Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 mánaða.
Sigríður Ólafsdóttir frá Víðidalstungu, sem er af mörgum þekkt sem Sigga systir, hefur gjarnan mörg járn í eldinum. Að auki við að vera bóndi og ráðunautur er hún í sveitarstjórn og á sæti í stjórn margra félaga. Ættartengsl systranna Sigríðar og Hallfríðar leyna sér ekki. Hér heldur sú síðarnefnda á dóttur sinni, Bergrúnu.
Sigríður Ólafsdóttir frá Víðidalstungu, sem er af mörgum þekkt sem Sigga systir, hefur gjarnan mörg járn í eldinum. Að auki við að vera bóndi og ráðunautur er hún í sveitarstjórn og á sæti í stjórn margra félaga. Ættartengsl systranna Sigríðar og Hallfríðar leyna sér ekki. Hér heldur sú síðarnefnda á dóttur sinni, Bergrúnu.
Mynd / ál
Viðtal 5. júní 2024

Sigga systir hvers?

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Sigríður Ólafsdóttir rekur 450 kinda sauðfjárbú í Víðidalstungu með systur sinni. Hennar helsta áhugamál er landbúnaður og er hún þakklát fyrir að fá að starfa á því sviði sem ráðunautur og bóndi.

Samfélagsmál skipta hana jafnframt máli, en hún er í sveitarstjórn og á sæti í fjölmörgum ráðum, félögum og nefndum.

Sigríður er af mörgum þekkt sem Sigga systir. Hún segir þetta viðurnefni eiga uppruna sinn til þess tíma þegar Hallfríður, eldri systir hennar, var við nám á Hvanneyri. Sigríður hafi gjarnan hringt í systur sína og þá hafi verið kallað eftir Hallfríði og tilkynnt að Sigga systir væri í símanum, en þetta var áður en farsímar urðu almenn eign. Þegar Sigríður fór sjálf á Hvanneyri var systir hennar enn þá í námi og var hún fyrst kölluð Sigga systir Hallfríðar sem styttist svo í Sigga systir. Eftir að Hallfríður var útskrifuð hélt Sigríður sínum nafnauka og þegar eldri systirin var kynnt fyrir fólki sem kunni eingöngu deili á þeirri yngri var oft sagt að hún væri „Hallfríður, systir Siggu systur.“

Ættartengsl systranna leyna sér ekki og segir Sigríður að þegar þær voru í kringum tvítugt hafi margir haldið að þær væru tvíburar, sem lagðist ekki alltaf vel í hana þar sem Hallfríður er fjórum árum eldri. „Það er hins vegar langverst þegar fólk er farið að halda að Hallfríður sé yngri, þá er það farið að taka út yfir allan þjófabálk,“ segir Sigríður í kímni.

Í áætlanagerð fyrir bændur

Eins og áður segir er Sigríður ráðunautur og starfar hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML). „Ég komst inn í ráðunautabransann með því að leysa af óléttar konur,“ segir hún, en Sigríður er jafnframt með meistaragráðu í búvísindum frá Landbúnaðarháskóla Íslands.

Eftir að hafa verið í afleysingum á nokkrum stöðum á landinu í þrjú ár fékk hún fullt starf þegar RML var stofnað árið 2013 og er hún með skrifstofu á Hvammstanga. „Maður er ekkert rosalega oft að gera það sama allan daginn alla daga,“ segir hún um starf ráðunautsins og bætir við að verkefnin séu mismunandi milli árstíða. Landbúnaður er helsta áhugamál Sigríðar og finnst henni forréttindi að fá að starfa á því sviði og kynnast þeim bændum sem hún vinnur fyrir um allt land.

Helsta hlutverk ráðunauta sé að veita bændum ráðgjöf. Misjafnt sé eftir sviðum hvaða verkefni fólk taki að sér, en hún sé mest í rekstrarráðgjöf og áburðarráðgjöf. Það fyrrnefnda felist að miklu leyti í gerð rekstraráætlana fyrir bú, til að mynda þegar fólk stendur í jarðakaupum, uppbyggingu eða endurfjármögnun.

Ungir bændur leiti oft til hennar og hefur Sigríður leiðbeint fólki við umsóknir á nýliðunarstuðningi og öðru því tengdu. Þegar komi að áætlanagerð fari flest öll samskiptin í gegnum tölvupóst og síma, á meðan önnur störf, eins og lambadómar á haustin, séu staðbundnari. Eitt af markmiðunum við stofnun RML á sínum tíma hafi verið að ráðunautar gætu sinnt öllu landinu, ólíkt því þegar búnaðarsamböndin á hverjum stað sáu um ráðgjöf.

RML stendur vel að mati Sigríðar og hefur fyrirtækið vaxið og dafnað á þeim rúmu tíu árum sem eru liðin frá stofnun þess. „Við erum alla vega ekki verkefnalaus, það er alveg á hreinu.“

Skrifstofa Sigríðar er á Hvammstanga og sérhæfir hún sig í gerð áburðar- áætlana og rekstrarráðgjöf fyrir bændur.

Í fjölda ráða og nefnda

„Ég hef eitthvað undarlega gaman af þessum félagsmálum,“ segir Sigríður. Hún er sveitarstjórnarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Húnaþingi vestra, formaður landbúnaðarráðs og með sæti í heilbrigðisnefnd. Þar að auki er hún varamaður í byggðarráði, formaður kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins, gjaldkeri í félagi sauðfjárbænda í sýslunni, ritari í stjórn Landssamtaka landeigenda, varamaður í deild sauðfjárbænda BÍ og varamaður í stjórn veiðifélagsins. „Ég veit ekki hvar ég ætti að koma eiginmanni fyrir í skipulaginu,“ en Sigríður hefur ekki fest ráð sitt enn þá. „Ég fer í það um sextugt þegar ég nenni ekki að vera lengur í pólitík.“

Sigríður er jafnframt áhugaljósmyndari og stundar listmálun og teikningu. Helstu viðfangsefnin hennar eru náttúran og landbúnaður, en hún tekur gjarnan myndir af skepnunum sínum. „Svo var ég einu sinni með bloggsíðu sem heitir sveito.is.

Þar var ég með dagbók sauðfjárbóndans og skrifaði eina færslu á viku í eitt ár,“ en þar er jafnframt hægt að sjá ljósmyndir Sigríðar.

Hún viðurkennir að hafa ekki sinnt bloggsíðunni um árabil. „Þegar maður er í öllum nefndum og ráðum sem maður finnur þá hefur maður ekki endilega tíma í önnur áhugamál.“

Sauðburður var nýhafinn þegar blaðamann bar að garði í byrjun maí.

Allir góðir í einhverju

Í Víðidalstungu eru 450 kindur og nokkur reiðhross. Að baki búrekstrinum standa systurnar Sigríður og Hallfríður, ásamt foreldrum þeirra. Hallfríður er aðal starfsmaðurinn á búinu á meðan Sigríður leggur hönd á plóg á álagstímum.

„Svo eru þetta vinnuskipti. Hallfríður er menntuð í fóðurfræði og ég er með rekstrarfræðina og áburðinn. Hún segir mér hvað ég á að gefa og svo panta ég áburðinn og þetta vinnst ljómandi vel saman.
Það er þannig hér eins og alls staðar annars staðar að það er enginn bestur í öllu, en allir góðir í einhverju.“

Hún segist ekki verða rík af sauðfjárbúskap, en reksturinn standi undir launum einnar manneskju allt árið. Þá sé búið ekki það stórt að það sé þörf á meira en einum starfsmanni utan álagstíma.

Galdurinn við að reka sauðfjárbú og hafa tekjur af því sé að vera grútur og stunda nákvæmnisbúskap. Þá skipti miklu máli að systurnar leigja jörðina á hagstæðu verði af foreldrum þeirra ásamt því sem þær nota verktaka í heyskapinn.

Í Víðidalstungu eru 450 kindur og nokkur reiðhross. Fjölskyldan sem rekur búið leggur áherslu á nákvæmnisbúskap og áætlanagerð til þess að reksturinn skili afkomu.

Niðurskurður tók á

Vestur-Húnavatnssýsla hefur verið illa leikin af riðu í sauðfé. Árið 1991 var svokallaður hreinsunarniðurskurður í Víðidalstungu þar sem riða hafði greinst á bæjunum í kring.

„Ég man það mjög vel því þetta sumar átti ég heimagang sem hét Snuðra. Hún var eins og hundurinn minn og elti mig út um allt. Svo þegar pabbi sagði okkur frá því að það þyrfti að lóga öllum kindunum spurði ég að því hvort ég gæti ekki geymt Snuðru upp frá hjá [nágrönnum okkar] á meðan hinar kindurnar væru teknar.

Það kostaði náttúrlega fullt af tárum og sorg þegar ég komst að því að það þyrfti að lóga henni Snuðru minni líka. Ég er mjög gleymin manneskja, en ég gleymi þessu aldrei því þetta var mjög mikið sjokk.“ Vegna þessa mikla návígis við sjúkdóminn sé hún sem sauðfjárbóndi aldrei fullkomlega örugg með sig. „Þetta lifir með manni aftast í kollinum og maður er rosalega vel vakandi fyrir einkennum.“ Síðustu ár hafi tekið á alla sauðfjárbændur á svæðinu eftir að nokkur tilfelli af riðu greindust.

„Það eru eitthvað svo miklar tilfinningar sem fylgja þessum blessuðu kindum. Þetta er ekkert eins og að maður þurfi að farga bílnum sínum.“

Mikil bjartsýni fylgi hins vegar því að fundist hafi verndandi arfgerðir í íslensku sauðfé sem geri kleift að rækta riðuna burtu í staðinn fyrir að þurfa að grípa til niðurskurðar þar sem hún greinist.

Miklar tilfinningar fylgja kindunum. Sigríður man vel eftir riðuniðurskurði árið 1991 og vegna mikils návígis við sjúkdóminn er hún sem sauðfjárbóndi aldrei fullkomlega örugg með sig.

5 hlutir sem Sigríður getur ekki verið án

1. Traktor með tækjum:

„Það er nauðsynlegt til að geta gefið og tínt heim rúllur.“

2. Afrúllarinn:

„Ég ætti erfitt með að gefa ef ég þyrfti að handmoka tveimur rúllum á dag.“

3. Góður hundur:

„Þar er ég að hugsa um hann Snata minn.“

4. Góðir smalahestar:

Helsta hlutverk knapans er að fylgjast með á góðum smalahesti

5. Ljósleiðari:

„Það var rosalega mikill munur þegar ljósleiðarinn kom.“

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt