Uppbygging hringrásarhagkerfis Mývatnssveitar
Fyrir nokkru var undirrituð samstarfsyfirlýsing á milli Skútustaðahrepps og PlastGarðars ehf. um samstarf við uppbyggingu hringrásarhagkerfis Mývatnssveitar og tækifæri til að draga úr umhverfisáhrifum af matvælaframleiðslu svæðisins.
Í þróun er verkefni með það að markmiði að minnka plastnotkun í landbúnaði með „Hey!rúlla“, margnota heyrúllupokum sem framleiddir verða í Skútustaðahreppi. Verkefnið er enn á þróunarstigi og stefnir Skútustaðahreppur á að fá prufupoka fyrir sumarið 2022.
„Uppbygging hringrásarhagkerfisins byggir í sinni einföldustu mynd á að nýta auðlindir svæðisins sem allra best og m.a. að flytja sem allra minnst inn á svæðið. Sem allra mest sé endurunnið og annað í þeim dúr,“ segir Helgi Héðinsson sveitarstjóri.