Margrét Ágústa Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands.
Margrét Ágústa Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands.
Mynd / sá
Fréttir 30. október 2024

Vegurinn áfram mun ráðast af nýliðun og nýsköpun

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Nýliðun, afkomutrygging, nýsköpun, fæðuöryggi og umhverfismál voru efst á baugi á nýliðnum degi landbúnaðarins.

Á degi landbúnaðarins 11. október sl. efndu Bændasamtök Íslands (BÍ) til málþings á Hótel Selfossi þar sem ýmsir voru kallaðir til framsögu og umræðna í panel.

Trausti Hjálmarsson, formaður BÍ, sagði í opnunarræðu að íslenskt samfélag væri í bílstjórasætinu þegar umgjörð íslenska landbúnaðarins væri annars vegar. Það væri sem betur fer sinnar eigin gæfu smiður.

„Við erum vissulega ekki óháð aðstæðum í alþjóðasamfélaginu, stríðsátökum, náttúruhamförum, hlýnun jarðar o.s.frv. Í aðalatriðum ráðum við samt för þegar nýting hinna íslensku náttúruauðlinda okkar, ræktun, framleiðsla matvæla og gæði þeirra er annars vegar,“ sagði Trausti.

Eitt breyttist samt ekki og ávallt væri hægt að ganga að því vísu að fólk þyrfti að borða.

„Væntanlega mun það heldur ekki breytast að landsmönnum haldi áfram að fjölga. Til viðbótar munu kröfurnar um gæði matvælanna og heilbrigðan uppruna þeirra verða stöðugt fyrirferðarmeiri,“ sagði hann jafnframt.

Trausti sagði tvo þætti standa upp úr fyrir framtíð landbúnaðarins: „Nýliðun svo að landbúnaðurinn lifi og nýsköpun sem vonandi mun með margvíslegum hætti bæði auka tekjur og svo sjálfbærni samfélagsins í fæðuframleiðslu sinni,“ sagði hann.

Íslendingar hafa forskot

Margrét Ágústa Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri BÍ, ræddi m.a. fæðuöryggi sem yrði að vera efst á baugi bæði hjá bændastéttinni og stjórnvöldum.

„Það kallar ekki eingöngu á að við verðum hér á landi algjörlega sjálfum okkur næg um matvæli, heldur er mikilvægast að auka framleiðsluna, fjölbreytni hennar og tryggja að hún sé sjálfbær, tryggja að aðfangakeðjan sé órofin,“ sagði Margrét.

Hún ræddi sýklalyfjaónæmi í tengslum við matvælaöryggi og minnti á að Ísland hefði þar algjöra sérstöðu vegna lítillar sýklalyfjanotkunar í landbúnaði og lágs hlutfalls sýklalyfjaónæmis. Rýmri innflutningur og tollareglur gætu stefnt þessu í hættu og eftirliti með innflutningi hvað þetta varðar sé sérlega ábótavant þrátt fyrir að sýklalyfjaónæmi sé mesta ógn sem steðjar að lýðheilsu mannsins á 21. öldinni skv. Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni.

Gullhúðun er vandamál

Margrét Einarsdóttir, prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík, flutti framsögu um gullhúðun EES-gerða. Gullhúðun er notað um það þegar stjórnvöld einstakra ríkja ganga lengra og gera ríkari kröfur í innleiðingarlöggjöfinni en felst í þeim lágmarkskröfum sem gerðar eru í EES-löggjöfinni sem verið er að innleiða.

Svo virðist sem beiting gullhúðunar í íslenskri löggjöf sé talsvert algeng. Af 27 stjórnarfrumvörpum sem innleiddu tilskipanir EES í íslenskan rétt og skoðuð voru ítarlega voru 11 þar sem gullhúðun hafði verið beitt, eða í um 40 prósent tilvika. Margrét segir engar vísbendingar um að beiting gullhúðunar fari minnkandi. Á árabilinu 2019 til 2022 var gullhúðun t.a.m. beitt í fjórum af átta innleiðingarfrumvörpum. Rökstuðningur fyrir því að beita gullhúðun var nær undantekningarlaust takmarkaður.

Margrét fjallaði um tillögur um úrbætur en hún sat ásamt fleirum í starfshópi utanríkisráðuneytisins um aðgerðir gegn gullhúðun sem lagði tillögurnar fram í byrjun sumars. „Tillögur starfshópsins ganga út á að strax á upphafsstigum lagasetningar geti hagsmunaaðilar áttað sig á því hvort til standi að beita gullhúðun og að umfjöllun um slíkt verði auk þess aðgengileg og skýr í sérstökum kafla í innleiðingarfrumvörpum,“ sagði hún. Mikilvægt sé þó að hafa í huga að tillögurnar feli ekki í sér neina töfralausn fyrir hagsmunaaðila.

„Enn þá mun vera þörf á því fyrir þá, eftir atvikum, að berjast gegn gullhúðun á hinum pólitíska vettvangi. Þá vil ég nefna að mikilvægt er að hagsmunasamtök, eins og t.d. Bændasamtökin, fylgist ekki einungis með EES-löggjöfinni eftir að búið er að taka hana upp í EES-samninginn og hún er komin í innleiðingarferlið, heldur líka á meðan verið er að móta löggjöfina á vettvangi Evrópusambandsins.

Ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi hér á landi er alltaf möguleiki á að Evrópusambandið fallist á undanþágur eða annars konar aðlaganir til að koma til móts við slíkar aðstæður. En ef enginn fylgist með hvað er í farvatninu hjá stofnunum Evrópusambandsins kunna íslensk stjórnvöld að missa af slíku tækifæri,“ sagði Margrét enn fremur.

Nýju lánin breyta stöðunni

Arnar Már Elíasson, forstjóri Byggðastofnunar, fjallaði um útlánastarfsemi Byggðastofnunar, þ.á m. nýliðun í landbúnaði og kynslóðaskiptalán þar sem mögulegt er að fá allt að 90% lán vegna kaupa á bújörðum fyrir unga bændur.

„Frá því að farið var að veita slík lán hafa þau stuðlað að kynslóðaskiptum á 42 íslenskum bújörðum,“ útskýrði Arnar. Vanskilahlutfall bænda væri einkar lágt þrátt fyrir gríðarlega erfitt vaxtaumhverfi. „Vanskilahlutfall landbúnaðarlána hjá Byggðastofnun er 1% sem er er talsvert lægra en vanskilahlutfall lánasafns stofnunarinnar í heild. Hlutur bænda er um helmingur af lánasafni Byggðastofnunar sem alls er um 26 milljarðar króna,“ sagði Arnar.

Kvótakerfi á raforkuna

Sveinn Margeirsson, framkvæmdastjóri nýsköpunar og loftslagsmála hjá Brimi og fv. forstjóri Matís, fjallaði um tækifærin í endurnýjanlegum auðlindum og upplýsingagjöf um sjálfbæra þróun. Sveinn sagði m.a. að aukin raforkuframleiðsla myndi ekki leysa úr óvissu í raforkuþörf úrvinnslugreina eins og landbúnaðar. Til að unnt væri að byggja upp verðmætasköpun um allt land og til langs tíma væri nauðsynlegt að stýra raforkunotkun þannig að hagur samfélagsins væri hafður að leiðarljósi.
Hann gerði að tillögu sinni að sett yrði upp kvótakerfi, þar sem a.m.k. 20% af framleiddri raforku yrðu nýtt til verðmætasköpunar úr endurnýjanlegum auðlindum. Sölufyrirkomulag raforku tæki mið af sveiflu í framboði endurnýjanlegra auðlinda og stuðlað yrði að samvinnu landbúnaðar og sjávarútvegs um orkunotkun og uppbyggingu innviða. Fara ætti í samstarf við sveitarfélög um allt land, t.d. tengt nýtingu glatvarma og uppbyggingar innviða.

Fundarstjóri málþingsins var Jón Bjarnason, bóndi í Skipholti á Flúðum og oddviti í Hrunamannahreppi.

Úr panel:

„Að fá nýtt fólk inn í greinina og að örva ættliðaskiptin, sem hægt er að gera með breytingu á regluverki og löggjöf, er eitt meginstef þess sem koma skal.“

Runólfur Sigursveinsson, ráðunautur hjá RML

________________________

„Það er ekki langt síðan að eina markmið landbúnaðar var matvælaframleiðsla. Svo gerist það tiltölulega nýlega að landbúnaðurinn verður einn stærsti leikandinn í baráttunni gegn loftslagsvánni. Við sjáum það í matvælastefnu, landbúnaðarstefnu og í áherslum frá stjórnvöldum að það tekur miklu meira pláss; umræðan og hlutverk þeirra sem halda á landinu og hugsa um landið. Við erum svolítið að fóta okkur í nýjum veruleika, sem gefur gríðarleg tækifæri, en þetta er áskorun og tekur svolítinn tíma.“

Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í landbúnaði.

________________________

„Aðalatriðið er að menn taki ákvarðanir um hvernig þeir ætla að nýta landið. Það vantar hér betra regluverk um landnotkun. Það er allt í lagi að hver sem er eigi land en spurningin er hvernig eigi að nýta það. ... Það er ákaflega hættulegt að ganga á landbúnaðarland eins og málum er háttað. Það er greinilegt að landbúnaðarland mun hækka mjög í verði. Það verður aukin eftirspurn og því aukin krafa um að menn setji hér skýrar landnotkunarreglur og geti vísað til almennra reglna sem gilda fyrir alla þannig að ekki sé verið að ráðstafa góðu landbúnaðarlandi undir eitthvað annað.“

Björn Bjarnason, fv. ráðherra.

________________________

.„Ég vil ekki tala um endurnýjun búvörusamninganna heldur um að verið sé að fara inn í nýtt fyrirkomulag af því að það er augljóst að það fyrirkomulag sem við höfum haft hefur ekki verið að skila þeim árangri sem að ég held að allavega bændur hafi vonast eftir. Við verðum að endurhugsa þetta. ... Við þurfum að vinna íslenskum landbúnaði betri sess en mér finnst hann hafa hjá mörgum í dag.“

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, fv. matvælaráðherra og þingmaður VG

________________________

„Við erum svolítið eftir á hér á Íslandi með að innleiða aukið svigrúm fyrir greinina. Við erum að veita svigrúm frá samkeppnislögum árið 2024 á Íslandi. Þetta var fyrst gert 1996-8 í Noregi og svo 2004. Þetta er búið að vera í sextíu ár í Evrópusambandinu. En við erum að koma inn núna. Það er búið að innleiða regluverk í Evrópusambandinu þar sem aðgerðir sem auka sjálfbærni, þ.e.a.s. samningar á milli frumframleiðenda og jafnvel verslana, eru undanþegnar samkeppnislögum vegna þess að þær stuðla að aukinni umhverfisvernd og sjálfbærni. Við erum ekki að ræða þetta hérna. Við erum ekki að ræða nægjanlega aukið svigrúm fyrir heimavinnslu eða almennt meira frelsi fyrir bændur.“

Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í landbúnaði.

________________________

„Þessir tveir stólpar sem blasa við okkur eru einmitt að nýliðun sé til staðar og að við fjárfestum og þróumst, hvort sem það er í nýsköpun, þróun framleiðslu eða bættum búskaparháttum, sem við svo sannarlega erum að taka samtal um enda hefur það aldrei verið mikilvægara.“

Steinþór Logi Arnarsson, bóndi á Stórholti í Dölum og formaður Ungra bænda.

________________________

„Við hjá SI höfum talað fyrir því sem kallast millistórir notendur raforku. Nú eru stórnotendur og aðrir notendur. Þið þekkið það vel hvað dreifikostnaðurinn er þungur baggi í rekstri, úti á landi sérstaklega. Það eru fyrirtæki sem nota verulega mikla orku en eru ekki stórnotendur. Til að stuðla að m.a. framgangi atvinnulífs úti á landi þarf að tryggja að hér verði skilgreindir millistórir notendur, það vantar þó lagalega skilgreiningu á millistórum notanda, sem njóti sérkjara vegna þess að þeir eru að nota mikla raforku, eru þjóðhagslega mikilvægir en þurfa þá að njóta þess líka í kjörum.“

Lárus M. K. Ólafsson, sérfræðingur á sviði orku og umhverfismála hjá Samtökum iðnaðarins.

________________________

„Ég hnýt um að við erum að tala um að framleiða mat með sjálfbærum hætti en athyglin er ekki á hverjir vinna störfin. Launafólkið gleymist í þessari umræðu. Við ættum að tryggja aðbúnað launafólks og menntun þeirra sem starfa í landbúnaði.“

Halldóra Sigríður Sveinsdóttir, formaður Bárunnar stéttarfélags.

________________________

„Á báðum síðustu tveimur árum hafa komið sérstakar aukagreiðslur frá hinu opinbera inn í landbúnaðinn. 2022 var það Úkraínuþátturinn, óbeint, þ.e.a.s. hækkun áburðarverðs á þeim tíma, og 2023 var þessi margumræddi fjármagnskostnaður sem kom til skjalanna í auknum mæli vegna hækkandi vaxtastigs og verðbótaþáttarins. Þetta eru þá aukagreiðslur umfram þá búvörusamninga sem eru í gildi. Fyrir stéttina í heild hlýtur þetta að vera áhyggjuefni m.t.t. reynslu af núgildandi búvörusamningum. Og fyrir stjórnvöld líka með tilliti til hvers konar stuðningsform eigi að vera til framtíðar við greinina.“

Runólfur Sigursveinsson, ráðunautur hjá RML.

________________________

„Til framtíðar litið, til að matvælaframleiðsla á Íslandi geti haldið áfram að þróast og dafna, þá þurfum við að taka heildarstarfsskilyrði landbúnaðarins frá a til ö, feta okkur í gegnum það vegna þess að í grunninn er þetta alltaf þannig að þeir sem eru að framleiða matinn þurfa að fá laun fyrir það sem þeir eru að gera. Stór hluti af starfsskilyrðum er að tryggja ákveðna afkomuvernd, þ.e.a.s. þú verður að hafa einhverja afkomutryggingu á því sem þú ert að gera og sömuleiðis ef þú lendir í tjónum.“

Þórarinn Ingi Pétursson, formaður atvinnuveganefndar.

________________________

„Síðan erum við með regluverk sem stenst ekki þær kröfur sem við viljum að séu um frjálsræði og svigrúm manna. Viðskiptaráð hefur gefið út skýrslu um eftirlitsiðnaðinn og þar er mælt með því, til dæmis, að auka gildi faggildingar. Eftirlitið með hollustu og matvælum verði fært frá ríkinu yfir til einkaaðila. Og það eru heimildir til þess í lögum sem ekki hafa verið nýttar. Þessar heimildir voru nýttar varðandi bifreiðaskoðun og eftirlit með öryggi bifreiða og það hefur leitt til þess að bifreiðum hefur fjölgað en skoðunarkostnaðurinn hefur lækkað. Af hverju eru ekki þessar leiðir farnar í landbúnaði til að skapa jafnréttisgrundvöll, opna möguleika fyrir vinnslu og fullvinnslu og draga úr regluverkinu?“

Björn Bjarnason, fv. ráðherra og meðhöfundur Ræktum Ísland.

________________________

„Launaþátturinn er áhyggjuefni. Þær tölur og sá breytileiki sem við erum að sjá í þeim þætti sérstaklega. Ég skoðaði m.a. varðandi mjólkurframleiðendur og reksturinn 2023 þau gögn sem við erum komin með vegna þess árs. Ég tók út úr þeim gögnum mismunandi skuldastöðu búanna og síðan launaþátt búanna. ... Vanskil hjá bændum eru ótrúlega lítil þrátt fyrir oft og tíðum mjög erfiða stöðu fjárhagslega. Þetta er í raun og veru áhyggjuefni í núinu og til framtíðar.“

Runólfur Sigursveinsson, ráðunautur hjá RML.

13 myndir:

Samvinna ungra bænda
Fréttir 31. október 2024

Samvinna ungra bænda

Stjórnir ungbændahreyfinga á öllum Norðurlöndunum eiga í stöðugum samskiptum til...

Vilja reisa mannvirki
Fréttir 30. október 2024

Vilja reisa mannvirki

Linde Gas ehf. hefur óskað eftir deiliskipulagsbreytingu á lóð sinni á Hæðarenda...

Vegurinn áfram mun ráðast af nýliðun og nýsköpun
Fréttir 30. október 2024

Vegurinn áfram mun ráðast af nýliðun og nýsköpun

Nýliðun, afkomutrygging, nýsköpun, fæðuöryggi og umhverfismál voru efst á baugi ...

Leitað að verndandi arfgerð
Fréttir 30. október 2024

Leitað að verndandi arfgerð

Heilar 145 geita hafa verið rannsakaðir en enn ekki fundist arfgerð með mótstöðu...

Útrunnið hráefni til diskósúpugerðar
Fréttir 29. október 2024

Útrunnið hráefni til diskósúpugerðar

Slow Food Reykjavík hélt hátíð í garðskála Grasagarðs Reykjavíkur dagana 18. og ...

Dagur sauðkindarinnar
Fréttir 29. október 2024

Dagur sauðkindarinnar

Þann 12. október síðastliðinn var dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu haldi...

Nýr formaður Lífeyrissjóðsins
Fréttir 29. október 2024

Nýr formaður Lífeyrissjóðsins

Vala Valtýsdóttir er nýr formaður stjórnar Lífeyrissjóðs bænda. Aukaaðalfundur s...

Vindorkugarður á borð Skipulagsstofnunar
Fréttir 28. október 2024

Vindorkugarður á borð Skipulagsstofnunar

Skipulagsstofnun birti þann 18. október til umsagnar matsáætlun fyrir mat á umhv...