Verð á mjólk hækkar
Verðlagsnefnd búvara tók fyrir jól ákvörðun um hækkun lágmarksverðs mjólkur til bænda og heildsöluverðs mjólkur og mjólkurafurða sem nefndin verðleggur.
Lágmarksverð 1. flokks mjólkur til bænda hækkaði um 2,38%, úr 116,99 kr./ltr í 119,77 kr./ltr. þann 1. desember 2022.
Þann 1. janúar hækkaði heildsöluverð mjólkur og mjólkur vara sem nefndin verðleggur um 3,5%. Þannig verður heildsöluverð á mjólk, í eins lítra fernum, 171 króna. Hálfur lítri af rjóma mun kosta 595 í heildsölu og 45% ostur í heilum og hálfum stykkjum mun kosta 1.671 krónu. Álagning smásöluverslana er þó frjáls og því getur verðið orðið misjafnt milli söluaðila.
Í tilkynningu frá verðlagsnefnd búvara segir að verðhækkunin komi til vegna kostnaðarhækkana við framleiðslu og vinnslu mjólkur frá síðustu verðákvörðun 1. september 2022.
„Frá síðustu verðákvörðun til desembermánaðar 2022 hafa gjaldaliðir í verðlagsgrundvelli kúabús hækkað um 2,38%. Á sama tímabili hefur vinnslu og dreifingarkostnaður afurðastöðva hækkað um 5,06% að meðtöldum áhrifum kjarasamninga á launakostnað og er þetta grundvöllur hækkunar heildsöluverðs auk hækkunar á afurðaverði.“