Verðmæti hrossakjöts
Útflutningsverðmæti hrossakjöts á fyrstu níu mánuðum ársins 2023 eru orðin hærri en útflutningstekjur ársins 2022.
Árið 2022 nam útflutningur hrossakjöts rúmum 197 tonnum og voru útflutningstekjurnar tæpar 95 milljónir króna. Á fyrstu níu mánuðum ársins 2023 hafa rúm 174 tonn af hrossakjöti verið flutt út fyrir tæpar 100 milljónir króna.
Munar þar töluverðu á hærra kílóaverði til Sviss sem var árið 2022 að meðaltali 1.376 kr/kg en er í ár að meðaltali 1.878 kr/kg að því er fram kemur í tölum Hagstofu Íslands.
Mikill munur er á uppgefnu verði fyrir hrossakjöt á tölunum en enginn greinamunur er þar gerður á skrokkhlutum, fellur allt nýtt eða fryst hrossakjöt undir sama tollskrárnúmerið.
Hrossakjöt er flutt í hverjum mánuði til Sviss en nemur þó minna en 20% af því magni sem flutt er út á ársgrundvelli. Verðmæti þeirra eru þó langhæst í samanburði við önnur útflutningslönd, eða ríflega 50% af útflutningstekjum hrossakjöts.
Stærstur hluti kjötsins hefur í ár farið til Kasakstan, eða um 30% af útflutningsmagni fyrstu níu mánuði ársins. Kasakstan kom nýtt inn á lista útflutningslanda árið 2022 en verðið þar er lágt í samanburði við önnur lönd, að meðaltali 224 krónur fyrir kíló í ár.
Auk Sviss og Kasakstan var umtalsvert magn af hrossakjöti sent til Hollands, Ítalíu og Japans í ár. Er meðalkílóverð til Hollands um 332 kr. en til Japans 811 kr.
Árið 2021 nam útflutningur tæpum 390 tonnum og voru útflutningstekjurnar rúmlega 130 milljón krónur. Þá fór um 10% útflutningsmagns til Rússlands.
Árið 2022 var rúm 20% af allri framleiðslu hrossakjöts útflutt en árið 2021 nam hlutfallið 48%.