Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Dóra Svavarsdóttir matreiðslumeistari og formaður Slow Food Reykjavík.
Dóra Svavarsdóttir matreiðslumeistari og formaður Slow Food Reykjavík.
Mynd / smh
Fréttir 25. nóvember 2020

Unnið að því að gera gagnvirkt kort með „Slow Food-veitingastöðum “

Höfundur: smh

Aðalfundur Slow Food Reykjavík var haldinn með fjarfundarbúnaði 5. nóvember. Dóra Svavarsdóttir matreiðslumeistari er áfram formaður og hún segir að nokkur verkefni á vegum hreyfingarinnar hafi verið til umræðu á fundinum, til dæmis gerð gagnvirks korts með veitingastöðum á Íslandi sem vinna í anda Slow Food-hugsjónarinnar. 

„Hugmyndin er að kortið verði aðgengilegt á vefnum og mögulega sem app þegar fram í sækir. Þetta eru að sjálfsögðu erfiðir tímar fyrir veitingamenn og óvíst hverjir standa eftir. En það er mikilvægt að byrja á þessari vinnu,“ segir Dóra. „Slow Food Youth Network er orðið mjög virkt hér á landi og það er átta manna hópur þeirra sem með miklum eldmóð er með nokkur verkefni í gangi; meðal annars einmitt að kortleggja veitingahúsaflóruna þeirra sem vinna í Slow Food-andanum. Eins eru þau að vinna í Diskó súpu-verkefnum [átaki gegn matarsóun] og eru í talsverðu sambandi við nemendafélögin í Háskóla Íslands.“

Aðstoðað við eldamennsku hjá Samhjálp

„Annað frábært verkefni sem Cornel G. Popa hafði veg og vanda af var samstarf við Samhjálp.  Cornel er ungur ítalskur kokkur sem hefur starfað með okkur og í samstarfinu við Samhjálp fór hann og hjálpaði á kaffistofu Samhjálpar á morgnana og seinnipartinn nokkrum skjólstæðingum kaffistofunnar og kenndi þeim grunnatriðin í matreiðslu. Bæði fyrir þá sjálfa og eins þannig að þeir gætu jafnvel fengið vinnu í stóreldhúsum í framhaldinu. Verkefninu lauk núna í október og tveir af hans lærlingum vinna núna fyrir Samhjálp og sjá um hádegismatinn,“ segir Dóra.

Nýja stjórn Slow Food Reykjavík skipa auk Dóru þau Gunnþórunn Einarsdóttir, gjaldkeri, Dominique Plédel Jónsson, ritari og þeir Sveinn Kjartansson og Svavar Halldórsson meðstjórnendur.