Verður forstjóri til áramóta
Auður H. Ingólfsdóttir, sem gegnt hefur starfi sviðsstjóra loftslagsmála og hringrásarhagkerfis hjá Umhverfisstofnun, hefur verið skipuð forstjóri stofnunarinnar til áramóta.
Þann 1. janúar 2025 tekur ný Umhverfis- og orkustofnun til starfa og er hluti af sameiningarferli stofnana í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti.
Sigrún Ágústsdóttir, sem var forstjóri Umhverfisstofnunar, tók við forstjórastöðu nýrrar Náttúruverndarstofnunar 1. október.
Í tilkynningu ráðuneytisins kemur fram að Auður sé alþjóðastjórnmálafræðingur að mennt, með áherslu á alþjóðleg umhverfismál, auðlindanýtingu og sjálfbæra þróun. Hún hafi starfað sem sviðsstjóri á Umhverfisstofnun frá árinu 2023.
Ný Umhverfis- og orkustofnun tekur við starfsemi Orkustofnunar og hluta af starfsemi Umhverfisstofnunar. Hún fer með stjórnsýslu loftslags-, umhverfis- og orkumála og málefni auðlindanýtingar.
Megintilgangur hennar verður að stuðla að því að markmið stjórnvalda í loftslagsmálum gangi eftir, auk þess að leggja áherslu á sjálfbæra og ábyrga nýtingu auðlinda með náttúruvernd og lágmörkuð umhverfisáhrif að leiðarljósi.