Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Frá eldsvoðanum í Fögruhlíð í nóvember.
Frá eldsvoðanum í Fögruhlíð í nóvember.
Mynd / Áskell Páll Baldursson
Fréttir 4. janúar 2017

„Fjarlægja þarf þetta skaðræðisefni“

Höfundur: smh
Þegar gripahús fuðruðu upp í eldsvoða í Fögruhlíð í Jökulsárhlíð á Héraði um miðjan nóvember síðastliðinn varð mörgum brugðið. Bæði vegna eldsvoðans sjálfs en einnig vegna ummæla Baldurs Pálssonar, slökkviliðsstjóra Brunavarna á Austurlandi, þess efnis að reikna mætti með að 70–80 prósent af gripahúsum á landinu væru einangruð með frauðplasti, eins og raunin var með húsin í Fögruhlíð.
 
Baldur segir að um 35 mínútur hafi liðið frá því að slökkviliðið á Egilsstöðum var boðað út vegna elds í gripahúsunum í Fögruhlíð og þangað til slökkvibíll kom á staðinn. Þá var ljóst að meginhluti fjárhúsanna var fallinn og ljóst að engu varð bjargað. „Um 20 mínútum eftir að hringt er í neyðarlínu er miðjuhluti fjárhúsanna að falla og 10 mínútum síðar voru þau fallin. Menn spyrja sig auðvitað hvað hafi ráðið þessum óskaplega hraða bruna. Sumarið 2009 fengu Brunavarnir á Austurlandi að æfa slökkviliðið við að brenna gamalt íbúðarhús með áföstu fjósi sem var með óvörðu frauðplasti í þaki. Eftir að æfingunni í íbúðarhúsinu lauk létum við eldinn ná fjósinu og skipti engum togum að um leið og eldurinn náði plastinu í þakinu hófst hraður bruni og hitamyndun svo hröð að við trúðum vart okkar eigin augum og um leið hófst eldrigning frá plastinu sem eins og myndaði eldvegg þvert yfir húsið og fór eldveggurinn hratt eftir endilöngu húsinu og kveikti í öllu sem niðri var. 
 
Það liðu aðeins 10 mínútur þar til allir gluggar voru sprungnir út og eldsúlan sem þá myndaðist upp um strompinn náði alveg  tveimur til þremur metrum og eftir 20 mínútur var allt brunnið sem brunnið gat í húsinu en glóðarbruni var þá mikill. 
 
Reykur frá frauðplasti er baneitraður og mjög hættulegur mönnum og skepnum langt út fyrir brunastað og því þarf alltaf að nota reykköfunartæki jafnt innan sem utanhúss við að slökkva. Það er því alveg ljóst að mjög líklegt er að slökkvilið komi alltaf of seint þar sem plastbruni í þökum á sér stað,“ segir Baldur. 
 
Óvarið frauðplast aldrei verið leyft
 
Óvarið frauðplast hefur aldrei verið leyft sem einangrunarefni í gripahúsum, að sögn Baldurs. „Það er staðreynd að frauðplast er í mjög mörgum gripahúsum hér á landi og ekki síst á Austurlandi, því á Héraði hóf plastverksmiðja starfsemi fljótlega eftir að framleiðsla á slíkri einangrun hófst,“ segir Baldur.
 
„Þegar farið er yfir úttektir á þeim svæðum sem Eldstoðir ehf. sjá um, það er Snæfellsnes, Dalabyggð, Reykhólasveit og Austur-Húnavatnssýsla, hefur komið í ljós að  um 70 prósent af gripahúsum þar hafa verið einagruð með plasti neðan í loft eða gafla húsanna innanhúss. Sama gildir örugglega um fleiri sveitarfélög vítt og breitt um landið. Eldvarnaeftirlit sveitarfélaga eru einu aðilarnir sem geta krafist þess að plasteinangrun sé fjarlægð úr gripahúsum og hafa til þess tiltæk þvingunarúrræði en hafa ekki látið á þau úrræði reyna og ástæðan er líklega sú að menn eru alltaf að lempa menn til að fjarlægja plastið án þess að beita þvingunarúrræðum, en það gengur hægt. 
 
Margir sauðfjárbændur hafa ekki einangrað sín hús og þeir virðast búa alveg jafn vel og hinir. Þá er það þekkt að frauðplast tekur til sín raka og við það daprast einagrunargildi þess verulega.
 
Að sögn Baldurs hafa miklar breytingar átt sér stað í landbúnaði á undanförnum árum sem ekki séu allar af hinu góða. „Hlöður sem eiga að vera eldhólfaðar frá gripahúsum, hafa breyst í vélageymslur og viðgerðaraðstöðu og jafnvel hleðsluaðstöðu fyrir rafknúin verkfæri eins og lyftara. Ekki er óalgengt að þar safnist upp mikið magn af rúlluplasti og alls konar öðru eldfimu efni, jafnvel olíu. Allt stangast þetta á við byggingareglugerð. 
 
Þá er mikilvægt að fylgst sé grannt með ástandi rafmagns og allur frágangur þess sé vandaður. Alltaf er best að hafa einn aðalrofa sem slegið er út um leið og gripahús eru yfirgefin.
 
Bændasamtökin í landinu þurfa að beiti sér fyrir því að koma eldvarnareftirlitinu til aðstoðar og gangast fyrir landsátaki til þess að fjarlægja þetta skaðræðisefni úr öllum gripahúsum í landinu,“ segir Baldur.
 
Brunarvarnarátak í dreifbýli
 
Á árunum 2006–2012 vann Guðmundur Hallgrímsson að verkefni með Búnaðarsambandi Vesturlands (BúVest) sem hét Bruna­varnarátak í dreifbýli. „BúVest gerði samkomulag við þau sveitarfélög sem vildu taka þátt í verkefninu. Sveitarfélögin greiddu fasta upphæð fyrir hvert lögbýli í sveitarfélaginu, akstur og einnig vinnu við frágang á upplýsingamöppu.
 
Guðmundur Hallgrímsson.
Eðli verksins var að heimsækja bændur, skrá niður allar nauðsynlegar upplýsingar, eins og byggingarefni í húsum og aðkomu að bænum; hvar væri hægt að komast í vatn til dælingar, vegalengd og hæðarmun. Ef ekki væri vatn fyrir hendi, hvert væri styst að sækja vatn með tankbíl eða haugsugu. Farið var yfir flóttaleiðir, bæði í íbúðarhúsum og gripahúsum. Einnig hvað fólkið á bænum gæti gert á meðan beðið væri eftir slökkviliðinu. 
 
Útbúin var mappa, með loftmynd af bænum, öll hús merkt og skráðar allar upplýsingar um hvert fyrir sig og hvað bæri að varast fyrir slökkviliðsmenn; tvílyft íbúðarhús, úr hvaða efni eru milliloft og stigar, steinsteypt eða timbur. Eru gas og súr í verkfærahúsum og eru flóttaleiðir í gripahúsum nægar og greiðfærar.
 
Ég heimsótti um 500 lögbýli á Vesturlandi og tóku sex sveitarfélög þátt í verkefninu. Mappa var útbúin fyrir hvert sveitarfélag og eru þær í slökkviliðsbílunum. Þau slökkvilið sem eru með tölvu í bílunum fengu upplýsingarnar á disk og geta menn skoðað aðstæður á leiðinni á brunastað.
 
Vissulega væri gott ef slíkt verkefni væri unnið á landsvísu, þetta bjargar ekkert öllu en gæti vissulega flýtt verulega fyrir björgunaraðgerðum.
 
Ekki skal ég segja um hversu mikið af útihúsum eru einangruð með frauðplasti, en þau eru vissulega of mörg. Bændur eru meðvitaðir um hættuna sem af því stafar, en það er mikil vinna að skipta um einangrun og kosnaðarsamt að auki.
 
Í þessum heimsóknum er haft meðferðis brunaviðvörunarkerfi fyrir útihús til skoðunar fyrir bændur. Vissulega er mikið öryggi í að hafa viðvörunarkerfi vegna þess að það er frumskilyrði að komast að því sem allra fyrst ef eldur verður laus,“ segir Guðmundur.
 
 
Öryggi og vinnuvernd í landbúnaði
 
Nú er í gangi verkefni hjá Bænda­samtökum Íslands í samvinnu við nokkur búnaðarsambönd og hefur í tengslum við þá vinnu verið starfrækt vinnuverndarverkefnið Búum vel.  Markmið þess er að bæta öryggis- og vinnuverndarmenningu í sveitum, fækka slysum í landbúnaði og stuðla að góðu vinnuumhverfi og bættri ásýnd bæja. Starfið hefur meðal annars falist í heimsóknum til bænda, fræðslu og fundahöldum.
 
Fræðslubæklingurinn Öryggi og vinnuvernd í landbúnaði var gefinn út í tengslum við verkefnið en hann var sendur til allra lögbýla á landinu í janúar 2016. Sótt var í smiðju Norðmanna sem hafa rekið árangursríkt vinnuverndarstarf um árabil. Bæklingurinn er þýddur úr norsku og staðfærður. 
Framleiðnisjóður og Vátrygginga­félag Íslands hafa stutt við vinnuverndarstarf bænda.
 
Bændafulltrúar VÍS í öllum fjórðungum
 
Að sögn Auðar Bjargar Guðmunds­dóttur, framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs hjá VÍS, hefur VÍS átt langa og farsæla samleið með bændum í hartnær heila öld og býr vel að því hvað markaðshlutdeild snertir í sveitum landsins. „Okkur er mjög umhugað um að bændur séu bæði rétt og vel tryggðir. Til að fylgja því eftir hefur VÍS sérstökum bændafulltrúum á að skipa í öllum fjórðungum landsins. Þeir veita bændum faglega ráðgjöf og taka út ýmiss konar forvarnir í heimsóknum sínum á bæi, þar á meðal brunavarnir. 
 
Þó ekki sé unnt að vísa í nákvæmar tölur þá er ljóst að eldvörnum er ábótavant í of mörgum tilfellum. Á það einkum við í útihúsum sem komin eru til ára sinna. Það getur reynst kostnaðarsamt að bæta þar úr svo vel sé, en þá er gott að nýta sérþekkingu bændafulltrúa VÍS. Þeir sækja fjölmarga bændur heim á ári hverju og luma á ýmsum heilræðum sem, í það minnsta, draga umtalsvert úr eldhættu sé farið eftir þeim. 
Í upphafi þessa árs gáfu Bændasamtök Íslands bækling um öryggi og vinnuvernd í landbúnaði, með stuðningi VÍS. Þar getur meðal annars að líta góðar leiðbeiningar um brunavarnir í gripa- og útihúsum sem allir bændur ættu að kynna sér og skoða með hliðsjón af því hvernig þeirra eldvörnum er háttað. Svo má velta fyrir sér hvort ekki sé orðið tímabært að grípa til sambærilegra ráðstafana og í Noregi; en þar er skylt að setja upp brunavarnakerfi í útihúsum þegar fjöldi dýra fer yfir ákveðið viðmið. 
 
Í öllu falli er ljóst að tækifærin til úrbóta eru margvísleg en það er fyrst og fremst undir hverjum og einum bónda komið að tryggja sem best öryggi sinna skepna,“ segir Auður.
Skráð heildartjón rúmur milljarður
Fréttir 21. nóvember 2024

Skráð heildartjón rúmur milljarður

Skráð heildartjón vegna kuldakasts og annars óvenjulegs veðurfars á árinu er rúm...

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu
Fréttir 21. nóvember 2024

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu

Áður en Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm boðaði Kaupfélag Skagfirðinga (KS) ...

Undanþágan dæmd ólögmæt
Fréttir 21. nóvember 2024

Undanþágan dæmd ólögmæt

Óvissa er uppi um framhald samruna og hugmynda Kaupfélags Skagfirðinga (KS) um h...

Pólar hestar fyrirtæki ársins
Fréttir 19. nóvember 2024

Pólar hestar fyrirtæki ársins

Markaðsstofa Norðurlands hefur valið hestaleiguna Pólar hestar sem fyrirtæki árs...

Byggja stóra íþróttamiðstöð
Fréttir 18. nóvember 2024

Byggja stóra íþróttamiðstöð

Í Árnesi er verið að byggja fyrstu íþróttamiðstöðina í Skeiða- og Gnúpverjahrepp...

Afstaða framboða til landbúnaðarmála
Fréttir 15. nóvember 2024

Afstaða framboða til landbúnaðarmála

Stjórnmálaflokkarnir sem eru í framboði til alþingiskosninga, sem fram fara 30. ...

Nýjar höfuðstöðvar
Fréttir 15. nóvember 2024

Nýjar höfuðstöðvar

Samkvæmt ákvörðun Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðher...

Fiðrildategund nefnd eftir Björk
Fréttir 15. nóvember 2024

Fiðrildategund nefnd eftir Björk

Skordýrafræðingurinn Harry Pavulaan hjá Nebraska-háskóla hefur nefnt nýja fiðril...