Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Sólskríkjan var smíðuð í Reykholti og átti langan feril við skólaakstur við Mývatn og hálendisferðir.
Sólskríkjan var smíðuð í Reykholti og átti langan feril við skólaakstur við Mývatn og hálendisferðir.
Mynd / ÁL
Líf og starf 14. nóvember 2022

Rúta framleidd á Íslandi

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Sólskríkjan er hópferðabíll smíðaður í Reykholti veturinn 1976-77. Hún var lengi í notkun hjá Jóni Árna Sigfússyni við skólaakstur við Mývatn, hálendisferðir o.fl. Fyrir nokkrum misserum var hún flutt aftur á sínar upprunaslóðir Borgarfirði með þeirri von að varðveita hana og koma í nothæft ástand.

Þórður Stefánsson, bifvélavirki á Arnheiðarstöðum í Hálsasveit, kom að smíði rútunnar á sínum tíma. Hann var starfsmaður hjá Guðmundi Kjerúlf sem rak bílasmiðju í Litla-Hvammi í Reykholti á árum áður, þaðan sem Sólskríkjan kom. Þórður segir að framleiddir hafi verið nálægt þremur bílum á hverjum vetri og komu þaðan margar rútur sem þjónuðu um allt land.

Aðspurður segir Þórður að mikilvægasta verkefnið til að koma rútunni í lag sé að skipta um mótorinn, og er hann búinn að verða sér úti um nýjan. Einnig þyrfti að skipta um allar rúður og tjasla upp á boddýið.

Skólaakstur og hálendisferðir

Jón Árni Sigfússon, bifreiðastjóri frá Víkurnesi við Mývatn, byrjaði sinn akstursferil á vörubíl árið 1949 og fór að starfa við skólaakstur upp úr 1960. Um miðjan áttunda áratuginn þurfti hann að stækka við sig og lét því smíða fyrir sig Sólskríkjuna sem hann fékk afhenda vorið 1977. Hún er 35 sæta langferðabíll með drifi á öllum hjólum. Grindin, vélin, hásingarnar og drifrásin í Sólskríkjunni kom mestmegnis úr Mercedes-Benz vörubíl árgerð 1968 sem Jón Árni keypti á Akureyri. Til að lengja grindina var hún sameinuð grind úr rútu af gerðinni Reo Studebaker sem Jón Árni átti fyrir. Húsið var gert eftir teikningu Guðna Sigurjónssonar og sniðið niður og sett saman með höndum á verkstæðinu í Reykholti.

Var við kvikmyndatökur

Þegar Jón Árni var ekki við skólaakstur var Sólskríkjan nýtt í hálendisferðir og ferðir með hópa um allt land. Einu sinni var honum falið það verkefni að fylgja starfsfólki við upptökur á kvikmyndinni Running blind, eða Út í óvissuna, sem kom út árið 1979. Þar ferjaði hann starfsfólkið og leikarana á milli tökustaða, sem voru m.a. í Ásbyrgi, Herðubreiðarlindum og fleiri stöðum á hálendinu.

Aðalpersónurnar í myndinni áttu að ferðast um landið í löngum Land Rover jeppa. Eitt sinn þegar hópurinn var í Landmannalaugum átti að taka upp atriði þar sem bíllinn æki yfir á í Jökulgili. Yfirmennirnir fóru fram á að bíllinn færi yfir vatnsmikinn stað í ánni, þvert á ráðleggingar Jóns Árna. Hann gat ekki snúið þeim frá þessu staðarvali, en fékk til öryggis að festa dráttartóg í bílinn og koma öðrum endanum fyrir á þakinu.

Þegar leikararnir voru búnir að keyra jeppann út í miðja á byrjaði vatnið að flæða yfir húddið og komust þau ekki lengra. Jón Árni sótti Sólskríkjuna, sem var niðri í Landmannalaugum, og keyrði upp að Land Rovernum. Þar gat hann teygt sig eftir eftir tóginu og stillt rútunni upp þannig að hann gæti dregið jeppann upp á bakkann hinum megin. Þar var hann skilinn eftir þangað til áin varð vatnsminni morguninn eftir.

Mynd sem birtist í Vísi 19. janúar 1980 og sýnir atvikið þegar Jón Árni þurfti að bjarga Land Rover jeppa upp úr á við Jökulgil. Mynd / Timarit.is

Allir nema yfirmaðurinn hrifnir

Þegar Jón Árni ók Sólskríkjunni til baka átti hann fullt í fangi með að festa hana ekki þar sem vatnið var farið að flæða upp að gólfi rútunnar. Hann þorði ekki að kúpla í sundur þar sem þá hefði getað komið vatn í kúplinguna. Með því að slá létt í kúplingsfetilinn náði hann að mjaka rútunni löturhægt áfram og komst á þurrt.

Þar var honum fagnað af öllum fyrir dirfsku. Sá eini sem kom ekki til að taka í höndina á honum var yfirmaðurinn sem hafði ákveðið að senda jeppann út í ána á þessum stað.

Skylt efni: saga vélar

Nýir Íslandsmeistarar
Líf og starf 14. mars 2025

Nýir Íslandsmeistarar

Landsliðsmennirnir Sigurbjörn Haraldsson og Magnús Magnússon urðu Íslandsmeistar...

Góður í dreifbýli og borg
Líf og starf 13. mars 2025

Góður í dreifbýli og borg

Bændablaðið fékk til prufu nýjan rafmagnsbíl af gerðinni Polestar 3. Þessi bílat...

Ljóðskáld á tíræðisaldri
Líf og starf 12. mars 2025

Ljóðskáld á tíræðisaldri

Ásmundur Magnús Hagalínsson hefur gefið út sína fyrstu ljóðabók, en hann er nýor...

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 10. mars 2025

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn kemur sterkur inn í næstu vikur. Hann þarf að nýta krafta sína vel o...

Nýburagjafir vekja lukku
Líf og starf 5. mars 2025

Nýburagjafir vekja lukku

Nokkur sveitarfélög halda uppi þeirri skemmtilegu hefð að gefa nýburum ársins í ...

Litrík snjókorn
Líf og starf 5. mars 2025

Litrík snjókorn

Prjónuð peysa úr 1 þræði DROPS Fabel og 1 þræði DROPS Brushed Alpaca Silk. Stykk...

Galdrarnir gerast á hverri æfingu
Líf og starf 4. mars 2025

Galdrarnir gerast á hverri æfingu

Sextíu manns koma að uppsetningu söngleiksins vinsæla Lands míns föður sem sýndu...

Norðurlandamót ungmenna í skák
Líf og starf 4. mars 2025

Norðurlandamót ungmenna í skák

Norðurlandamót ungmenna í skák fór fram í Borgarnesi 14. - 16. febrúar. Mótið á ...