Veiruskita herjar á eyfirska nautgripi
Matvælastofnun brýnir fyrir kúabændum í Eyjafirði, í Þingeyjarsýslum og á Héraði að huga vel að sóttvörnum til að forðast að veiruskita sem hefur geisað á Eyjafjarðarsvæðinu að undanförnu breiðist frekar út. Virðist hún vera farin að stinga sér niður í Þingeyjarsýslum og á Héraði.
Í umfjöllun Matvælastofnunar um málið kemur fram að um bráðsmitandi sjúkdóm sé að ræða í nautgripum, en ekki hafi tekist að greina orsök sjúkdómsins sem svipi mjög til sjúkdóms sem kallist á ensku „winter dysentery“. Talið er að orsök þess sjúkdóms sé nautgripakórónuveira, sem hefur þó ekki verið staðfest.
Smitast með saur og slími frá nösum
Sjúkdómurinn smitast með saur og slími frá nösum og best mjög auðveldlega með fólki, dýrum og ýmsum hlutum, svo sem múlum, fatnaði, tækjum, bifreiðum og fleiru. „Oftast smitast allir næmir gripir á búinu á nokkrum dögum og sjúkdómurinn gengur yfir á einni til tveimur vikum. Sjúkdómurinn er ekki hættulegur fólki og hefur ekki áhrif á neysluhæfni afurða,“ segir í umfjöllun Matvælastofnunar.
„Afleiðingar sjúkdómsins geta verið alvarlegar og langvarandi þar sem sjúkdómurinn veikir ónæmiskerfi kúnna þannig að þær verða viðkvæmari fyrir öðrum sjúkdómum, m.a. júgurbólgu og öðrum bakteríusýkingum. Sýkingin eykur hættu á doða hjá kúm sem komnar eru nálægt burði þegar þær veikjast. Mikilvægt er að kýrnar hafi góðan aðgang að drykkjarvatni og salti. Kýr sem veikjast falla verulega í nyt á meðan þær eru veikar og komast sjaldan í fulla nyt aftur á yfirstandandi mjaltaskeiði og veikin hefur einnig neikvæð áhrif á frjósemi þeirra.
Mikilvægt er að bændur hugi vel að sóttvörnum á búum sínum og dragi eins og mögulegt er úr umgengni utanaðkomandi fólks um búið og flutningi gripa og tækja milli búa. Þeir sem fara inn í gripahús ættu að nota hlífðarfatnað og stígvél búsins eða einnota skó-/stígvélahlífar. Tæki sem notuð eru á búinu þarf að þrífa og sótthreinsa eins og kostur er, áður en þau eru notuð á öðrum búum.
Matvælastofnun og Tilraunastöð HÍ að Keldum óska eftir samstarfi við bændur um töku sýna til rannsókna. Bændur sem áhuga hafa að taka þátt eru vinsamlega beðnir að hafa samband við sinn dýralækni um sýnatökur en Matvælastofnun hefur sent dýralæknum leiðbeiningar um hvernig sýni skuli taka,“ segir ennfremur í umfjöllun Matvælastofnunar.