Leita aðferða svo plöntur nýti sólarljós betur
Vísindamenn reyna nú að efla ljóstillífun plantna til að auka hraða lífmassamyndunar, þ.e. vaxtarhraða, en plöntur nota aðeins
lítinn hluta þeirrar orku sem þær hafa úr að moða í ljóstillífun.
Plöntur nota ljóstillífun til að framleiða súrefni, næringarefni og líforku. Þetta flókna, lífefnafræðilega ferli er þó í rauninni heldur óhagkvæmt þar sem aðeins brot af orku sólarinnar er nýtt í ferlið. Þetta hefur vakið áhuga vísindamanna á hvort þarna felist möguleikar til að hraða lífmassamyndun og auka ræktaða uppskeru með hraðari vexti, m.t.t. fæðuframboðs.
Rannsóknarteymi við Tækniháskólann í München (TUM), undir forystu Franz Hagn, prófessors í lífefnafræði, hefur nú uppgötvað að ytri hjúphimna grænukorna gæti gegnt lykilhlutverki í þessu ferli. Tímaritið Nature Structural & Molecular Biology birti ritrýnda grein um rannsóknina fyrir skömmu.
Án ljóstillífunar væri lífið eins og við þekkjum það óhugsandi því plöntur taka upp koltvísýring og nota sólina og vatnið til að breyta honum í lífmassa og súrefni. „Aukning á framleiðslu einfaldra sykra og annarra umbrotsefna í grænukornunum er viðfangsefni rannsóknanna sem og flutningur þeirra til innri og ytri hjúphimnu m.t.t. vaxtar,“ er haft eftir Hagn í tímaritinu.
Aukning á plöntuvexti verði sífellt mikilvægari í samhengi við loftslagsvána, öfgafull veðurfyrirbrigði og orkuskort.
Rannsóknir eru fremur skammt á veg komnar og enn ekki sopið kálið þó í ausuna sé komið.