Bannað varnarefni í innkölluðum tómötum
Matvælastofnun Frakklands hefur innkallað stóra lotu af tómötum vegna þess að þeir innihalda sveppavarnarefnið klóróþalóníl sem getur verið hættuleg heilsu manna.
Tómatarnir fóru í dreifingu 22. febrúar en hefur nú verið tekið úr sölu úr verslunum. Þeir neytendur sem keypt hafa vöruna geta skilað þeim í verslun og fengið endurgreitt. Matvælastofnun Frakklands segir í tilkynningu að í öllu falli ætti ekki að borða tómatana því neysla sveppaeitursins geti valdið margvíslegum heilsufarsvandamálum. Öllum þeim sem kunna að hafa neytt tómatanna er bent á að ráðfæra sig við lækni ef einhverjir kvillar gera vart við sig.
Notkun varnarefnisins klóróþalóníls er bönnuð í matvælum og fóðri samkvæmt reglugerð framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Bannið gildir einnig hér á landi samkvæmt ákvæðum EESsamningsins. Bann við notkun þess tók gildi í Evrópu árið 2020.
Efnið er notað sem breiðvirkt varnarefni gegn sveppum, skordýrum og myglu í plöntum. Enn er notkun þess víðtæk í Bandaríkjunum, sér í lagi við ræktun á hnetum, kartöflum og tómötum.