Um 28 þúsund færri lömbum slátrað í haust
Um 28 þúsund færri lömb komu til slátrunar í haust miðað við á síðasta ári. Meðalfallþungi ársins var 17,22 kíló, sem er rúmum 600 grömmum meira en í fyrra, og er þetta í annað skiptið sem meðalfallþungi fer yfir 17 kíló, en árið 2021 var meðalfallþungi 17,40 kíló.
Samkvæmt nýjum sláturtölum Matvælastofnunar er samdráttur í kjötframleiðslu um 200 tonn á milli ára.
Heldur færri fullorðnar ær
Einar Kári Magnússon, sem hefur yfirumsjón með kjötmati hjá Matvælastofnun, segir að heldur færri fullorðnar ær hafi komið til slátrunar í haust miðað við síðustu haust.
„Þrátt fyrir það má nokkuð örugglega búast við áframhaldandi samdrætti í framleiðslu næsta haust, en erfitt er að setja fram nákvæm framleiðsluspá fyrr en ásetningstölur haustsins liggja fyrir,“ segir hann.
Góðar meðaleinkunnir fyrir gerð og fitu
Í haust komu rúmir 418 þúsund dilkar til slátrunar, en á síðasta ári voru þeir um 446 þúsund. Á milli áranna 2021 og 2022 var fækkun sláturlamba um 19 þúsund.
Meðaleinkunnir fyrir gerð og fitu voru hærri en á undanförnum árum. Einkunn fyrir fitu var að meðaltali 6,62 og fyrir gerð 9,58.