Varðveislugildi gróðurhúsa í Hveragerði
Landform á Selfossi hefur skilað af sér skýrslu til Hveragerðisbæjar, sem inniheldur samantekt á varðveislugildi gróðurhúsa í Hveragerði. Markmið verkefnisins er að skrásetja og gera úttekt á öllum gróðurhúsum innan bæjarfélagsins.
Eins og kunnugt er byggðist Hveragerði að stórum hluta upp í kringum ylræktar- og garðyrkjustöðvar og eru þær stór hluti af sögu bæjarins og áberandi í svipmóti hans. Þróun undanfarinna ára hefur verið með þeim hætti að rekstur margra stöðvanna hefur verið erfiður og í stað garðyrkjustöðva hefur íbúðarhúsnæði verið byggt á lóðum þeirra. Fagrihvammur er fyrsta ylræktarstöðin í Hveragerði, stofnuð 1929 af Sigurði Sigurðssyni búnaðarmálastjóra og Ingimari syni hans. Búið er að rífa upprunalegu gróðurhúsin sem voru frá 1929, en elstu uppistandandi hús í Fagrahvammi eru frá 1961. Í dag eru 18 starfandi garðyrkjustöðvar í Hveragerði en álíka margar hafa lagt upp laupana á undanförnum árum.