„Íslensk hrossarækt er á heimsmælikvarða“
Þorvaldur Kristjánsson er að snúa til baka eftir þriggja ára fjarveru sem hrossaræktarráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins og ræktunarleiðtogi íslenska hestsins.
Þorvaldur er öllum hnútum kunnugur innan hrossaræktarinnar en hann hóf störf sem ábyrgðarmaður hrossaræktar hjá RML í ársbyrjun 2015 og sinnti starfi ræktunarleiðtoga þangað til 2020 þegar hann sagði starfi sínu lausu.
„Ég stökk í að hjálpa móður minni í hennar rekstri og ætlaði að gera það áfram. Síðan var staðan auglýst eftir jólin og það var möguleiki fyrir mig að taka þetta að mér aftur á þessum tímapunkti þannig ég ákvað að slá til. Ég hef alltaf haft mestan áhuga á hrossaræktinni. Ég er búinn að vera virkur í ýmsum þáttum síðan ég hætti og úr því staðan losnaði var spennandi að kýla á það aftur,“ segir Þorvaldur en verkefni á hrossaræktarsviði eru mörg og ýmislegt sem bíður hans Þorvaldar og samstarfsmönnum á næstu misserum.
Þróun WorldFengs eitt af stærstu verkefnum
Á ársþingi FEIF í byrjun ársins var samþykkt að skapa sterkari tekjugrundvöll fyrir uppruna- ættbókina WorldFeng með það að markmiði að koma gagnagrunninum í nútímalegra horf. Þorvaldur telur það eitt af forgangsverkefnum ársins.
„WorldFengur er í sama forritunar umhverfi frá því hann var stofnaður og það þarf að byrja á því að koma honum yfir í nýtt umhverfi sem býður upp á fleiri möguleika. Grunnverkefni sem þarf að leysa og gera gagnagrunninn að betra úrvalstæki fyrir ræktendur íslenska hestsins.“ Í því felist t.a.m. að bæta leitarmöguleika ræktenda og auka myndræna framsetningu.
Stöndum vörð um erfðafjölbreytileikann
Erfðafjölbreytileiki stofnsins er Þorvaldi hugleikinn. Hann telur brýnt að móta stefnu um vernd erfðafjölbreytileikans til framtíðar, íslenskri hrossarækt til framdráttar.
„Við megum ekki gleyma því að við erum að rækta íslenska hestinn í lokuðum erfðahópi hér á Íslandi. Við þurfum að fara að taka afstöðu til þess fljótlega með hvaða hætti við ætlum að vernda erfðafjölbreytileikann hér á landi. Við erum að sigla inn í tímabil þar sem sæðingar eru að verða notaðar í meira mæli. Það er verðmætt að dreifa notkun á stóðhestum meira en við erum að gera. Tiltölulega fáir hestar fá mikla notkun og svo margir góðir fyrstu verðlauna hestar sem fá of litla notkun. Nú er líka kannski sú staða að koma upp að við erum að fara að flytja út erfðaefni í ríkara mæli ef við förum að flytja út fryst sæði. Þá þarf líka að taka afstöðu til þess hvort við ætlum að leyfa innflutning á erfðaefni. Þannig eru mörg mál varðandi erfðafjölbreytileika sem við þurfum að fara að ræða og marka stefnu til framtíðar. Kannski það sé stærsta áskorun okkar til framtíðar að standa vörð um erfðafjölbreytileikann þannig að stofninn verði ekki of einsleitur hjá okkur.“
Aukin samskipti við ræktendur
Efst á baugi hjá þeim sem stunda hrossarækt eru gjarnan kynbótasýningar og allt sem þeim tengist. Hrossarækt og kynbótasýningar eru í eðli sínu samstarfsverkefni á milli ræktenda, sýnenda og starfsfólks kynbótasýninga að sögn Þorvaldar.
„Engar nýjar áherslur eru kynntar fyrir sumarið, hvorki í dómum né kynbótamati. Það verður hefðbundið sumar. En svo í haust er ýmislegt í kringum kynbótamatið sem þarf að velta fyrir sér og þróun þess. Stærsta verkefnið verður að ákveða með hvaða hætti keppnisgögnin verða nýtt inn í kynbótamatið. Þar liggja spennandi niðurstöður fyrir sem þarf að taka afstöðu til og sjá með hvaða hætti best sé að matreiða þær,“ segir Þorvaldur en þar er stór gagnauppspretta sem er ónýtt.
Áframhaldandi vinna verður í kringum kynbótastarfið enda að ýmsu að hyggja varðandi þróun dómskerfisins.
„Það voru gerðar nokkrar breytingar á dómkerfinu árið 2020, eins og fólk veit, og nú er verkefnið að halda áfram þessari þróun og fara yfir hvernig til hefur tekist. Við þurfum að einfalda vissa hluti í matinu og passa að kynbótadómurinn verði sem aðgengilegastur.
Við viljum vera sífellt að betrumbæta kerfið okkar og það í samstarfi við ræktendur. Ég hef reynt að vera í góðum samskiptum við ræktendur og tók þann pól í hæðina þegar ég byrjaði núna í vor að halda námskeið. Það var mikil eftirspurn eftir fræðslu og hef ég verið að fara um og halda námskeið og hitta mikið af fólki. Í heildina er ánægja með dómkerfið sem slíkt en kynbótakerfið hefur verið að slípast til í áratugi. Kerfið heldur vel utan um hrossaræktina en það er alltaf mikilvægt að hlusta á gagnrýnisraddir og halda áfram þessari góðu vinnu sem hefur átt sér stað.“
Auka mætingu til dóms
Mæting hrossa til kynbótadóms er oft á milli tannanna á fólki og eru margir á þeirri skoðun að forvalið sé alltaf að verða meira og meira. Þannig var fjöldinn á síðasta ári undir væntingum en færri en þúsund hross hlutu fullnaðardóm.
„Þetta hefur farið niður á við undanfarin ár. Þetta er eitt af þessum verkefnum sem við þurfum að fara í og það er hreinlega að markaðssetja kynbótadóma betur og sýna fólki fram á mikilvægi þeirra. Mín draumsýn er að ríkið styðji við kynbótadóma hrossa eins og þeir gera í öðrum búgreinum. Ég sé fyrir mér í framtíðinni að fyrsti dómur kosti ekki neitt, dómar á ungum hrossum kosti lítið og dómar á þeim eldri séu á kostnaðarverði,“ segir Þorvaldur og bætir við að þeir sem sýna hross búi til verðmætustu upplýsingar í kerfinu.
„Við þurfum að nýta okkur kerfið til að búa til hvata í því að fleiri hross séu sýnd.“
Of fáar sýndar hryssur í ræktun
Samkvæmt Þorvaldi eru um 11 prósent af hryssum á tamningaaldri sýnd og 5 prósent af stóðhestunum. Íslenskir hrossaræktendur standa ágætlega samanborið við önnur FEIF lönd. Þá eru um 75 prósent stóðhesta að koma til dóms fjögurra eða fimm vetra og er hlutfallið svipað með hryssurnar, eða um 70 prósent.
„Það er mikilvægt að hlutfallið sé hæst á hrossum á þessum aldri en við viljum fá hrossin sem fyrst til dóms. Ég myndi vilja sjá í framtíðinni hærra hlutfall af sýndum hryssum í ræktun. Ef við tökum burt kjöt- og blóðhryssurnar og skoðum bara hryssur sem ætlaðar eru í reiðhestaræktun þá er enn þá um fimmtíu prósent af þeim hryssum ósýndar. Þetta hlutfall er síðan enn lægra í hinum FEIF-löndunum. Þetta er hópur sem ég myndi vilja einblína á og fá fleiri sýndar hryssur í ræktun.“
Lítill hópur af vel þjálfuðu fólki
Þó er ekki bara mæting til kynbótadóms sem liggur hrossaræktendum á hjarta heldur er það líka hið umtalaða samræmi.
„Eðlilegt er að það sé eitt af aðalumræðuefnunum enda er það stærsta vinnan við öll dómkerfi að það sé gott samræmi. Við vinnum í dómnefndum þar sem fólki er róterað á milli nefnda til að skapa umræðu innan hópsins en það er einn af þeim þáttum sem leiðir til betra samræmis. Við höfum líka fækkað þeim sem eru formenn á heimsvísu og haft það eins lítinn hóp af fólki og hægt er. Við viljum að dómararnir okkar séu lítill hópur af vel þjálfuðu fólki og það er staðan. Við erum með fólk sem er að pæla í hrossum alla daga og er það afar verðmætt,“ segir Þorvaldur.
Dómarar fara á þriggja daga samræmingar- og endurmenntunarnámskeið annað hvert ár. Íslenski hópurinn hittist árlega og var þetta þriðji veturinn í ár þar sem dómarar dæmdu hross eftir myndböndum og sendu síðan inn dóma sína. Farið var svo yfir sýningarnar á sameiginlegum netfundi.
„Þannig hefur sannarlega verið bætt í hvað samræmingu varðar á síðastliðnum árum. Við erum alltaf að reyna að sækja fram og bæta samræmið. Samræmið hafði riðlast aðeins 2020 eftir að nýi skalinn var tekinn upp eins og eðlilegt er. Þetta er hins vegar stanslaust verkefni sem við erum mjög meðvituð um, tökum alvarlega og erum að reyna bæta.“
Afkvæmasýningar stóðhesta hápunktur Landsmóts
Landsmót hestamanna í Reykjavík er fram undan en rúmar tvær vikur eru til stefnu. Vorsýningar fara vel af stað og nú þegar er þremur kynbótasýningum lokið hérlendis.
„Sumarið blasir mjög vel við mér. Mikill áhugi er á kynbótasýningum og búið er að skrá 1.200 hross sem er á pari við okkar bestu Landsmótsár sýnist mér. Landsmót er alltaf mikið tilhlökkunarefni. Afkvæmasýningar eru mitt uppáhald enda kjarni hrossaræktarinnar. Þessar sýningar veita okkur miklar upplýsingar um hvaða eiginleika hestarnir eru að gefa og hvað einkennir helst þeirra afkvæmi.Því hefur verið velt fram að auka kröfurnar til að ná fyrstu verðlaunum fyrir afkvæmi en ég tel að svo eigi ekki að gera því við viljum ekki fresta því að sjá afkvæmahópana. Það er áhugavert að sjá hestana sem fyrst og sjá hvernig týpur þeir eru að gefa. Það eru góðir afkvæmahópar stóðhesta sem við eigum von á á Landsmóti í júlí.“
Metnaðarfull ræktun
Næg verkefni eru fram undan hjá hrossaræktarráðunaut og greinilegt að hann horfir björtum augum til framtíðar.
„Staðan er mjög góð hjá okkur hrossaræktendum. Það er fullt af fólki sem er að stunda hrossarækt, með mikinn metnað, er að standa sig vel og hugsa fram á veginn. Við sjáum það að við erum að rækta betri og betri hross. Eigum mikið af stóðhestum og ólíkum týpum sem fólk getur valið um.
Með svona öflugt fólk, frábæra sýnendur og hrossaræktendur með mikinn metnað er framtíðin björt hjá okkur. Ef við skoðum þær erfðaframfarir sem hafa átt sér stað á undanförnum árum og berum saman við erfðaframfarir í erlendum kynjum, þá er ljóst að íslensk hrossarækt er á heimsmælikvarða.
Þetta hefði ekki náðst nema allt hafi hjálpast að; metnaður og framsýni magnaðra ræktenda og gott kynbótakerfi. Þetta þurfum við að halda vel utan um til framtíðar enda er íslenski hesturinn ein helsta menningarafurð sem Ísland hefur heiminum að bjóða.“