Von frá Ártúnum er folald sumarsins 2016
Höfundur: Páll Imsland / Halla Bjarnadóttir
Þegar Bændablaðið efndi til þessa leiks, að útnefna folald sumarsins, var það gert til þess að vekja menn til umhugsunar um sérstöðu folaldanna og reyna að vekja áhuga á folöldum almennt, ekki síst áhuga ungmenna. Folöld eru fallegar skepnur og oft svo miklu meira en það. Sum folöld fá þó litla sem enga athygli fyrr en eftir dúk og disk, einkum ef þau fæðast og alast upp í stórum stóðum sem eru takmarkað undir eftirliti manna.
Von okkar var sú að börn og unglingar til sjávar og sveita sem eiga hross eða þar sem hross eru hluti tilverunnar tækju þátt í þessum leik, en það varð ekki. Allar tilnefningarnar komu frá fullorðnum. En þær eru ekki verri fyrir það. Vissulega var það vonin að þátttaka yrði töluverð í tilnefningum svo úr margbreytileika væri að moða þegar kæmi að tilnefningu. Jafnvel að hægt væri að segja fleiri en eina folaldssögu í afrakstrinum.
Núna bárust hins vegar aðeins 4 tilnefningar en allar eru þær á einhvern hátt áhugaverðar. Hér verður birt frásagan sem fylgdi tilnefningu þess folalds sem nú hefur verið útnefnt, Vonar frá Ártúnum á Rangárvöllum. Sú frásögn er afar sérstök og í raun er þetta mögnuð saga, sem vissulega á erindi á prent.
Auk þess fylgja þessari merkilegu ævisögu, þó enn sé hún aðeins nokkir mánuðir, fágæt litareinkenni, sem ein og sér eru stórlega áhugaverð. Útnefningin að þessu sinni er rökstudd með þrennu, merkilegri ævisögu Vonar, vitsmunum hennar og litareinkennum, sem eru sjaldgæf í íslenska hrossastofninum. Vonandi stendur Von undir vonum í framtíðinni.
Áætlað er að birta myndir af hinum folöldunum sem voru tilnefnd í einhverju af næstu tölublöðum, ef pláss leyfir. Þau eru falleg og eiga vonandi fyrir sér frægð og frama þótt það felist ekki í útnefningunni í þessu tilviki.
Fannst slöpp móðurlaus og ringluð
Ég tilnefni hér folald sumarsins, hana Von, sagði Halla Bjarnadóttir í greinargerð um tilnefninguna.
„Von okkar fæddist hér í Ártúnum á Rangárvöllum seinnipartinn í maí. Hún á sér skemmtilega sögu, og er mjög óvenjuleg á lit.
Í vor fannst Von nýlega komin í heiminn, slöpp, móðurlaus og ringluð. Henni var komið heim á bæ og komum við henni á spena hjá einni af mjólkurkúnum á meðan leit hófst að móðurinni. En engin hryssa fannst folaldslaus, og engrar hryssu var saknað, og því varð Von að heimalningi hjá okkur. Hún hefur verið heima við bæ, valsað um með mjólkurkúnum og gengið í fóðurbæti hjá kálfum. Hún hefur líka unnið hug okkar og hjörtu með gæsku og dugnaði.“
Hjálmskjótt og ljósmóálótt
„Von er hjálmskjótt og ljósmóálótt vindótt, glaseyg með alhvítt höfuð, sokka á öllum fjórum og hvítan blett undir kvið. Búkurinn er ljósmóálóttur, og faxið hvítt. En hún er svo ljós að það ekki auðvelt að greina hjálmótta mynstrið, eins og sjá má á myndum.
Von var fljót að átta sig á takti tímans hér á bæ, og því að við förum alltaf í fjósið klukkan sjö á morgnana. Hún var ekki sein að taka upp á því að stilla sér fyrir neðan glugga á húsinu og láta í sér heyra svona korter í sjö, og sá þar með til þess að heimilismeðlimir svæfu nú ekki yfir sig.
Þegar Von var enn lítil og ekki enn orðin mjög hraðskreið fór heimasæta á bænum út með hana að skokka. Fyrst um sinn fylgdi Von í fótspor stöllu sinnar, en með auknum krafti og þroska fóru þær að skoppa um hlið við hlið. Svo er hún ákaflega mannelsk og félagslynd, fylgir okkur í hvaða verk sem er. Vinnukonurnar höfðu góðan félagsskap af henni í heyskapnum við að binda enda, og endaði uppi á margri sjálfunni í þeim ferðum.“
Mikill og uppátækjasamur grallari
„Það kom svo í ljós að Von er mikill og uppátækjasamur grallari. Fyrir nokkru kom mjólkurbílstjórinn að máli við okkur og sagði farir sínar ekki sléttar. Hann var hér einn í mjólkurhúsinu að tengja dæluna í tankinn, en svo fara um hann ónot, og hann hefur á tilfinningunni að einhver hafi auga með honum. Hann snýr sér við og sér í dyragættinni alhvítt hestshöfuð með föl og starandi augu, eins og svífandi í lausu lofti. Var þar ekki komin Von að rétt aðeins gægjast og sjá hver væri að eiga við mjólkina, sjón sem enginn býst við í mjólkurhúsi.
Hún hefur líka eignast góða vini og prakkarabræður í hundinum okkar Káti og lambi sem var líka heimalningur. Þau hafa tekið upp á ýmsu saman, en sérstaklega var það skondið að fylgjast með þegar klukkan var að nálgast fimm á virkum dögum, að þau héldu saman fram eftir heimreiðinni og stilltu sér upp við hliðið og mændu eftir veginum. Þar biðu þau þess að sjá bíl ungdómsins á bænum koma heim að vinnudegi loknum. Svo sprautuðust þau með bílnum á harðakani, eins og um þrjá hunda væri að ræða, en ekki folald, lamb og hund. Þegar komið var heim á hlað beið Von svo eftir því að fá klapp, kjass og knús hjá uppáhalds fólkinu sínu nýkomnu heim, sem leiddist ekki að láta vel að henni. En aldrei sýndi hún nokkrum öðrum bíl minnsta áhuga.
Prakkaragengið tók oft upp á því að þvælast fyrir, en sýnu verst var það þegar ein kýrin átti í erfiðleikum við burð. Þá vorum við fimm manns úti í fjósi að hjálpa kýrgreyinu, einn að reyna að ná í kálfinn, tvær að sinna kúnni, og tvær að halda aftur af forvitninni í Von og lambinu, sem ætluðu helst bara að ná sjálf í kálfinn.“
Engin fannst móðirin, kannski er Von undan hulduhryssu
„Svo líður á sumarið og enn finnst engin skýring á því hver móðir Vonar gæti verið. Því var slengt fram að kannski væri Von undan hulduhryssu sem hafi farist í köstun, og huldufólkið hafi talið okkur geta gefið Von betri von til lífs og þroska.
En þó var leið til að komast að því hverra hrossa hún er, því móálótt, vindótt hjálmskjótt er sjaldgæfur litur, og þótt Ártúnastóðið sé stórt, þá þarf býsna margt að koma saman hjá foreldrunum til að búa þann lit til. Tveir feður komu til greina, báðir heimafolar, Óður sem er brúnhöttóttur stórstjörnóttur glaseygur, og Glámur sem er jarpblesóttur leistóttur hringeygur.
Þá er hægt að reikna út að móðirin þyrfti að geta lagt bæði vindótt og álótt í púkkið, ásamt slettuskjóttu geni. Tvær slíkar hryssur komu til greina, báðar ungar hryssur sem voru hjá Glámi. Gjóska sem er bleikálótt, vindótt stjörnótt, og Kolka sem er móálótt, vindótt blesótt með leist. En ekki var annað að sjá en að báðar væru þær með folald, því það var júgur undir báðum.“
Móðirin fór að sinna Væntingu
„Á miðju sumri kom svo í ljós að þær Gjóska og Kolka halda sig mikið saman, og báðar mjólka einu og sama folaldinu, henni Væntingu sem er mjög svipuð Von. Vænting er bleikálótt hjálmskjótt, með annan kjammann hvítan, glaseyg þeim megin, en hingeyg á hitt augað, sokkótt á öllum fjórum og hvít undir kvið.
Þarna liggur skýringin á því hvers vegna Von varð heimagangur. Einhver ruglingur eða óhöpp hafa orðið til þess að Von flæktist frá, og bæði Gjóska og Kolka hafa tekið Væntingu sem sínu folaldi. En ómögulegt er að vita hvor hryssan á Von og hvor Væntingu. Von var komin á vergang og þá varð ekki aftur snúið.“
Og bróðirinn heitir Vonarneisti
„Það er skemmtileg tilviljun að báðar skuli þær systurnar vera arfhreinar um slettuskjótta mynstrið, því þessi litur hefur ekki sést í stóðinu í fjölmörg ár, og núna er aðeins eitt annað folald með þessum lit. Auk þeirra systra er samfeðra þeim jarphjálmskjótt hestfolald, Vonarneisti. Hvort þessi litaeinkenni systranna eiga einhvern þátt í því sem gerst hefur og skapað þeim þannig örlög er ekki gott að vita, eða hvort vinskapur mæðranna og tilviljun hefur ráðið för, en allt er það alls ekki óhugsandi.
Ötul að sækja sér lífsbjörgina
„Lífsviljinn, vitið og töggurnar í Von hafa komið okkur verulega á óvart. Hún var svo ötul að sækja sér lífsbjörgina, byrjaði á því að ganga undir einni mjólkurkúnni, fór svo sjálf að drekka úr fötu.
Alltaf vissi hún hvar besta bitann var að fá, hvort sem er af unnu fóðri eða grængresinu úti. Svo hefur hún alveg sneitt hjá öllum þeim hættum sem folöld sem þó hafa mæður til að passa sig skaða sig oft á. Þrátt fyrir að vera heima á hlaði innan um vélar og tæki, og hitt fyrir skurði og girðingar af ýmsum gerðum á flandri sínu hefur henni ekkert hlekkst á. Samt kemur það reglulega fyrir að við sjáum hana liggja á hliðinni með lappirnar út í loft, og grípum andann á lofti í ótta að blessuð Vonin okkar sé steindauð. En nei, hún sefur bara værum blundi, algerlega óttalaus undir okkar verndarvæng.“
/ Halla Bjarnadóttir