Vegfarendum ógnað vegna ólöglegs ljósabúnaðar
Í ljósi mikillar aukningar á umferð síðustu ára vegna fjölgunar ferðamanna hefur lögreglan áhyggjur af ljósanotkun á eftirvögnum og landbúnaðartækjum í umferðinni.
Lögreglustjórinn á Suðurlandi segir að brögð séu að því að eftirvagnar og önnur landbúnaðartæki séu algerlega ljóslaus og skapa þar af leiðandi talsverða hættu í umferðinni.
Þá ber sérstaklega að nefna heimasmíðaða heyvagna (gamla baggavagna). Einnig má nefna stóra rúlluflutningavagna sem eru komnir yfir 6 metra að lengd og þurfa þar af leiðandi hliðarljós. Til eru nokkur dæmi þess á starfssvæði lögreglustjórans á Suðurlandi að umferðaróhöpp hafi orðið vegna slælegrar ljósanotkunar á eftirvögnum dráttarvéla. Þá hefur lögregla einnig orðið vör við að bændur noti vinnuljós aftan á dráttarvélunum til að bæta úr ljósleysi á eftirvagni. Það getur skapað mikla hættu fyrir umferð sem kemur aftan að vélinni. Í umferðarlögum frá 1987 nr. 50 segir í 32. gr. „Við akstur vélknúins ökutækis skulu lögboðin ljós eða önnur viðurkennd ökuljós vera tendruð“. Þá segir í sömu grein:
„Ljós má eigi nota þannig að valdið geti öðrum glýju“.
Umferð um þjóðvegi landsins hefur aukist verulega á síðustu árum og mikil fjöldi ökumanna eru erlendir ferðamenn með mismikla reynslu í umferðinni. Því er enn meiri ásæða til að minna menn á lögboðna ljósanotkun. Auðvelt er að nálgast ljósabúnað af ýmsum gerðum í verslunum.
Lögreglan á Suðurlandi vill hvetja bændur og aðra þá sem eru með eftirvagna til að bæta úr þessu hið fyrsta. Bent er á reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822, en þar er útlistað um áskilin og leyfð ljósker.