Ullarvika á Suðurlandi
Ullarvika á Suðurlandi verður haldin í þriðja sinn dagana 29. september til 5. október á ýmsum stöðum innan Suðurlands.
Frá Ölfusi í vestri og allt austur í V-Skaftafellssýslu, en aðalmiðstöð Ullarviku verður í félagsheimilinu Þingborg sem staðsett er skammt austan við Selfoss.
Mikið verður um að vera enda vikan hugsuð til þess að gera íslensku ullinni hátt undir höfði. Er gestum meðal annars boðið á sauðfjárlitasýningu, hægt verður að kíkja í litunarpotta Hespuhússins á Selfossi, njóta fræðslu í formi fyrirlestra og heimsókna í ýmsar vinnustofur víðs vegar um svæðið, auk þess að líta við á markaðstorginu sem verður haldið ásamt kaffihúsi á Þingborg. Smáspunaverksmiðjan Uppspuni opnar dyr sínar gestum en þar fara fram bæði námskeið og viðburðir sem eru frekar auglýstir á vefsíðu UIlarvikunnar, www.ullarvikan.is. Á vefsíðunni er einnig að finna kort yfir vinnustofurnar, en allar almennar upplýsingar eru þar vandlega fram settar.
Að Ullarvikunni standa Feldfjárbændur, Spunasystur, Uppspuni, Þingborgarkonur ásamt fleiri aðilum og því um að gera að taka sér tíma og kíkja í sveitina.