Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Sóst er eftir að kalla fram sem flest sjónarmið þeirra sem áhuga hafa á Íslenskum landbúnaði.
Sóst er eftir að kalla fram sem flest sjónarmið þeirra sem áhuga hafa á Íslenskum landbúnaði.
Mynd / HKr.
Fréttir 19. júní 2018

„Það er þjóðin sem á að láta þetta sig varða, ekki einstakir hagsmunahópar“

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Samráðshópur um endurskoðun búvörusamninga hefur verið á fundaferð um landið að undanförnu þar sem unnið er að mótun tillagna varðandi breytingar á búvörusamningnum. Einn slíkur fundur var haldinn á Hvanneyri þriðjudaginn 29. maí undir stjórn Haraldar Benedikssonar, alþingismanns og formanns hópsins. 
 
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðar­ráðherra, skipaði að nýju í samráðshóp um endurskoðun búvörusamninga í kjölfar síðustu ríkisstjórnarskipta. Við afgreiðslu búvörusamninganna árið 2016 var lagt upp með að skipaður yrði sjö manna samráðshópur en í tíð tveggja síðustu ríkisstjórna hefur fulltrúum fjölgað í annars vegar 12 og hins vegar 13. Hinn 30. desember sl. ákvað sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að endurskipa í hópinn enda rétt að vinna hópsins taki m.a. mið af þeim áherslum sem fram koma í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur.
 
Alls eiga nú átta fulltrúar sæti í hópnum og fara tveir þeirra sameiginlega með formennsku. Samráðshópurinn er þannig skipaður:
 
Brynhildur Pétursdóttir, for­maður (Neytendasamtökin), Haraldur Benediktsson, formaður (skipaður af sjávarútvegs- og landbúnaðar­ráðherra), Þórlindur Kjartansson (skipaður af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra), Hafdís Hanna Ægisdóttir (umhverfis- og auðlindaráðuneytið), Jóhanna Hreinsdóttir (Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði / Landssamtök sláturleyfishafa), Halldór Árnason (Samtök atvinnulífsins), Sindri Sigurgeirsson (Bændasamtök Íslands), Elín Heiða Valsdóttir (Bændasamtök Íslands). 
 
Haraldur Benediktsson, alþingingismaður og annar tveggja formanna samráðshópsins. 
Lögð verður áhersla á að hópurinn ljúki störfum sem fyrst og eigi síðar en í lok árs 2018.
Haraldur sagði í samtali við Bændablaðið að samráðshópurinn ynni samkvæmt tveim meginleiðum. Annars vegar greining á samningunum og að rýna búgreinarnar sem undir honum starfa og að mótun fjögurra sviðsmynda. 
 
Stefnt að lúkningu sauðfjárhlutans í sumar
 
„Ráðherra lagði það til við hópinn  að vinna fyrst í sauðfjársamningnum. Við stefnum að því að ljúka vinnu við sauðfjárhluta búvörusamninganna nú í byrjun júní. Þá munum við skila til ráðherra áherslum samráðshópsins um endurskoðun. Í framhaldinu getur ráðherrann skipað sína samninganefnd á vegum ríkisins og lagt fyrir hana tillögur samráðshópsins. Þannig á að vera hægt að hefja endurskoðun sauðfjársamningsins strax í sumar. 
 
Við erum í miðjum klíðum í tillögugerð vegna sauðfjársamningsins og mér sýnist að þar sé að fæðast heildstæð nálgun á endurskoðun. Ekki bara að bregðast við einhverjum vandamálum sem nú eru uppi heldur að hugsa málið til framtíðar. 
 
Þegar við höfum lokið sauðfjársamningnum reikna ég með að við förum að ræða mjólkurframleiðsluna og grænmetisbúskapinn í framhaldinu. Við munum svo skila af okkur um áramótin,“ segir Haraldur. 
  
Teikna upp fjórar sviðsmyndir og mörg hundruð manna samráð
 
„Samhliða þessu þá keyrum við samtal og stefnumótunarvinnu á grunni sviðsmyndagerðar sem stýrt er af verkefnisstjórum KPMG, þeim Sævari Kristinssyni og Sveinbirni Inga Grímssyni. 
 
Í fyrsta lagi eru þar tekin viðtöl við valda aðila um hvernig þeir greina landbúnaðinn út frá sínum bæjardyrum. Við erum með mjög fjölbreyttan hóp af fólki sem kemur í þessi viðtöl. Á sama tíma keyrum við könnun sem send er til tvö til þrjú hundruð manna. Síðan keyrum við opna fundi í Reykjavík og á nokkrum stöðum í kringum landið eins og þennan, sem eru öllum opnir. Þar ræðum við helstu atriðin sem koma út úr þessum viðtölum og þessari könnun. Það varðar t.d. samkeppnishæfni landbúnaðarins, sjálfsmynd bænda, framtíðarhorfur í menntun í landbúnaði, rannsóknum og slíku.
 
Þannig teiknum við upp fjórar sviðsmyndir fyrir landbúnaðinn sem verða grunnurinn að eins konar stefnumörkun til mjög langs tíma samhliða búvörusamningum. Þá eiga stjórnvöld og bændur að vera komin með tæki sem þeir geta reglulega sest yfir og skoðað hvort þessi framtíðarsýn til ársins 2040 sé að rætast. Ef ekki, þá að meta hvernig eigi að bregðast við. Við erum því með mörg hundruð manna samráð um framtíð landbúnaðarins og að búa til virk stjórntæki til að móta stefnuna til skamms og langs tíma.
 
Köllum eftir áherslu fólks úti í byggðunum
 
– Er þetta þá fyrst og fremst hugmyndavinna sem er verið að framkvæma á svona fundum?
 
„Já, við erum að kalla eftir áherslum fólksins sem er úti í byggðunum og hvað því finnist skipta máli að tekið sé tillit til. Hvernig þetta fólk sér fyrir sér að landbúnaðurinn þróist. Við erum þá fyrst að hugsa til þess að bændurnir sem eru starfandi úti á mörkinni mæti til þessara viðræðna auk þess að virkja hugmyndirnar frá fólkinu sem mætir í viðtölin og þess sem kemur fram á þessum fundum.“
 
Ekki bylting á landbúnaðarkerfinu en öflug þróun
 
– Sjá menn fyrir sér einhverjar byltingar á landbúnaðarkerfinu?
 
„Nei, ekki byltingar, en mjög öfluga þróun. Það eru í gildi samningar við bændur og fyrsta endurskoðun á þeim er 2019 og aftur 2023. 
 
Hugmyndafræðin við vinnu samráðshópsins er sprottin upp úr gagnrýni Alþingis á samningana sem gerðir voru 2016 um að of lítil vinna hafi farið í samfélagslegt samtal um gildi landbúnaðarins. Við því er verið að bregðast og mæta til leiks með víðtækt samráð við sem flesta í þessu landi sem vilja láta sig framtíð landbúnaðar varða. Þannig að við getum haldið áfram að þróa hann, látið hann verða sterkari og sætt um leið fleiri en færri sjónarmið. Fengið þá sameiginlegan skilning á landbúnaðinum og sýn hvernig fólk vilji að hann þróist. Á þeim grunni getum við lagt fram tillögur hvernig hægt verði að vinna að því.“
 
Skortur á uppbyggilegri umræðu um landbúnaðinn á Alþingi
 
– Finnst þér skorta á skilning á Alþingi um stöðu eða mikilvægi landbúnaðar fyrir samfélagið?
 
„Nei, ég vil ekki segja það. Mér finnst samt skorta á að stjórnmálaflokkar og stjórn­málamenn í heild láti sig varða og taki þátt í uppbyggilegri umræðu um landbúnaðinn. Það er mikið af tilboðum og fullyrðingum um að þetta sé svona eða hinsegin án þess að fólk taki um þetta djúpt samtal. Ég lít þar til þess að við vorum í svona vinnu 2005 og 2006 sem ekki var lokið við, sem var mikil synd. 
 
Í Svíþjóð var í raun sama umræða uppi 2008 til 2011 og leidd af sænskum bændum. Það skilaði því að til varð greining sem hét fjórar myndir fyrir sænskan landbúnað til ársins 2050 sem stjórnmálaflokkar í Svíþjóð skrifuðu upp á og vildu láta rætast. Menn tóku ábyrgð á umræðum um landbúnað og sýndu skilning á hagsmunum þeirra sem hann stunda.“
 
Landbúnaðurinn þarf fyrst og fremst stöðugleika
 
– Er það ekki þannig að einhverjir vilji hætta stuðningi við landbúnað og láta markaðskerfið alfarið sjá um þróunina?
 
„Nei, allir flokkar sem eru á Alþingi í dag vilja landbúnaðinum hið besta. Þeir vilja að landbúnaðurinn sé sterkur og tala fyrir slíku en vilja fara ólíkar leiðir til þess. Um það snýst þetta sem hér er verið að gera. Getum við komið okkur saman um leiðir til að láta það rætast sem allir eru sammála um að þurfi? Að íslenskur landbúnaður sé mjög merkilegur og starf bændanna eitt mikilvægasta starfið sem unnið er í samfélaginu. Við verðum því að gæta að hagsmunum bændanna og landbúnaðarins og að við séum ekki með einhverjum skyndiráðstöfunum að ógna þeirri stöðu. Landbúnaðurinn þarf fyrst og fremst stöðugleika og framtíðarsýn.“
 
Það er þjóðin sem á að láta þetta sig varða
 
– Áttu þá von á að ef áformin með þessari vinnu samráðshópsins gengur upp að það skapist meiri friður um landbúnaðinn á Íslandi?
 
„Ég er alveg sannfærður um það að afgreiðsla þingsins 2016 þar sem sagt var að það ætti að skipa samráðshóp um búvörusamninga og þetta breiða samtal. Því miður var búið að taka það breiða samtal niður í samtal um hagsmuni hópa sem hafði aðra hagsmuni en landbúnaðurinn. 
 
Nú förum við allt aðra leið og förum beint til almennings. Við segjum einfaldlega; það er þjóðin sem á að láta þetta sig varða, ekki einstakir hagsmunahópar. Ég er algjörlega sannfærður um það í þessari vinnu sem við erum í núna á sviðsmyndafundum og í samráðshópnum, að við munum mæta margfalt sterkari til leiks og með miklu breiðara samtal um landbúnaðinn en áður. Þannig búum við til meiri frið og sátt um íslenskan landbúnað.“

8 myndir:

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...