Málþing um matvæli á heimsvísu
Ár hvert heldur Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) málþing um matvæli á heimsvísu (e. World Food Forum - WFF). Þingið fer fram 16.–20. október í höfuðstöðvum FAO í Róm, Ítalíu, en þingið fer einnig fram rafrænt.
Aðalumræðuefni þingsins verður um það hvernig hægt sé að gera ræktun og framleiðslu í landbúnaði og matvælaiðnaði (e. agrifood systems) hagkvæmari og umhverfisvænni til að draga úr mengun og losun gróðurhúsalofttegunda.
Leitað leiða
Umræðuefnið er gríðarstórt og tekur til allra þeirra þátta sem ná frá því að matvæli eru ræktuð þar til þau eru komin á borð neytenda. Þar má t.d. telja upp þætti líkt og ræktun, framleiðslu, geymslu, samsöfnun, meðhöndlun eftir uppskeru, flutning, vinnslu, dreifingu, markaðssetningu, förgun og neyslu. Átt er við öll þau matvæli sem eru ætluð til manneldis, hvort sem þau eiga upptök sín í gróðurhúsum eða landi, búfjárrækt, skógrækt, sjávarútvegi eða fiskeldi.
Leitað verður leiða til að flýta fyrir aðkallandi loftslagsaðgerðum sem tengjast ofantöldum málefnum en talið er að vegna þeirra sé tilkomin þriðjungur þeirra gróðurhúsalofttegunda sem eru af manna völdum, 90% af eyðingu skóga á heimsvísu, 70% af notkun vatns á heimsvísu og fækkunar á líffræðilegum fjölbreytileika á landi. Talið er að það sé hægt að breyta þessu og ætti að vera ein af aðaláherslunum í baráttunni við loftslagsmál.
Matvælum fargað
Matur er líka stærsti einstaki efnisflokkurinn sem fargað er á urðunarstöðum á heimsvísu og árlega er talið að þeim matvælum sem er sóað eða hent nægi til þess að fæða 1,3 milljarða manna. Á sama tíma er talið að um 735 milljónir manna á heimsvísu hafi lifað við hungursneyð árið 2022, sem er aukning um 122 milljónir manna frá árinu 2019.
Í ár verður ungu kynslóðinni sérstaklega boðið til þátttöku þar sem mikilvægt er að tengja saman og auka samstarf núverandi og næstu kynslóða í baráttunni við loftslagsmál. Einnig til þess að nýta samanlagða hugvitssemi þeirra í vísindum, tækni og nýsköpun og greina fjárfestingartækifæri innan matvæla og landbúnaðar. Auk ungu kynslóðarinnar eru boðnir til þingsins bændur, smáframleiðendur, frumbyggjar, stjórnmálamenn, fjárfestar í landbúnaði og vísindamenn – öll með sama markmið, að komast nær fæðuöryggi og nálgast betri framtíð matvæla fyrir alla á umhverfisvænan hátt.