Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Við tökur á verðlaunamyndinni Dýrinu.
Við tökur á verðlaunamyndinni Dýrinu.
Mynd / Aðsendar
Líf og starf 17. apríl 2023

Tökustaðastjóri bankar upp á

Höfundur: Sigrún Pétursdóttir

Tökustaðastjórinn Róbert Davíð Garcia sleit barnsskónum með annan fótinn í ávaxtagarði föðurforeldra sinna á Spáni. Í dag sér hann meðal annars um að útvega dýr í kvikmyndir og fá þau til að láta að stjórn. Slíkir hæfileikar kalla oftar en ekki á bæði þolinmæði og útsjónarsemi við bæði menn og dýr.

Það má spyrja sig hver sé stjarnan á þessari mynd, Róbert eða öskuþakin kindin sem var í einu aðalhlutverki þáttaraðarinnar Kötlu.

„Sem barn og unglingur fór ég til föður míns og fjölskyldu í spænsku sveitina á sumrin og var þá mikið í að hjálpa afa mínum sem ræktaði ávexti, var svona svolítill kaktusávaxtabóndi. Ætli þar hafi áhugi minn á plöntum og landbúnaði ekki kviknað,“ segir Róbert, sem einnig hafði ánægju af því að stússast í blómum með ömmu sinni.

Hundinum Pöndu frá Tjörneshreppi leist vel á Róbert og varð þeim vel til vina.
Leiðir hans lágu svo í Landbúnaðarháskólann þar sem hann þreifaði fyrir sér á hinum ýmsu brautum Endaði þó á landgræðslubraut. Í dag er tenging hans við sveitir landsins aðallega í gegnum kvikmyndaiðnaðinn þar sem hann hefur starfað í um það bil 15 ár. Róbert sem starfar að stærstum hluta sem tökustaðastjóri, hefur sl. ár, samhliða því, útvegað þau dýr er þarf við tökur kvikmynda og þátta og séð um að þau hegði sér á þann hátt sem óskað er eftir.

„Ég hef alltaf átt auðvelt með að umgangast dýr, enda ógrynni katta, hunda og hesta sem hafa fylgt mér gegnum árin. Það þarf bara að taka ljúflega á þeim, ákveðið auðvitað, en þannig að þau viti hver ræður og að þau eigi að hlýða.“

Kallar þó nokkur hluti starfs hans á samskipti við bændur landsins auk þess sem hann sér til þess að unnið sé í samvinnu við MAST og dýralækna og öll að leyfi séu til staðar, enda mikil ábyrgð sem fylgir því að fá aðgang að dýrum til að nota við tökur.

Hundinum Pöndu frá Tjörneshreppi leist vel á Róbert og varð þeim vel til vina.

Góð samvinna

„Ég held, og er eiginlega alveg sannfærður um, að ég sé búinn að banka upp á á öðrum hverjum sveitabæ sem fyrirfinnst á Íslandi. Vinnan mín felst afskaplega mikið í því að banka upp á á sveitabæjum,“ segir Róbert og glottir.

„Það er ótrúlegt, að eftir smáspjall er manni oftast tekið opnum örmum með hlýleika og vinsemd sem ég er þakklátur fyrir, enda heilmikil samskipti sem þurfa að vera við heimamenn þegar kvikmyndir eru teknar upp úti á landsbyggðinni. Starfið mitt felur í sér að vera í samskiptum við þá aðila sem áhuga hafa á að mynda, ég fer í kjölfarið og finn ýmsa valmöguleika sem gætu hentað við tökurnar. Langoftast er þetta úti á landi og því þarf ég að vera í góðum samskiptum við bændur úti um allt land. Passa upp á leyfamál og að allt gangi vel fyrir sig, en ég sé svo einnig um frágang og góða umgengni. Ég hef unnið að flestum stóru verkefnunum sem hafa verið hérlendis á síðustu árum, aðallega sem tökustaðastjóri en einnig oft séð um að útvega og þjálfa þau dýr sem eru í tökunum.“

Kisan Carlos frá Öxnadal situr hér í makindum sínum og tekur stöðuna.

Róbert minnist þess að við gerð myndarinnar Héraðið, sem fjallar um stöðu bændasamfélagsins gegn alvaldi kaupfélagsins, fékk hann það hlutverk að banka upp á á öllum mjólkurbúum á vesturhelmingi Íslands, þar sem söguþráðurinn kallaði á róbótafjós.

„Það er ekki sjálfgefið að fólk vilji hleypa sextíu manna kvikmyndatökuliði í fjósið sitt í mánuð, auk þess að veita alls kyns ráðgjöf og aðstoð. Þetta tók mig um tvær vikur. Ætli ég hafi ekki heimsótt þrjú fjós á dag, þá allt frá Reykjavík til Vestfjarða, en myndin var svo tekin upp að mestu á rjómabúinu Erpsstöðum í Dölum, á Hvammstanga og Blönduósi.

Með heimalninga undir hendinni

Róbert starfaði einnig við kvikmyndina Dýrið, sem sópaði til sín Edduverðlaunum á síðasta ári.

Myndin fjallar um hjón sem búa á sveitabæ í afskekktum dal. Þau una vel við sitt, en í sauðburðinum fæðist lamb sem er að hálfu leyti manneskja.

„Mynda þurfti öll atriði tvisvar þar sem dýrið kom fyrir, þá til jafns lamb svo og lítið barn eða brúða. Lambið var þannig aðalhlutverk myndarinnar þannig að ég þurfti, ásamt félaga mínum, að finna níu kollótt hvít lömb. Við fengum heimalninga sem þurfti að temja með hraði – svo þau yrðu ekki of gömul til þess að passa í hlutverkin. Settum á þau fullorðinsbleyjur og gáfum þeim að borða úr lófanum á okkur - og svo þvældust þau bara með okkur inn í hús og alls staðar yfir sumarið. Nokkur heltust úr lestinni og er upp var staðið stóðu þrjú eftir sem meðfærilegust voru. Þetta var mjög áhugavert ferli og sá ég einnig um að meðhöndla þau í tökum, halda þeim uppi og sjá til þess að þau hreyfðu höfuðin þegar það átti við og annað. Lömbin eru annars á góðum stað í dag, orðin svolítið villt og aftengd mönnum,“ segir Róbert.

Hlutverk dýranna eru auðvitað misjöfn og engin regla á hve mörg eru fengin hverju sinni. Róberti er ofarlega í huga verkefni við þættina Kötlu þar sem hinn ástsæli Ingvar Sigurðsson leikur mikinn kattaunnanda, eiganda hátt í 30 katta. Við það tilefni var leitað eftir ógrynni katta í tökuna – sem er ekki endilega það auðveldasta – og gæta þurfti þess að hver köttur væri á sínum stað þegar hlé voru, á milli þess sem tekið var upp. Það tókst allt að lokum og senan mörgum áhorfendum og tökuliði minnisstæð. Þáttaröðin fjallar um hvernig þorpsbúar Víkur í Mýrdal takast á við lífið eftir umrót samnefnds eldfjalls. Ári eftir gos eru einungis örfáir ábúendur eftir, sem eftir bestu getu takast á við daglegt líf en fara þó ekki varhluta af öskufallinu frekar en dýrin. Þá helst kindur sem léku þar stór hlutverk, þaktar ösku. Ítrekar Róbert að fyllstu ábyrgðar hafi verið gætt við myndatökur, unnið hafi verið í samvinnu við MAST auk dýralækna og öll leyfi til staðar, en eftir tökurnar voru kindurnar rúnar og sleppt í haga.

Grænlenskir sleðahundar frá tökum á myndinni Against the Ice.

Kalkúnar í spretthlaup

Í annað skipti við tökur á mynd Baltasars Kormáks, Against the Ice, sem er byggð á sannsögulegum atburðum, þrekraun tveggja pólfara sem urðu innlyksa á Grænlandi, komu bæði hópur sleðahunda, refur, hrafn og kalkúnar við sögu.

Þar vann Róbert bæði í því að finna tökustaði, líta til með sleðahundunum, hrafninum og refnum, auk þess sem hann fékk kalkúnana til þess að hlaupa spretthlaup milli ísjaka á Demantaströndinni rétt við Jökulsárlón, en líta átti út fyrir að þeir væru eltir af örmagna veiðimanni.

Atriðið var þó því miður klippt út, en ekki er annað hægt að segja en að lífið sé ævintýralegt í heimi tökustaðastjórans, sem með lagni og þolinmæði verður reynslunni ríkari.

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 25. nóvember 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn gæti átt von á þrálátum veikindum. Hann ætti að gæta vel að sjálfum ...

Smyrill
Líf og starf 20. nóvember 2024

Smyrill

Smyrill er minnsti og jafnframt algengasti ránfuglinn á Íslandi. Hann er nokkuð ...

Róbóti í stuði
Líf og starf 19. nóvember 2024

Róbóti í stuði

Róbótar Internetsins verða betri og betri í bridds. Þeir eru reyndar oft slakir ...

Förum okkur hægar
Líf og starf 18. nóvember 2024

Förum okkur hægar

Mikið hefur verið fjallað um „fast fashion“ eða hraðtísku í fjölmiðlum sl. ár, þ...

Íslandsmót skákfélaga
Líf og starf 15. nóvember 2024

Íslandsmót skákfélaga

Árlega eru haldin tvö mjög fjölmenn skákmót á Íslandi, Íslandsmót skákfélaga og ...

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók
Líf og starf 13. nóvember 2024

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók

Út er komin ljósmyndabókin Á slóðum íslenskra hreindýra í fylgd með Skarphéðni G...

Nautaskankar
Líf og starf 13. nóvember 2024

Nautaskankar

Þverskornir nautaskankar, oft ranglega merktir sem Osso Buco, eru ekki oft í hil...

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 11. nóvember 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn hefur sjaldan verið óþreyjufyllri en þarf að hægja á sér ef vel á að...