Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Fjölskyldan á Hólum, þau Matthías Hálfdán, Rebecca Cathrine, Alexander Steinn, Kristjana Maj og Hjalti Freyr.
Fjölskyldan á Hólum, þau Matthías Hálfdán, Rebecca Cathrine, Alexander Steinn, Kristjana Maj og Hjalti Freyr.
Mynd / Barbara Herbrich, SP, í einkaeign.
Líf og starf 12. maí 2023

Hrafninn á Hólum

Höfundur: Sigrún Pétursdóttir

Hrafnar hafa komið víða við í sögunni okkar Íslendinga, sem og annarra og þá ekki síst sem vitsmunaverur. Flestir kannast við hrafna Óðins sem skildu mál manna og guða og fluttu Óðni fregnir – og til dæmis má nefna frásögn úr ferðabók Eggerts Ólafssonar og Helga Bjarnasonar frá árinu 1772 sem segir frá hrafninum, jafnan álitnum vitrustum allra fugla.

Krummi með Rebeccu, móður sinni.

Hérlendis vill svo skemmtilega til að djúpt inni í Dölunum, ekki langt frá vegamótum Vestfjarðavegar og Klofningsvegar, búa hjónin Rebecca Ostenfeld og Hjalti Freyr Kristjánsson – en þau tóku að sér lítinn hrafnsunga fyrir nokkrum árum, sem er ansi mælskur. Þau hjónin, ásamt þremur börnum sínum, reka dýraathvarf á Hólum þar sem gestir geta komið yfir sumarmánuðina og fengið að kynnast dýrunum.

„Það var nefnilega þannig að leiðir okkar Hjalta lágu saman í sláturhúsi Búðardals, þar sem við vorum bæði við störf. Ég var ekki lengi að hrífast af þessum óstjórnlega myndarlega manni sem fór sínar eigin leiðir við að vekja athygli mína á sér.

Jæja, ég kolféll fyrir honum og við hófum fljótlega að rugla saman reytum okkar,“ segir Rebecca, en Hjalti er fæddur og uppalinn í sveitinni.

Landbúnaðarhagfræðingurinn með gullhjartað

Vorið 2002, þá rúmlega tvítug, heimsótti Rebecca Ísland fyrst og sá fyrir sér að vera í eitt ár. Hún er menntaður landbúnaðarhagfræðingur frá Danmörku og hefur haft einskæran áhuga á dýrum frá barnsaldri, sú eina í sinni fjölskyldu.

Rebecca hafði þann starfa að sjá bæði um kúa- og svínabú í heimalandinu og því öllum hnútum kunnug. Að auki miðlaði hún af visku sinni og var fyrst allra til að aðstoða samnemendur sína sem áttu örðugt með námsefnið. „Það hefur einhvern veginn verið þannig að ég má ekkert aumt sjá og get ekki stillt mig þegar ég veit að aðra vantar aðstoð. Það sama á við um dýrin. Hjá mér eiga helst allir athvarf.“

Þessu eru þeir kunnugir sem sækja þau hjón heim, bæði Hjalta og börnin þrjú, þau Matthías Hálfdán, Kristjönu Maj og Alexander Stein, en hjá þeim eru allir aufúsugestir.

Rebecca, sem hefur alla tíð haft sterkar skoðanir á líðan og umhirðu dýra, segir upphaflegu ástæðu þess að hún hafi sótt Ísland heim vera vegna ástríðu sinnar á kindum. Við komuna til Íslands hélt hún beint í sauðburðinn á Vatni í Haukadal vorið 2002 og þótti yndisleg upplifun. „Það er notað svo lítið af sýklalyfjum á Íslandi, dýrin eru svo hamingjusöm, lífræn nánast, enda ættu Íslendingar að selja meira af kjöti úr landi finnst mér, enda gæðin ótrúleg. Komandi frá Danmörku finnst mér stór munur á íslenska kjötinu og öðru sem ég hef smakkað.“

Eftir sauðburðinn fór Rebecca sem leiðsögumaður til Suður-Grænlands en kom til baka um haustið að smala í réttir á sama bæ og áður. Um það leyti hóf hún svo störf í sláturhúsinu í Búðardal sem reyndist afdrifarík ákvörðun.

„Við stóðum bæði við færibandið, hann á öðrum endanum og ég hinum. Eftir fyrsta kossinn fórum við að vera saman og höfum verið í tuttugu ár.“ Hjónin, sem stóðu lengi vel í fjárbúskap, ventu kvæði sínu í kross fyrir nokkrum árum og hófu að taka að sér dýr sem þurftu á aðhlynningu eða heimili að halda. Hrafn nokkur, í dag kallaður Krummi, er eitt þeirra.

Krummi leikur við hvern sinn fingur.

Virðing fyrir dýrunum er númer eitt

„Það er ekki löglegt að leggja eignarhald sitt á villt dýr,“ segja þau hjónin, „en það má halda slösuðum dýrum eða þeim sem myndu ekki lifa af í náttúrunni vegna fötlunar eða annarrar vanhæfni.

Krummi kom til okkar pínulítill og slasaður. Í ljós kom að hann hafði fótbrotnað og brotið gróið skakkt saman, auk þess sem vængirnir voru skakkir. Hann hafði þó ótrúlega matarlyst. Við fórum með hann út í grasið þegar gott var veður, lágum hjá honum og höfum alltaf spjallað mikið við hann, reyndar eins og öll okkar dýr. Hann braggaðist, er orðinn stór og hraustur, en verður því miður alltaf hálfskakkur og vængirnir gagnslausir.“

Þau hjón hafa fengið ógrynni fyrirspurna varðandi Krumma.

„Fólk hefur falast eftir honum til sýninga eða í tónlistarmyndbönd svo eitthvað sé nefnt. Krummi er hins vegar ekki sýningargripur eða heilt yfir einhver sem er hægt að fá lánaðan. Hann er hér í öruggu umhverfi þar sem vel er um hann hugsað. MAST hefur komið reglulega og séð að við lítum vel eftir honum, enda erum við með leyfi fyrir honum og berum virðingu fyrir dýrum almennt.“

Hins vegar gerðu þau eina undantekningu, þegar beðið var um vinnuframlag Krumma í íslensku þáttaröðina Kötlu.

„Við vorum nú treg til að byrja með, en viðmælandi okkar, hann Róbert, kom vel fyrir og endaði á að leggja land undir fót til að reyna að fá okkur til að gefa eftir. Við höfðum framað því neitað, en þarna kom maður sem bar með sér traust, auk þess að leggjast flatur á gólfið hjá Krumma og spjalla við hann í heillangan tíma. Það fór svo að við samþykktum að Krummi mætti birtast í þáttunum, en einungis með því skilyrði að við hjónin fylgdum með,“ segir Rebecca flissandi. „Þetta varð því heljarinnar ferðalag þegar kom að tökum, enda langt að fara og Krummi bílveikur að hluta. Allt gekk þó að óskum, samstarfið hefði ekki getað gengið betur og hægt að sjá Krumma bregða fyrir í þáttum Kötlu.“

„Hæ, mamma!“

„Nú gæti reyndar einhver spurt sig“ segir Hjalti, „hvernig stendur á slíkri ásókn í hrafninn. Hann er jú gæfur og auðveldur í meðförum, en það vill svo skemmtilega til að hann getur nefnilega talað svolítið.“

„Það var þannig að fyrir nokkrum árum vorum við mæðgur, Kristjana og ég, úti að moka stíurnar, gefa dýrunum og þess háttar. Þetta var um kvöld, að vetrarlagi þannig birtan var frekar draugaleg, Hjalti og strákarnir höfðu brugðið sér af bæ þannig við vorum að stússast í þessu tvær.

Jæja, svo heyri ég kallað „Hæ, mamma ... mammaaaa“ og svara, „já, Kristjana mín.“ Þetta endurtekur sig, en þá segir Kristjana hálf flóttaleg, „mamma, ég var ekki að kalla.“ Þannig það er nú rétt hægt að ímynda sér hvað okkur brá þegar kom í ljós að þarna var Krummi litli að verki, krunkandi hátt og skýrt: „Hæ, mamma!“ Hann hefur síðan lært orðin Krummi, heyrðu, hættu, ha, já, nei, komdu, Gunni, Baltasar og typpi! Þökk sé afar þolinmóðum gestum. Aðallega segir hann þó mamma, hæ, ha og Krummi.“

Páfagaukurinn Jack Sparrow er ca 15 ára og af tegundinni Mealy Amazon.
Heimurinn upplifaður umvafinn trausti

Krummi er þó ekki endilega miðpunktur dýraathvarfsins á Hólum því þar má finna hænur, hunda, geitur, hesta, kanínur, kalkúna og naggrísi svo eitthvað sé nefnt, auk stæðilegs páfagaukssemvapparumtúniner sólskins gætir.

Hjónin segjast því miður vera um það bil komin að þolmörkum með athvarfið enda ekki endalaust húsaskjól þótt þau gjarnan vildu hýsa sem flesta. Kostnaður við fóður er einnig allnokkur enda innkoman helst á sumrin þegar gesti ber að garði. Rebecca skýtur því að, að heimsóknir gestanna séu dýrmætar stundir, sérstaklega ef tekst að aðstoða fólk sem hefur hvekkst í návist dýra eða eigi við líkamlega eða andlega annmarka að stríða sem hamlar þeim vanalega slíkar heimsóknir.

„Við fengum einhvern tíma til okkar hóp frá Ítalíu, nánast alveg blind öll, með leiðsögukonu með sér. Þá opnuðum við einungis fyrir þau, enda allt annar gír þegar um slíkan hóp er að ræða. Þarna er fólk sem þarf að fá að snerta dýrin og skynja hlutina í meiri rólegheitum. Þetta var yndisleg upplifun fyrir okkur öll, gaf okkur mikið. Svo í fyrrasumar kom fjölskylda til okkar með tólf ára stúlku sem einnig var blind og þá aftur tókum við Hjalti sjálf á móti þeim. Eftir að hafa kynnst dýrunum þá treysti hún sér til þess að setjast á hestbak, sem var ótrúleg stund fyrir alla viðstadda, maður verður svo þakklátur og glaður að geta gefið af sér,“ segir Rebecca.

500 kílóa svínið hún Svínka er ánægð með lífið og tilveruna.

Það er draumur hennar að hafa dýyraathvarfið opið allt árið og fá til viðbótar, á sérstökum tímum, til sín hópa með sérþarfir eða á einhvern hátt takmarkaðir, jafnvel bara hræddir við dýr, og leyfa þeim að upplifa návist við þau í rólegheitunum.

Öll fjölskyldan tekur að sér leiðsögn um athvarfið. „Yngsti guttinn, Alexander, sem nú er orðinn ellefu ára, greip þó tækifærið eitt skiptið, fyrir nokkrum árum reyndar, og leiðbeindi erlendum gestum um svæðið með orðunum „Come on, follow me, – this way.“ Útskýrði svo hátt og skýrt á íslensku: „Þarna er geit, henni finnst gott að borða nammi“ ... og höfðu þeir gagn og gaman af. Kannski ekki gagn,“ segir Rebecca flissandi.

Næsta víst er að þarna fer fjölskylda með líf og fjör í hjarta, virðingu gagnvart dýrum og mönnum og frá þeim fer enginn nema að langa að koma aftur sem fyrst.

Á Instagramreikningi Bændablaðsins má svo meðal annars sjá Krumma hefja upp raust sína.

Safnar saman þekkingu um alþýðulækningar
Líf og starf 18. júlí 2024

Safnar saman þekkingu um alþýðulækningar

Skoða á hefðir og notkun óhefðbundinna lækninga á Íslandi í norrænni rannsókn. A...

Gerum okkur dagamun
Líf og starf 18. júlí 2024

Gerum okkur dagamun

Nú er ekki seinna vænna en að fara að leggja línurnar fyrir sumarið og með það t...

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 15. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn er eitthvað órór þessa dagana enda einhver stífla á verkefnum í krin...

Gerum okkur dagamun
Líf og starf 12. júlí 2024

Gerum okkur dagamun

Nú er ekki seinna vænna en að fara að leggja línurnar fyrir sumarið og með það t...

Bænder
Líf og starf 12. júlí 2024

Bænder

Sumir fara á Tinder. Aðrir hafa ekki tíma í slíkt vegna anna í búskapnum. Hér, k...

Vættafundur á Eyjabökkum
Líf og starf 10. júlí 2024

Vættafundur á Eyjabökkum

Orðsins list kemur að þessu sinni frá Oddbjörgu Sigfúsdóttur.

Sumarkveðja
Líf og starf 10. júlí 2024

Sumarkveðja

Nú þegar lífið kviknar með sumrinu og golan leikur við kinn, skulum við gleðjast...

Himbrimi
Líf og starf 9. júlí 2024

Himbrimi

Himbrimi er nokkuð stór vatnafugl og er einn af einkennisfuglum íslenskra heiðav...