Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Grétar Gústavsson og Karl G. Friðriksson.
Grétar Gústavsson og Karl G. Friðriksson.
Fréttir 22. desember 2022

Vestfjarðahringur á Ferguson

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Út er komin bókin Vinir Ferguson og Vestfjarða þar sem ferðasögu félaganna Karls G. Friðrikssonar og Grétars Gústavssonar er gerð skil.

Með ferðinni vildu þeir láta gott af sér leiða og vekja athygli á verkefninu Vinátta, sem er forvarnarverkefni Barnaheilla gegn einelti. Árið 2015 fóru Karl og Grétar þjóðveg 1 á tveimur Massey Ferguson 35X árgerð 1963 til að vekja athygli á áðurnefndu verkefni. Mjög fljótlega eftir að þeir luku við þann hring var þeim bent á að þeir ættu stóran hluta landsins eftir – þ.e. Vestfirði, sem þeir gerðu skil í sumar.

Hér birtist á prenti skemmtileg frásögn Karls af þessari ferð og er bókin ríkulega myndskreytt. Lesendur fá annars vegar innsýn í þá núvitundarhugleiðslu sem fylgir því að sitja einn í traktor á 25 kílómetra hraða sem ekið er í gegnum fallega náttúru. Hins vegar eru sögur af öllu því fólki sem þeir hittu á leiðinni, enda vildu allir vita á hvaða ferðalagi tveir eldri menn á tveimur fagurrauðum traktorum væru. Þeir sem hafa gaman af ferðasögum og dráttarvélum munu hafa ánægju af lestri þessa rits. Allur ágóðinn af sölu bókarinnar rennur til verkefnisins Vinátta gegn einelti hjá Barnaheillum.

Skylt efni: bókaútgáfa