Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Mótmælaspjald þessarar konu er mjög táknræn fyrir stöðuna. Á því stendur að einn daginn muni þeir fátæku ekki hafa neitt eftir til að borða nema þá ríku.
Mótmælaspjald þessarar konu er mjög táknræn fyrir stöðuna. Á því stendur að einn daginn muni þeir fátæku ekki hafa neitt eftir til að borða nema þá ríku.
Mynd / JeeOne Prod
Fréttir 9. maí 2019

Yfirgnæfandi líkur taldar á átökum vegna vaxandi misvægis milli ríkra og fátækra

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Auðjöfurinn Raymond Dalio, sem er í hópi ríkustu manna heims, telur að kapítalisminn þurfi að fara í gegnum algjöra uppstokkun ef ekki eigi illa að fara. Hann varar við því að ef ekki verði farið í skjótar breytingar þá muni misskipting á auðæfum heimsins leiða til átaka víða um heim, ekki síst í Bandaríkjunum.

Raymond Dalio.

Þetta kom m.a. fram í ítarlegu viðtali Bill Whitaker við Raymond, eða Ray Dalio eins og hann er kallaður í fréttaskýringaþættinum „60 minutes“, þann 7. apríl síðastliðinn. Þarna er sannarlega ekki um neitt smápeð í viðskiptalífinu að ræða, því nettó eignir hans eru metnar á 18 milljarða dollara, eða sem nemur um 2.160 milljarða íslenskra króna. Í janúar taldi viðskiptamiðillinn Bloomberg Ray Dalio vera númer 79 í röðinni af ríkustu mönnum heims.

 

Sama þróun er að eiga sér stað  á Íslandi

Þessi sýn Raymond Dalio á það sem er að gerast í hagkerfi heimsins er athyglisverð með hliðsjón af íslenskum raunveruleika. Það þarf engan sérfræðing til að sjá að hér horfum við á að stöðugt meiri auður hleðst á æ færri hendur. Ný skýrsla frá Stanford-háskóla sýnir einnig að loftslagshlýnun eykur mjög gróðavon manna á norðurhveli jarðar. Því verður land eins og á Íslandi stöðugt verðmætara í augum fjármálamanna. Þar hafa Íslendingar verið að horfa á að stór landsvæði með tilheyrandi vatns- og hlunnindaréttindum eru að færast á hendur erlendra auðmanna með aðstoð íslenskra auðmanna án þess að stjórnvöld hafist þar nokkuð að. Engin tilraun virðist vera í bígerð til að hafa hemil á þeirri vegferð líkt og t.d. Danir hafa gert. Þvert á móti hefur verið hart unnið að því á bak við tjöldin að auka tilslakanir. Eins og t.d. í gegnum orkupakka 3 sem stór hluti landsmanna telur að muni auðvelda auðmönnum mjög að sölsa undir sig orkuauðlindir Íslands. Varla er samt hægt að álykta annað en að þetta muni auki líkurnar á enn meiri misskiptingu og sundrungu í íslensku samfélagi líkt og er að gerast um allan heim. 

Annar þáttur í þessari vegferð er vaxtakerfið og stjórnun vaxta- og verðtryggingarmála á Íslandi sem hefur leitt til þess að eignir tugþúsunda Íslendinga hafa verið gerðar upptækar af bönkum og fjármálaelítu landsins á undanförnum árum. Í framhaldinu var eignalausu fólki att út á leigumarkað sem stýrt er í sumum tilfellum af sömu elítu og  hagnaðist hvað mest á eignaupptökunni og hefur nú sprengt upp leiguverð í landinu. Fólk er þannig í raun komið í heljarfjötra sem erfitt er að losna úr og vart hægt að lýsa þessu fólki öðruvísi en sem þrælum peningamanna og leigufélaga. Þetta er sama þróunin og Ray Dalio og margir fleiri auðmenn eru nú farnir að óttast að vart geti leitt til annars en mikilla átaka og uppreisna. 

Telur 60 til 65% líkur á að þetta fari illa

Raymond Dalio segir að kapítalisminn í Bandaríkjunum sé alls ekki sjálfbær. Hann geti gengið eitthvað áfram með samvinnu allra, en ef ekki þá muni verða átök milli ríkra og fátækra.  

„Ég met hlutina á líkum. Ég myndi segja að það séu 60 til 65% líkur á að þetta fari illa. Ég segi þó líka að það þurfi ekki að fara þannig. Ef við áttum okkur á að stundum er hægt að hnika aðeins til hlutum og auka þannig mögulega líkurnar á betri útkomu.“   

Raymond Dalio fæddist í New York-borg árið 1949 og ólst upp á venjulegu millistéttarheimili. Faðir hann var djasstónlistarmaður og móðir hans heimavinnandi húsmóðir. Hann keypti sitt fyrsta hlutabréf aðeins 12 ára að aldri og stofnaði síðar áhættufjárfestingasjóðinn Bridgewater Assosiates (hedge found) sem er nú einn sá stærsti í heimi. 

Hann hefur ekki alltaf átt við velgengni að búa, því að á níunda áratug síðustu aldar segist hann hafa verið eins og aðrir hrokafullir „fjármálabjánar” á Wall Street og veðjað á að kreppa væri þá að skella á. Þeir hafi veðjað á rangan hest og misst af efnahagsuppsveiflunni sem þá varð og tapað öllu sínu fé. Þá hafi hann þurft að fá lán frá föður sínum til að halda fjölskyldu sinni gangandi. Hann skrifaði bók um þessa reynslu sína sem heitir „Principles“ eða Grunnreglur og segir þar að finna uppskrift af því sem hann kallar „idea meritocracy“ eða hugmyndina um valdasöfnun fárra á þeirra eigin verðleikum. 

Hann segir að það þurfi að eiga sér stað róttæk hugsunarbreyting. Fólk þurfi að segja sannleikann og það þurfi meira gegnsæi. Fólk þurfi að segja það sem það meini og hætta að stinga hvað annað í bakið. Þetta segist hann hafa að leiðarljósi í sínu fjárfestingarfyrirtæki þar sem starfsmennirnir fylgist grannt með aðgerðum hver annars. Hann játar þó að slík hnýsni um það sem samverkamennirnir eru að gera jaðri við ofstæki.

Raymond Dalio óttast nú mjög þá auknu gjá sem er að myndast á milli þeirra ríku, sem eiga nær öll verðmæti á jörðinni, og hinna sem eiga lítið eða ekki neitt. Þótt hann sé sjálfur forríkur, þá varar hann við því sem er að gerast, líkt og hann varaði við efnahagshruninu 2008. 

Ameríski draumurinn búinn að vera

Hann segir að „ameríski draumurinn“ svokallaði sé búinn að vera enda sé fólk hætt að tala um slíka draumsýn sem möguleika í lífi venjulegs fólks líkt og þegar hann var að alast upp. Á síðasta áratug hafi lægstlaunuðu verkamennirnir í Bandaríkjunum aðeins átt um 14% möguleika á að hífa sig upp í millistétt. Þessir möguleikar fara stöðugt minnkandi og um leið fjölgar hratt í hópi þeirra efnaminnstu. 

Er verið að endurvekja fasisma og einræðishyggju?

Hann sagði að á fjórða áratug síðustu aldar hafi fjögur stórveldi í heiminum horfið frá lýðræðislegri ákvarðanatöku og látið sterka stjórnendur taka við ákvarðanatökunni. [Þýskaland, Ítalía, Spán sem fóru undir stjórn fasistaleiðtoga og Japan]. Hann segist þó ekki taka svo djúpt í árinni að segja að við stefnum þangað í dag, en ósanngirni og ójöfnuður samfara óskilvirkni í þjóðfélögunum sé nú að sprengja upp þjóðfélagsmyndina.

Stutt í dýrseðlið 

Þegar horft er á pólitíska þróun í Evrópu, þá er hugmyndafræði fasismans, sem var „tabú“ og bannorð á áratugunum eftir stríð, aftur að öðlast sess í umræðunni. Ástæðan er einföld. Þegar lýðræðinu hnignar og fjármálaelítan óttast um sinn hag, þá eykst ákall um meiri hörku í stjórnmálum og sterka leiðtoga. Þá kviknar dýrseðlið þar sem vel gefið og menntað efnafólk er jafnvel reiðubúið að beita ofbeldi til að berja niður andstöðu við eigið framabrölt. Þetta virðist vera að gerast í mörgum Evrópuríkjum þar sem farið er að ræða opinskátt um fasisma sem mögulega leið í stjórnmálum. Hefur það m.a. komið í ljós í pólitískri umræðu á Spáni fyrir þingkosningarnar sem fram fóru síðastliðinn sunnudag. Þar virðist blasa við að aukin harka sé í uppsiglingu gagnvart sjálfstæðisþenkjandi öflum í Katalóníu og í Baskahéruðunum þar sem andspyrnan gegn fasista-leiðtoganum Francisco Franco var mest á fjórða áratug síðustu aldar. Sú mótspyrna var barin niður sem frægt er með aðstoð hersveita þýskra nasista. Eitt mesta illvirki þeirra þar  var að jafna Baskabæinn Guernica við jörðu með loftárusum þann 26. apríl 1937 og drepa nær alla þá sem reyndu að flýja. Þetta ódæði varð myndlistarmanninum Pablo Picasso innblástur að frægu verki sem heitir Guernica.

Svipuð þróun í pólitík hefur verið að eiga sér stað á Ítalíu í Þýskalandi, Bandaríkjunum og víðar. Vaxandi ójöfnuður hefur ýtt mjög undir það sem þarna er að gerast.

Mikli ógn við lýðræðið

Raymond Dalio er í þessum efnum sama sinnis og milljarðamæringurinn Bill Gates sem líka hefur varað sterklega við þróuninni í efnahagslífi heimsins. Þeir telja að samsöfnun auðæfa á æ færri hendur feli í sér mikla ógn við lýðræðið. Dalio segir að ein leið til að vinda ofan af þessu sé að stórauka skatta á stórefnafólk. 

„Auðvitað á að gera það,“ segir Dalio. – „Það er mikilvægt að taka þessa skattpeninga og koma þeim í vinnu.“ Hann segist ekki sjá neitt vit í því sem gert hafi verið með að minnka skattlagningu á ríka fólkið samkvæmt þeim rökum að slíkt yki framleiðni í þjóðfélaginu. 

Loftslagsbreytingar eru vatn á myllu þeirra ríku

Nú er búið að gera loftslagshlýnun jarðar að enn einni peningamaskínunni þar sem þeir ríku munu seilast enn dýpra í vasa þeirra fátækari. Þetta styður m.a. ný skýrsla „Climate change makes rich countries richer and poor ones poorer“ frá Stanford-háskóla sem birt var 22. apríl síðastliðinn.

Þar segir að það sé ekki bara kapítalisminn sem geri þá ríku ríkari og fátæku fátækari, því loftslagsbreytingar styðji líka það ferli um allan heim. Efnahagslega bilið milli ríkustu og fátækustu þjóða, hvað varðar tekjur á mann, hafi aukist um 25 prósent vegna loftslagsbreytinga.

„Niðurstöður okkar sýna að flest fátækustu löndin á jörðinni eru talsvert verr sett í dag en þau hefðu verið án hlýnun jarðar,“ sagði loftslagsvísindamaðurinn Noah Diffenbaugh, sem jafnframt stýrði rannsókninni.

„Til að bæta gráu ofan á svart, hafa sum rík lönd virkilega notið góðs af hnattrænni hlýnun.“

Milli 1961 og 2010 hefur hækkandi hitastig dregið verulega úr hagvexti í suðrænum löndum eins og Indlandi og Nígeríu, en stuðla að hagvexti í kaldari löndum á borð við Kanada og Bretland. 

„Söguleg gögn sýna greinilega að ræktunin er öflugri, fólk er heilbrigðara og við erum að ná  meira afköstum í vinnunni þegar hitastig er hvorki of heitt né of kalt,“ segir Marshall Burke, lektor í jarðfræði við Stanford-háskóla, sem einnig kom að rannsókninni. 

„Þetta þýðir að í köldum löndum getur lítis háttar hlýnun hjálpað. Hið gagnstæða er raunin á stöðum þar sem loftslag er þegar mun heitara.“

Rannsakendur gerðu samanburð á nokkrum fyrri rannsóknum um árlegar hitastigsbreytingar í yfir 50 ár og hagvaxtargögn 165 landa, til að meta hvernig breytingin hefur haft áhrif á vöxt. Bandaríkjamenn voru í meðallagi. Þar drógu  loftslagsbreytingar niður landsframleiðslu, en aðeins um 0,2 prósent frá 1961 til 2010.

Súdan var stærsti taparinn ef svo má segja. Áætlað er að verg landsframleiðsla (VLF) sé þar 36 prósent minni í dag vegna hlýnunar jarðar. Indland fylgir fast á eftir með 31% tap og Nígería með 29 prósentum minni landsframleiðslu.

Noregur var aftur á móti helsti sigurvegarinn. Áætluðu rannsakendur að núverandi landsframleiðsla Noregs sé 34 prósent hærri vegna þeirra loftslagsbreytinga sem átt hafa sér stað á umræddu tímabili. Kanada er með 32 prósent meiri landsframleiðslu og á undanförnum árum hafa Rússar einnig séð örvun hagvaxtar vegna hlýnunar.

Hagur mengunarvaldanna

Samkvæmt þessari rannsókn hafa ríki á norðurhveli jarðar beinlínis hagnast á hlýnun jarðar. Það kann að skýra ýmislegt í svonefndri loftslagsbaráttu, þar sem stærstu mengunarvaldarnir sem eru jafnframt með mest efnahagsleg áhrif eru utan sviga í öllum aðgerðaráætlunum eins og Parísarsamkomulaginu. Þá hefur verið búinn til eins konar sýndarveruleiki í kringum alla þessa umræðu þar sem mest mengandi fyrirtækin geta keypt sig frá ábyrgð með kaupum á kolefniskvótum.  Mengunin er þannig flutt til á pappírunum til landa sem hafa hreina orku eins og Ísland. Fyrirtækin sem hafa slík aflátsbréf í höndunum geta svo haldið ótrauð áfram  að menga eins og enginn sé morgundagurinn og hagnast vel, m.a. á hækkandi orkuverði. Þetta staðfesta nýjustu tölur Alþjóðaorkustofnunarinnar. Á sama tíma eru settar auknar álögur á almenning í formi kolefnisskatta og hækkandi orkuverðs sem virkar eins og hrein friðþæing fyrir þá ríku í loftslagsumræðunni.  

Eftir miklum verðmætum að slægjast á Íslandi

Þessi rannsókn Stanford-háskóla sýnir líka ljóslega þá verðmæta-aukningu sem er að verða á landsvæðum eins og á Íslandi. Ásókn Evrópusambandsins í aukin ítök á Íslandi í gegnum regluverk EES-samningsins (m.a. orkupakka 3), sem og erlendra auðmanna með kaupum á landi, er því engin tilviljun. Hér er eftir gríðarlegum verðmætum að slægjast sem erlendir fjármálamenn hafa fyrir löngu komið auka á. Nægir þar að nefna menn á borð við breska auðjöfurinn Jim Ratcliff sem þegar er orðinn einn stærsti landeigandi á Íslandi. Í ljósi þessa er afar undarlegt ef íslensk stjórnvöld ætla að spila með ásælni auðmanna í stað þess að verja hagsmuni þjóðarheildarinnar með öllum tiltækum ráðum m.a. lagasetningum.

Skráð heildartjón rúmur milljarður
Fréttir 21. nóvember 2024

Skráð heildartjón rúmur milljarður

Skráð heildartjón vegna kuldakasts og annars óvenjulegs veðurfars á árinu er rúm...

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu
Fréttir 21. nóvember 2024

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu

Áður en Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm boðaði Kaupfélag Skagfirðinga (KS) ...

Undanþágan dæmd ólögmæt
Fréttir 21. nóvember 2024

Undanþágan dæmd ólögmæt

Óvissa er uppi um framhald samruna og hugmynda Kaupfélags Skagfirðinga (KS) um h...

Pólar hestar fyrirtæki ársins
Fréttir 19. nóvember 2024

Pólar hestar fyrirtæki ársins

Markaðsstofa Norðurlands hefur valið hestaleiguna Pólar hestar sem fyrirtæki árs...

Byggja stóra íþróttamiðstöð
Fréttir 18. nóvember 2024

Byggja stóra íþróttamiðstöð

Í Árnesi er verið að byggja fyrstu íþróttamiðstöðina í Skeiða- og Gnúpverjahrepp...

Afstaða framboða til landbúnaðarmála
Fréttir 15. nóvember 2024

Afstaða framboða til landbúnaðarmála

Stjórnmálaflokkarnir sem eru í framboði til alþingiskosninga, sem fram fara 30. ...

Nýjar höfuðstöðvar
Fréttir 15. nóvember 2024

Nýjar höfuðstöðvar

Samkvæmt ákvörðun Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðher...

Fiðrildategund nefnd eftir Björk
Fréttir 15. nóvember 2024

Fiðrildategund nefnd eftir Björk

Skordýrafræðingurinn Harry Pavulaan hjá Nebraska-háskóla hefur nefnt nýja fiðril...