Önnur helgin í júlí
Útihátíðir að sumarlagi má finna víðs vegar um land allar helgar frá júní til ágústloka. Önnur helgin í júlí er þekkt fyrir sérstaklega mikla skemmtan, enda mætti segja að oftast væri að finna örlitla sólarglætu fyrst á þeim árstíma.
Um ræðir bæði löggiltar útihátíðir á borð við þungarokkshátíðina Eistnaflug í Neskaupstað, Goslokahátíð Vestmannaeyja og Kótilettu þeirra Selfossbúa, en einnig hafa starfsmannafélög ýmissa fyrirtækja gegnum tíðina staðið fyrir ferðum þessa helgi.
Undirrituð minnist ferðar í boði ónefnds elliheimilis á tíunda áratugnum, er haldið var í Þórsmörk með hóp starfsmanna, þá á aldrinum fjórtán ára til fimmtugs. Ekkert þótti eðlilegra en að blanda þarna þessu aldursbili saman enda var farið í ýmsa leiki – minnisstæðastur ratleikur nokkur sem veitt voru verðlaun fyrir.
Fóru leikar svo að fermingarbörnin hlutu fyrsta sætið og fengu í tilefni þess bjórkassa. Ekki leist ungviðinu á verðlaunin, enda bjór frekar ógeðs- legur drykkur og kassanum skipt snarlega fyrir vodkapela.
Eistnaflug
Útihátíðir þessa helgi hafa sumar lengi verið í föstum skorðum. Til að mynda hóf Eistnaflug göngu sína árið 2005. Er nafnið skírskotun í hátíðina Neistaflug sem haldin er árlega í Neskaupstað um verslunarmannahelgina. Eistnaflug á þéttan hóp aðdáenda sem mæta árlega og sífellt bætast fleiri í hópinn, auk þess sem hljómsveitir erlendis frá sækja í að spila á hátíðinni.
Árið 2016 spiluðu þar alls 77 hljómsveitir en frá árinu 2015 hefur íþróttahöllin í Neskaupstað verið notuð samhliða Egilsbúð sem var aðaltónleikastaðurinn fyrstu árin. Aldurstakmark á þessa frábæru hátíð er 18 ára og er tjaldsvæði austast í bænum ætlað tónleikagestum. Því miður verður hátíðin ekki haldin í ár, en verður þeim mun ferskari að ári.
Goslokahátíð
Mikið verður um að vera á Goslokahátíð Vestmannaeyja þetta árið, en hálf öld er síðan gosið varð. Yfirgripsmikil dagskrá er í tilefni þessa enda stendur hátíðin yfir frá 3.–9. júlí. Segir í útgefnu yfirliti goslokanefndar að í boði séu fjölbreyttir viðburðir, fjöldi ljósmynda- og myndlistarsýninga, auk tónleika af ýmsu tagi – bæði innandyra og utan.
Barnadagskrá í boði Ísfélags Vestmannaeyja verði fjölbreytt og má þar nefna Goslokahlaup, Latabæ, BMX brós, Línu Langsokk og Lalla töframann. Sundlaugarpartíið og Landsbankadagurinn verði á sínum stað og einnig ratleikur í boði Íslandsbanka.
Goslokanefnd hefur lagt áherslu á að gera bæjarbrag hátíðarinnar sem mestan og hvetur nefndin því alla bæjarbúa og fyrirtæki til þess að skreyta umhverfi sitt í goslokalitunum sem eru gulur, appelsínugulur, rauður og svartur – litir elda og hrauns.
Kótilettan
Að lokum, á hinni sívinsælu Kótilettu Selfyssinga stíga á svið heimamennirnir vinsælu í hljómsveitinni Skítamóral auk fjölmargra vel þekktra listamanna á borð við Nýdönsk, Á móti sól, Herra Hnetusmjör og Jón Jónsson.
Tilvera Kótilettunnar hófst fyrir þrettán árum og varð strax vel sótt fjölskylduhátíð þar sem, auk þess að njóta tónleikahaldsins, geti grilláhuga- menn kynnt sér allt á grillið, bæði kjöt og úrval grilla frá fjölda framleiðenda. Á meðal dagskrárliða eru Stóra Grillsýningin, Styrktarlettur SKB, Veltibíllinn og svo auðvitað stórglæsileg dagskrá á sviðinu fyrir alla fjölskylduna.
Er aðgangur á bæði fjölskylduhátíðina og grillfestivalið er ókeypis, en borga þarf fyrir miða á tónleika.