Væntanlega fæðast fyrstu 11 Aberdeen Angus-kálfarnir í september
Kristján Þór Júlíusson landbúnaðarráðherra og Ólafur Friðriksson úr ráðuneytinu heimsóttu nýlega nýju einangrunarstöðina á Stóra-Ármóti í Flóahreppi til að kynna sér starfsemina.
Á stöðinni verða ræktaðir Aberdeen Angus nautgripir. Fósturvísum var komið fyrir í 32 kúm í desember 2017 en eftir skoðun kom í ljós að aðeins 11 kýr höfðu fest fang. Þær munu bera í september. Óskað hefur verið eftir 30–35 nýjum fósturvísum frá Noregi sem koma þá til landsins í lok maí og verða settir upp í ágúst.