöfum. 
 
Heiðursverðlaun fyrir afkvæmi:
 
Spuni frá Vesturkoti – 129 stig
Spuni gefur hross í tæpu meðallagi að stærð með svipgott og skarpt höfuð en djúpa kjálka. Hálsinn er fremur langur og mjúkur við háar herðar en oft djúpur. Yfirlínan er sterk, bakið breitt og lendin öflug. Þau eru hlutfallarétt og sívalvaxinn en í meðallagi fótahá. Fætur eru þurrir með öflugar sinar, lítil sinaskil og útskeifir að framan. Hófar eru efnisþykkir með hvelfdan botn og prúðleiki er í tæpu meðallagi. Spuni gefur geðgóð og eðlisgeng mýktarhross sem koma fljótt til á gangi. Töltið er rúmt, skrefmikið og jafnvægisgott en mætti vera lyftingarmeira á hægu. Brokkið er skrefmikið en ferðlítið. Stökkið er ferðmikið og teygjugott en sviflítið. Skeiðupplag er frábært og skeiðið takthreint og öruggt. Fetið er takthreint og skrefmikið. Spuni gefur alhliða gæðinga með trausta lund, frábæran samstarfsvilja og mýkt í ganglagi. Spuni hlýtur heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og fyrsta sætið.  
 
Kiljan frá Steinnesi – 125 stig
Kiljan gefur hross í meðallagi að stærð og eru þau bráðþroska hvað vöðvabyggingu varðar. Afkvæmin hafa skarpt höfuð en heldur gróft. Þau hafa reistan og vel settan háls og úrvals bak og lend; breitt og vöðvað bak og öfluga lend. Afkvæmin eru jafnan hlutfallarétt og fótahá. Fætur eru þurrir en sinaskil lítil. Réttleiki er góður og hófar efnisþykkir. Prúðleiki á fax og tagl er slakur. Kiljan gefur alhliðageng og virkjamikil hross. Töltið er takthreint og skrefmikið en stundum skortir mýkt. Brokkið er skrefmikið og takthreint og stökkið er hátt og teygjugott. Fetið er skrefstutt. Viljinn er ásækinn og lundin traust. Afkvæmin fara afar vel í reið með háum hreyfingum og hafa kraftmikla framgöngu. Kiljan frá Steinnesi gefur öfluga yfirlínu og fjölhæf afrekshross í fremstu röð. Kiljan hlýtur heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og annað sætið.
 
Ómur frá Kvistum – 122 stig
Ómur gefur fremur stór hross. Höfuð er skarpt með vel opin augu en slaka eyrnastöðu og merarskál. Hálsinn er vel settur en djúpur við skásetta bóga og háar herðar. Bakið er burðarmikið en spjaldið stundum stíft og lendin afar öflug. Samræmi er gott og einkennir fótahæð afkvæmin. Fætur eru þurrir með góðum sinaskilum en heldur nágengir. Hófar hafa hvelfdan botn. Prúðleiki er í tæpu meðallagi. Ómur gefur orkumikil hross með létt fótatak. Afkvæmin eru hágeng og skrefmikil á tölti en sum mættu vera mýkri, brokkið er skrefmikið en ferðlítið. Stökkið er teygjugott og hátt en fetið skrefstutt. Skeiðið er takhreint og sniðgott og flugvökur hross eru á meðal afkvæmanna. Þau er afar viljug en stundum örgeðja. Afkvæmin fara afar vel í reið með fótaburði og snörpu fasi. Ómur gefur lofthá og viljug léttleikahross með mikla getu á gangi. Ómur hlýtur heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og þriðja sætið.
 
Aðall frá Nýja-Bæ – 121 stig
Aðall gefur hross yfir meðallagi að stærð með svipgott höfuð en smá augu. Hálsinn er langur við háar herðar en djúpur. Bakið er breitt og vöðvað, spjaldið stundum stíft og lendin öflug en afturdregin. Afkvæmin eru langvaxin og fótahá en sum nokkuð þung á brjóstið. Liðir á fótum eru sverir og sinar öflugar en sinaskil lítil, réttleiki er yfir meðallagi. Hófar eru efnisþykkir en nokkuð gleiðir og prúðleiki er mjög góður. Aðall gefur rúmt, taktgott og mjúkt tölt með góðu framgripi og taktgott og skrefmikið brokk. Stökkið er ferðmikið en sviflítið og fetið er takthreint. Mörg afkvæmanna sýna talsverða skeiðgetu, eru örugg og skrefmikil á skeiðinu. Afkvæmin hafa góðan og þjálan reiðvilja og hafa myndarlega framgöngu í reið. Aðall gefur prúða, jafnvíga alhliðagæðinga. Aðall hlýtur heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og fjórða sætið.
 
1. verðlaun fyrir afkvæmi:
 
Skýr frá Skálakoti – 128 stig
Skýr gefur hross í rúmu meðallagi að stærð með fríðleika á höfuð. Þau eru reiðhestslega byggð með mjúkan háls og úrvals bak og lend. Þau eru hlutfallarétt og þróttleg á bolinn. Afkvæmin hafa sterka fótagerð, öflugar sinar og eru mjög prúð á fax og tagl. Skýr gefur  yfirveguð og þjál alhliðahross sem búa yfir mýkt í geði og gangi. Þau eru skrefmikil og hágeng á tölti en stundum skortir léttleika, brokkið er takthreint og skeiðið gripamikið. Skýr gefur vel gerð myndarhross með aðgengilegan samstarfsvilja og fara þau vel í reið með góðum höfuðburði og rúmum hreyfingum. Skýr hlýtur fyrstu verðlaun fyrir afkvæmi og fyrsta sætið.
 
Arion frá Eystra-Fróðholti – 126 stig
Arion gefur fremur stór og framhá hross. Fríðleiki á höfuð er um meðallag en eyrun eru fínleg. Þau eru reist, með háar herðar og skásetta bóga en hálsinn mætti vera fínlegri í kverk. Yfirlínan í baki er afar góð, frambakið er hátt og bakið er vöðvafyllt en lendin fremur gróf. Afkvæmin eru fótahá. Fótagerð er um meðallag; sinar eru öflugar en sinaskil lítil og fætur eru útskeifir að framan. Hófar eru góðir en prúðleiki afar slakur. Arion gefur reist hross með fjaðurmagn í ganglagi og góða bóghreyfingu. Töltið er lyftingargott, takthreint og mjúkt, brokkið er skrefmikið en ferðlítið. Skeiðið er virkjamikið sé það fyrir hendi. Arion gefur reist og framhá hross sem fara afar vel í reið, hann hlýtur fyrstu verðlaun fyrir afkvæmi og annað sætið.
 
Óskasteinn frá Íbishóli – 125 stig
Óskasteinn gefur hross í tæpu meðallagi að stærð. Höfuð er ekki frítt með merarskál en vel opin augu. Hálsinn er hátt settur en ekki fínlegur við háar herðar. Yfirlínan í baki er afar vöðvafyllt og sterk og lendin er öflug. Afkvæmin eru hlutfallarétt og fótahá en heldur grófgerð. Fætur hafa öflugar sinar en lítil sinaskil og eru útskeifir að framan. Prúðleiki er slakur. Óskasteinn gefur úrvals reiðhestskosti. Töltið er rúmt, takthreint og mjúkt og afkvæmin eru jafnvægisgóð á hægu tölti. Brokkið er skrefmikið en ójafnt. Stökkið er ferðmikið en sviflítið. Skeiðið er ferðmikið og sniðgott. Afkvæmin eru ásækinn í vilja með góðum fótaburði en eru ekki reist í reið. Óskasteinn gefur rúma og viljuga alhliða gæðinga, hann hlýtur fyrstu verðlaun fyrir afkvæmi og þriðja sætið.
 
Hákon frá Ragnheiðarstöðum – 124 stig
Hákon gefur stór og reisuleg hross. Höfuð hefur beina neflínu og vel borin eyru. Frambygging afkvæmanna er að jafnaði vel gerð; hálsinn er reistur og hátt settur við háar herðar en bógalega er í meðallagi. Afkvæmin eru glæsileg á velli með góða fótahæð og framhæð í byggingunni. Fætur eru þokkalegir að gerð, hófar eru nokkuð vel formaðir en prúðleiki er undir meðallagi. Afkvæmin eru reist, hreyfingarmikil og ásækin í vilja; töltið er takthreint, lyftingarmikið og rúmt og brokkið er skrefmikið. Skeiðið er takthreint sé það fyrir hendi og stökkið hátt. Hákon gefur flugviljuga stólpagripi með mikla ganghæfni, hann hlýtur fyrstu verðlaun fyrir afkvæmi og fjórða sætið.
 
Eldur frá Torfunesi – 124 stig
Eldur gefur hlutfallarétt hross í meðallagi að stærð með svipgott höfuð. Hálsinn er mjúkur við háar herðar og lendin er öflug. Fótagerðin er afar sterkbyggð, fæturnir eru þurrir með öflugar sinar en nágengir að aftan. Hófar eru vel formaðir og afkvæmin eru prúð á fax og tagl. Eldur gefur geðþekk, þjál og mjúkgeng reiðhross með takhreint tölt og brokk. Skeiðið er takthreint og öruggt sé það fyrir hendi. Afkvæmin fara vel í reið með góðum höfuðburði. Eldur hlýtur fyrstu verðlaun fyrir afkvæmi og fimmta sætið.
 
Trymbill frá Stóra-Ási – 124 stig
Trymbill gefur hross í tæpu meðallagi að stærð með fínlegt höfuð. Yfirlína afkvæmanna er burðarmikil; hálsinn er mjúkur við háar herðar og baklínan er góð. Afkvæmin eru sívalvaxin, fætur eru grannir en fremur réttir. Hófar eru um meðallag. Trymbill gefur léttstíg og hágeng hross. Tölt og brokk er takthreint og lyftingargott, skeiðið er afar gott að upplagi og sniðfast. Stökkið er ferðmikið en sviflítið. Afkvæmin eru næm og ásækin í vilja, þau hafa útgeislun og eiga auðvelt með góðan höfuðburð. Trymbill frá Stóra-Ási gefur flink og fríð léttleikahross, hann hlýtur fyrstu verðlaun fyrir afkvæmi og sjötta sætið.
 
Jarl frá Árbæjarhjáleigu II – 123 stig
Jarl gefur hross í tæpu meðallagi að stærð með heldur gróft en skarpleitt höfuð. Hálsinn er langur við háar herðar, yfirlínan í baki er vöðvafyllt og lendin öflug. Afkvæmin eru langvaxinn. Fótagerðin er öflug en fæturnir eru útskeifir og nágengir að framan. Hófar eru efnisþykkir og prúðleiki er í rúmu meðallagi. Jarl gefur þjál og viljug alhliða hross. Töltið er takthreint og lyftingargott með meðal skreflengd og brokkið hefur háa fótlyftu en er stundum ójafnt. Skeiðið er ferðmikið og stökkið er teygjugott en sviflítið á hægu. Fet er heldur skrefstutt. Jarl gefur sterkbyggð og gangörugg geðprýðishross, hann hlýtur fyrstu verðlaun fyrir afkvæmi og sjöunda sætið.
 
Lukku-Láki frá Stóra-Vatnsskarði – 122 stig
Lukku-Láki gefur stór hross með fremur frítt höfuð. Hálsinn er langur og mjúkur en í meðallagi settur. Afkvæmin eru fótahá og myndarleg. Fætur eru þurrir með góð sinaskil en nágengir að aftan. Hófar eru efnisþykkir með hvelfdan botn og prúðleiki er í rúmu meðallagi. Afkvæmin hafa þjálan reiðvilja, töltið er jafnan best en fá sem skeiða að gagni. Töltið er takthreint og skrefmikið, brokkið er skrefmikið með góðri fótlyftu. Stökkið er teygjugott og fetið er yfir meðallagi. Lukku-Láki gefur skrefmikil hross sem fara afar vel í reið með góðum höfuðburði, hann hlýtur fyrstu verðlaun fyrir afkvæmi og áttunda sætið.
 
Hrannar frá Flugumýri II – 122 stig
Hrannar gefur hross í meðallagi að stærð með gróft höfuð en svipgott. Hálsinn er langur og reistur við skásetta bóga en mætti vera fínlegri upp í kverk. Bakið er afar burðarmikið og vel vöðvafyllt og lendin öflug. Afkvæmin eru fótahá og létt á bolinn. Fætur eru þurrir á sinar en grannir. Hófar eru efnisgóðir og vel formaðir en prúðleiki er afar slakur. Hrannar gefur hreingeng og skrefmikil hross með fjaðrandi hreyfingar. Tölt og brokk er takthreint og lyftingargott og skeiðið takthreint sé það fyrir hendi. Stökkið er létt og teygjugott og takthreint á hægu og fetgangur góður. Hrannar gefur lofthá og lyftingarmikil hross með þjálan og góðan vilja sem fara fallega í reið, hann hlýtur fyrstu verðlaun fyrir afkvæmi og níunda sæti. 
 
Sjóður frá Kirkjubæ – 121 stig
Sjóður gefur hross í meðallagi að stærð með svipmikið höfuð. Hálsinn hefur langa og mjúka yfirlínu og bakið er breitt og vöðvafyllt. Afkvæmin eru sívalvaxin en sum brjóstdjúp. Fætur eru þurrir með öflugar sinar en lítil sinaskil og eru fremur réttir. Hófar eru efnismiklir og prúðleiki í meðallagi. Sjóður gefur mjúk og hreyfingafalleg hross og afgerandi afrekshross eru í hópnum. Töltið er takthreint og mjúkt og brokkið skrefmikið, skeiðið er ferðmikið og öruggt en ekki svifmikið. Stökkið er ferðmikið og teygjugott og fetið er takthreint. Viljinn er ásækinn og þjáll. Sjóður gefur mjúk ganghross með góðan vilja, hann hlýtur fyrstu verðlaun fyrir afkvæmi og tíunda sætið.

10 myndir:

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...