Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Kotbýli kuklarans, áður en þakið var tekið af og ráðist í endurbætur.
Kotbýli kuklarans, áður en þakið var tekið af og ráðist í endurbætur.
Mynd / Galdrasýning á Ströndum
Fréttir 30. júní 2021

Vaskir sjálfboðaliðar í viðgerðum á Kotbýli kuklarans í Bjarnarfirði

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdótttir

Vaskir sjálfboðaliðar tóku á dögunum þátt í viðgerð á Kotbýli kuklarans í Bjarnarfirði. Kotbýlið er hluti af Galdrasýningunni á Hólmavík. Það hefur verið lokað undanfarin tvö ár þar sem yfir vofði hætta á að þak þess myndi hrynja.

Anna Björg Þórarinsdóttir, fram­kvæmda­stjóri Galdrasýningar­innar, segir að viðgerðir muni standa yfir í sumar. Nú þegar búið er að laga þakið verður hafist handa við að lagfæra timburgrindina sem er byrjuð að gefa sig. Þá verður tyrft yfir á ný og sýningin endurnýjuð. Stefnt er að því að framkvæmdum ljúki í sumar. Galdrasýningin er eitt helsta aðdráttarafl ferðamanna á Ströndum og sækja það árlega heim um 16 þúsund manns.

Vaskir sjálfboðaliðar tóku á dögunum þátt í viðgerð á Kotbýli kuklarans í Bjarnarfirði. Kotbýlið er hluti af Galdrasýningunni á Hólmavík. Það hefur verið lokað undanfarin tvö ár þar sem yfir vofði hætta á að þak þess myndi hrynja.

Sjálfseignarstofnunin Stranda­gald­ur rekur Galdrasýninguna á Strönd­um og er Kotbýli kuklarans annar áfangi hennar. Galdrasýningin var opn­uð á Hólmavík sumarið 2000 en ári síðar hófst vinna við gerð Kot­býlisins sem var opnað við hátíðlega athöfn 23. júlí árið 2005. Anna segir að Kotbýli kuklarans sýni við hvaða aðstæður fátækir leiguliðar bjuggu á Íslandi á 17. öld þegar galdrafárið reið yfir landið og sýni einnig hvernig kuklið var hluti af lífsbaráttunni.

„Langflestir þeirra sem ákærðir voru fyrir galdra voru af lægstu stéttum landsins og þótt einstaka yfirstéttarmaður væri ákærður er ekki vitað til þess að neinn þeirra hafi verið brenndur eða hýddur eins og algengt var um almúgafólkið,“ segir hún.

Torfhús þurfa reglulegt viðhald og Kotbýlið er engin undantekning á því.

Guðjón Kristinsson, handverksmaður og hleðslumeistari.

Opinn og ókeypis aðgangur fyrir alla

Kotbýlið er torfhús sem hleðslu­meistarinn Guðjón Kristinsson frá Dröngum hafði yfirumsjón með að byggja og heimamenn hjálpuðu til eftir fremsta megni. Í húsinu er grjót notað í undirstöður, en veggir hlaðnir úr klömbru og streng. Grindin er gerð úr ósöguðum rekavið og áreftri ýmist klofið í sprek, reisifjalir úr bökum eða stuttir, breiðir kubbar sem teknir voru í sneiðar og lagðir á langbönd. Anna segir að fyrstu árin eftir opnun hafi verið sumarstarfsmaður í Kotbýlinu en því var hætt árið 2010 þar sem það stóð ekki undir sér.

„Í staðinn var ákveðið að hafa opinn og ókeypis aðgang fyrir alla, en fólki bauðst að kaupa bækling á Hótel Laugarhóli með nánari upplýsingum um sýninguna. Þegar lokið verður við að laga húsið munum við einnig endurskoða og lagfæra sýninguna m.a. út frá framförum í tækni og ljósum,“ segir Anna og bætir við að erfitt sé að giska á hversu margir leggi leið sína að Kotbýlinu þar sem enginn starfsmaður sé þar. Hún nefnir að á liðnu ári hafi um 10 þúsund gestir komið á Galdrasýninguna á Hólmavík þrátt fyrir kórónuveirufaraldur.

Ástand Kotbýlisins fyrir viðgerðir. Þakið var hrunið að hluta og trégrind hafði skekkst vegna snjóþyngsla.

Veglegur styrkur til viðgerða

Torfhús þurfa reglulegt viðhald og Kotbýlið er engin undantekning á því en Anna segir að ráð sér gert fyrir að það þurfi að gera við og viðhalda torfhúsum á 10-15 ára fresti. Í sumar verða 16 ár liðin frá því Kotbýlið var formlega opnað og því sé eðlilegt að kominn sé tími á stórar viðhaldsaðgerðir.

„Raki hefur farið illa með timbur í grind og þaki, auk þess sem snjóþyngsli til viðbótar við þungann af torfinu hafa skekkt húsgrindina,“ segir Anna.

Galdrasýningin fékk veglegan styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamanna­staða til að laga Kotbýlið svo hægt verði að opna aftur fyrir aðgang gesta að húsinu og sýningunni þar inni. Í lok sumars 2018 var Kotbýlinu lokað fyrir aðgangi gesta enda talin hætta á að þakið myndi hrynja. Styrkurinn úr sjóðnum nemur 4,6 milljónir og mun að sögn Önnu duga til að gera nauðsynlegar lagfæringar á húsinu sjálfu.

Skemmtileg stemning í vinnuhópnum

Verkefnið við lagfæringar er stórt, en sjálfboðaliðar fjarlægðu allt torf af Kotbýlinu svo hægt væri að vinna í timburverkinu. Þetta er mikið verk þar sem ekki er hægt að komast með vinnuvélar að byggingunni. Því þurfti að stinga allt upp í höndum og mikið fjarlægt á hjólbörum en eitthvað með kerru og beltahjólbörum.

„Það skapaðist skemmtileg stemning hjá vinnuhópnum enda gott veður og allir lögðu sig fram. Á eftir gátu sjálfboðaliðar farið í sund í Gvendarlaug við hliðina á Kotbýlinu en svo skemmtilega vill til að lagfæringar á umhverfi laugarinnar fengu líka styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til að bæta og auka öryggi,“ segir Anna. Um kvöldið var svo veisla fyrir þátttakendur á Hótel Laugarhóli og segir hún að þeir hafi allt gott átt skilið fyrir dýramæta aðstoð og velvilja.

Sláttustafir, til vinstri. Þessa stafi skal rista á efri orfhælinn og bera í þá blóð úr lífæð á vinstri hendi. Til hægri er er stafur til að nota ef ólán er á fénaði. Rist þennan staf á eik og graf í gólfið og lát féð ganga þar yfir.

Eitt helsta aðdráttaraflið á Ströndum

Galdrasýningin er eitt helsta aðalaðdráttarafl ferðamanna á Ströndum og á venjulegu ári hafa gestir verið yfir 16 þúsund manns, en sýningin er opin allt árið. Veitingasala er í sömu byggingu á Hólmavík sem styður við rekstur safnsins. Á Galdrasýningunni eru fjölbreyttir menningarviðburðir allt árið auk þess sem sýningin heldur úti vefverslun þar sem seldar eru bækur um galdra, rúnir og íslenska þjóðtrú á erlendan markað.

Þurfti ekki stór áföll til að hungurvofan berði að dyrum

„Meirihluti alþýðufólks fyrr á öldum voru leiguliðar sem bjuggu á kotjörðum eða vinnufólk og kjör þeirra hafa ekki verið góð. Fjölmargar jarðir báru mjög lítinn bústofn og ekki hefur þurft stór áföll til að hungurvofan berði að dyrum. Það er því ekki undarlegt að baráttu um jarðnæði bregði fyrir í galdramálum og búandakarlakukl sé algengt í galdrasögum og þjóðtrú, jafnvel meingaldrar til að gera nágrannanum erfitt fyrir. Tilgangurinn með galdrastöfunum segir okkur mikið um amstur, áhyggjur og erfiði alþýðufólks. Mikið af galdrastöfum í galdraskræðum sem hafa varðveist er ætlað að notast við í búskap,“ segir Anna.

Til að búskaparbaslið gengi betur

Hún segir að vinnuaðferðir hafi fram eftir öldum verið frumstæðar og mesta furða hvað fólk afrekaði með líkamann sem aðalverkfærið, t.d. við að bera tað á tún eða flytja mó heim að bæ. „Sumt af því sem þurfti að gera var hrein púlvinna, eins og að mala taðköggla á tún með kláru. Til aðstoðar við puðið greip fólk til ólöglegra aðferða svo lengi sem það trúði á töframátt tungunnar og nytsemi galdrastafa. Sláttur var auðveldari ef ljárinn beit vel og þá ekki úr vegi að nota stafi, galdravers og særingar, til að létta sér lífið og búskaparbaslið gengi betur.“

Hægt er að kynna sér Galdrasýn­inguna á Ströndum nánar á vefsíðunni galdrasyning.is. 

Anna Björg Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri Galdrasýningarinnar á Ströndum, með tilbera sem er hluti af þeirri sýningu.

Ákvörðun felld úr gildi
Fréttir 21. nóvember 2024

Ákvörðun felld úr gildi

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að nýlega samþykktar undaþágu...

Skráð heildartjón rúmur milljarður
Fréttir 21. nóvember 2024

Skráð heildartjón rúmur milljarður

Skráð heildartjón vegna kuldakasts og annars óvenjulegs veðurfars á árinu er rúm...

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu
Fréttir 21. nóvember 2024

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu

Áður en Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm boðaði Kaupfélag Skagfirðinga (KS) ...

Undanþágan dæmd ólögmæt
Fréttir 21. nóvember 2024

Undanþágan dæmd ólögmæt

Óvissa er uppi um framhald samruna og hugmynda Kaupfélags Skagfirðinga (KS) um h...

Pólar hestar fyrirtæki ársins
Fréttir 19. nóvember 2024

Pólar hestar fyrirtæki ársins

Markaðsstofa Norðurlands hefur valið hestaleiguna Pólar hestar sem fyrirtæki árs...

Byggja stóra íþróttamiðstöð
Fréttir 18. nóvember 2024

Byggja stóra íþróttamiðstöð

Í Árnesi er verið að byggja fyrstu íþróttamiðstöðina í Skeiða- og Gnúpverjahrepp...

Afstaða framboða til landbúnaðarmála
Fréttir 15. nóvember 2024

Afstaða framboða til landbúnaðarmála

Stjórnmálaflokkarnir sem eru í framboði til alþingiskosninga, sem fram fara 30. ...

Nýjar höfuðstöðvar
Fréttir 15. nóvember 2024

Nýjar höfuðstöðvar

Samkvæmt ákvörðun Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðher...