Verð á kjarnfóðri lækkar
Lífland lækkaði verð á kjarnfóðri 1. september síðastliðinn um 2%. Um leið lækkaði verð á helstu hráefnum, mismikið eftir tegundum. Í kjölfarið lækkaði Fóðurblandan verð á sínu kjarnfóðri um sömu prósentutölu.
Í tilkynningu frá fóðurfyrirtækjunum kemur fram að lækkanirnar séu í samræmi við gengisþróun og lækkun á hráefnaverði á heimsmarkaði.
Jóhannes Baldvin Jónsson forstöðumaður landbúnaðarsviðs Líflands, segir nánast samfellda lækkun hafa verið á fóðurverði hjá þeim frá því í byrjun árs 2013. „Verð hjá okkur hefur lækkað í samræmi við verðþróun allt þar til núna síðsumars þegar verðhækkun varð, vegna hækkunar á sojamjöli. Við kaupum hráefni til fóðurgerðar að langmestu leyti frá löndum sem eru með evru. Soja er það hráefni sem hefur einna mest áhrif á verðþróun fóðurs. Maís og hveiti eru einnig stórir þættir í kjarnfóðurgerð,“ segir Jóhannes.