Vilja sanngjarnara kerfi
Formaður, varaformaður og stjórnarmaður í Strandveiði félagi Íslands funduðu með sjómönnum á Þórshöfn, Borgarfirði eystri og í Neskaupstað um helgina.
Erindi fundanna er kerfislægur vandi sem strandveiðisjómenn á Norðausturlandi og Austfjörðum glíma við. Veiðarnar verða stöðvaðar í byrjun júlí, á meðan einungis 80 prósent aflans er kominn á land. Þetta sé sama sagan og á síðustu vertíð og bitni mest á svæði C, en þar fer ekki að veiðast almennilega fyrr en í júlí og ágúst.
Samkvæmt fréttatilkynningu frá stjórn Strandveiðifélags Íslands kemur fram að mæting hafi verið góð og að ræddar hafi verið leiðir til að ráða bót á stöðu C svæðisins, sem Strandveiðifélagið kallar „bráðavanda“. Stjórnin segir ljóst að strandveiðisjómönnum sé mest í mun að strandveiðikerfið sé sanngjarnt fyrir alla landshluta. Strandveiðisjómenn um allt land eru í sama liðinu.
Kjartan Sveinsson formaður, Friðjón Ingi Guðmundsson varaformaður og Álfheiður Eymarsdóttir stjórnarmaður sóttu strandveiðisjómennina heim og segjast hafa fengið dýrmætar upplýsingar af þessum fundum og skipuleggi nú næstu skref.