Um 500 manns á hesti
Ein stærsta stóðrétt landsins fór fram síðastliðna helgi, laugardaginn 30. september.
Stóðrekstrarstjóri var Ólafur Sigurgeirsson á Kálfsstöðum og Bergur Gunnarsson á Narfastöðum hafði yfirumsjón með réttarstörfum.
Bændablaðið ræddi við Berg Gunnarsson sem sagði að allt hafi tekist með miklum ágætum. „Veðrið lék við okkur, það var algjörlega frábært, og rekstrarstörf gengu vel. Í góðu veðri eru allir rólegir og slakir, bæði hestar og menn. Reksturinn gekk vel en í heildina eru þetta um 400 hross, sem skiptist í um 300 fullorðin hross og 100 folöld, sem rekin eru frá Kolbeinsdal og niður í Laufskálarétt.“
Bergur segir að í ár hafi metfjöldi fólks tekið þátt í rekstrarstörfum og riðið með rekstrinum.
„Við smölunina töldum við tæplega 500 manns sem mættu á hesti, en það er með því mesta sem verið hefur. Þetta er blandaður hópur knapa, bæði eru þarna eigendur sem eru að sækja sín hross úr dalnum og fólk sem tengist þeim en það eru um 20 bæir sem nýta sér afréttina þó fleiri eigi rétt á upprekstri. Svo er einnig töluverður fjöldi sem mætir í gegnum hestatengda ferðaþjónustu, en þó nokkur fyrirtæki bjóða upp á ferðir tengdum Laufskálaréttum.“
Bergur segir að Laufskálaréttarhelgin sé ein stærsta helgin í Skagafirði ár hvert. „Það er gaman að sjá hvað hesturinn hefur mikið aðdráttarafl en á föstudagskvöld mættu um 800 manns á reiðhallarsýningu í Svaðastaðahöllinni, en sýningin er haldin í tengslum við Laufskálaréttir. Á laugardeginum töldum við svo að um 2.500 manns hefðu komið í réttirnar meðan að réttarstörf stóðu yfir, sem er með mesta móti. Allt gekk þetta vel og slysalaust fyrir sig,“ segir Bergur að lokum.