Vörður staðinn um lífríki Látrabjargs
Staðfest hefur verið stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Látrabjarg. Markmið hennar er að standa vörð um lífríki Látrabjargs með skýrri stýringu umferðar um friðlandið, hæfilegum innviðum og fræðslu.
Áætlunin var staðfest af umhverfisráðherra í byrjun september en vinna að henni hefur staðið yfir síðan í árslok 2021. Um er að ræða síkvika aðgerðaáætlun sem uppfæra á reglulega, m.a. í samræmi við þriggja ára verkefnaáætlun landsáætlunar um uppbyggingu innviða. Í henni eru bæði tilgreindar þær aðgerðir sem farið skal í árlega sem og tímasettar aðgerðir.
Áskoranir og tækifæri
Í stjórnunar- og verndaráætluninni segir að langstærstur hluti þeirra sem sæki Látrabjarg heim komi að Bjargtöngum og dvelji á svæðinu frá Bjargtangavita að Ritugjá og Stefni, áleiðis að Barðsbrekkum. Punktálag þar sé hátt og nauðsynlegt að innviðir séu góðir. Með því að færa bílastæði fjær vitanum og útbúa göngustíg sem liggi í hring frá nýju bílastæði að Ritugjá og þaðan að vita, sbr. deiliskipulag, megi dreifa álagi, hlífa svæðinu við ágangi og auka upplifun gesta.
Jafnframt er í áætluninni fjallað um að við bjargbrún ofan Stefnis hafi myndast djúpar rásir í gróðurþekjuna eftir umferð gangandi manna. Þær verði torfærar í bleytutíð sem leiði til þess að nýjar rásir myndast með tíma við hlið hinna. Framkvæmdaaðgengi að svæðinu sé erfitt, halli nokkur og hætta á því að möl myndi lítt festa eða þurfa mjög reglulegt viðhald og ofaníburð, komi aðrar ráðstafanir ekki til. Því þurfi að kanna hvaða leiðir eru færar til að ráða bót á ástandinu og lagfæra, eftir föngum, þá bletti sem verst eru útleiknir.
Þá er fjallað um skort á húsnæði og aðstöðuleysi landvarða sem háð hafi landvörslu á svæðinu nokkuð og tafið fyrir því að hægt sé að efla hana í samræmi við álag vegna gestasóknar. Tryggja þurfi landvörðum við Látrabjarg hentugt húsnæði og aðstöðu.
Líffræðileg fjölbreytni er ríkuleg
Í áætluninni kemur fram að þeir hlutar Látrabjargs sem eru innan friðlandsmarka eru annars vegar í eigu íslenska ríkisins (Bæjarbjarg) og hins vegar í eigu afkomenda þeirra sem bjuggu á Hvallátrum. Sá hluti er óskipt sameign og deila tugir einstaklinga eignarhaldi.
Umhverfisstofnun annast umsjón og rekstur svæðisins. Sérfræðingur stofnunarinnar á sunnanverðum Vestfjörðum hefur umsjón með friðlandinu og ber ábyrgð á framkvæmd stjórnunar- og verndaráætlunar í samstarfi við sveitarfélagið Vesturbyggð og landeigendur.
Líffræðileg fjölbreytni Látrabjargs er mikil og þar verpa m.a. tegundir á válistum og ábyrgðartegundir Íslendinga. Náttúrufegurð svæðisins er rómuð og í berginu má lesa jarðsögu Vestfjarða í hraunlögum. Verndargildi friðlandsins felst fyrst og fremst í því að svæðið er mikilvæg varpstöð sjófugla en Látrabjarg er stærsta fuglabjarg í Evrópu og líffræðileg fjölbreytni er mikil.
Af þessu leiðir að vísinda- og náttúruverndargildi er mjög hátt. Menningarsögulegt gildi, einkum í tengslum við landslag, nytjar, sjósókn og sagnir af skipsköðum er einnig hátt sem og jarðsögulegt gildi en landslagið er einkennandi fyrir landshlutann og í standberginu má lesa myndunarsögu Vestfjarða. Hagrænt gildi er talsvert fyrir aðila í nærsamfélaginu sem hafa óbeinar tekjur af svæðinu í tengslum við ferðaþjónustu. Látrabjarg er á lista BirdLife International sem alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði, segir í áætluninni.
Skýrslan var unnin af fulltrúum Umhverfisstofnunar, fulltrúum landeigenda og Vesturbyggðar og í góðu samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands. Ritstjórar skýrslunnar eru Þórdís Björt Sigþórsdóttir og Edda Kristín Eiríksdóttir.
Látrabjarg
Látrabjarg er stærsta fuglabjarg Evrópu og þar er mesta sjófuglabyggð Íslands. Það rís úr hafi yst við Breiðafjörð norðanverðan og vestasti hluti þess, Bjargtangar, er jafnframt vestasti oddi Íslands. Bjargið skiptist í fjóra hluta og dregur hver hluti heiti sitt af bæjarnöfnum í nágrenninu. Frá vestri til austurs nefnast hlutarnir Látrabjarg (Hvallátur), Bæjarbjarg (Saurbær á Rauðasandi), Breiðavíkurbjarg og Keflavíkurbjarg. Í daglegu tali er þó oft vísað til alls svæðisins sem Látrabjargs.
Bjargið allt er um 14 km langt og 444 m hátt þar sem hæst er, en sá hluti þess sem er innan friðlandsins er 9,7 km langur. Friðlandið nær til hafsbotns, lífríkis og vatnsbóls 2 km frá landi og er heildarstærð þess 37 ferkílómetrar.
Látrabjarg friðland, Stjórnunar- og verndaráætlun, Umhverfisstofnun, 2024.