Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Á faglegum nótum 8. október 2019
Breytingar á heildareinkunn í nautgriparækt
Höfundur: Guðmundur Jóhannesson ábyrgðarmaður í nautgriparækt, mundi@rml.is og Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir Þróunar- og verkefnastofa, geh@rml.is
Fyrir skömmu lauk vinnu við verkefni um hagrænt vægi eiginleika í nautgriparækt sem staðið hefur yfir í um tvö ár. RML hefur staðið fyrir þessari vinnu sem hefur verið í höndum þeirra Kára Gautasonar og Jóns Hjalta Eiríkssonar og hefur notið stuðnings þróunarsjóðs nautgriparæktarinnar, Landssambands kúabænda og Nautastöðvar BÍ. Hluti verkefnisins var unninn í samstarfi við sérfræðinga Háskólans í Árósum í Danmörku, einkum Morten Kargo Sørensen. Þann 6. ágúst sl. var lokaafurðin kynnt fagráði í nautgriparækt og er skýrsluna að finna á heimasíðu RML.
Fagráð ákvað að nýta niðurstöður verkefnisins svo fljótt sem verða má og við næstu keyrslu kynbótamats verður útreikningi á heildareinkunn breytt til samræmis við niðurstöður verkefnisins.
Gott kynbótastarf byggir á skýrum og góðum markmiðum þar sem velja þarf fyrir eiginleikum sem skila okkur afkastameiri, hraustari, hagkvæmari og betri gripum auk þess sem hafa verður í huga velferð þeirra. Ein leið til að ákvarða samsetningu og vægi eiginleika er að leiða út með hvaða áherslum má vænta mests hagræns ávinnings. Ef valið fer fram samkvæmt því má vænta hámarksnýtingar þeirrar fjárfestingar sem fer í kynbótastarfið en það er sérstaklega mikilvægt ef dýrar, og jafnframt öflugar, aðferðir svo sem erfðamengisúrval eru nýttar.
Við mat á hagrænu gildi eiginleika er horft til framtíðar en verðmæti þeirra fer eftir ýmsum ytri aðstæðum. Ávinningur af kynbótastarfi er framtíðarávinningur og það er alls ekki auðvelt að spá fyrir um þær aðstæður sem kunna að verða að t.d. 10 árum liðnum.
Í verkefninu var gerð tilraun til þess að spá fyrir um aðstæður árið 2027 og smíða líkön sem líkja eftir framleiðsluaðstæðum og kúabúum framtíðarinnar. Settar voru upp þrjár sviðsmyndir en sú sem líklegust þótti valin til áframhaldandi vinnu í samráði við fagráð í nautgriparækt.
Sú sviðsmynd gerir ráð fyrir því að kúabúum fækki úr 581 um áramótin 2016-17 niður í 406 árið 2027. Reiknað er með að þá verði meðalstærð orðin 65 árskýr, meðalnyt komin í 7.100 kg og heildargreiðslumark 173 milljónir lítra. Einhverjum kann að þykja bratt að auka greiðslumark um 28 milljónir lítra eða 19% á tíu árum. Þessi spá byggir á spám um fjölda ferðamanna og lágspá Hagstofu Íslands um fólksfjölgun auk þess sem tekið er tillit til áhrifa tollfrjáls innflutnings. Það verður hins vegar að hafa í huga að mikil óvissa er um marga þætti sem hafa áhrif á stærð mjólkurmarkaðarins og má þar nefna gengis- og tollamál, mannfjölda og fjölda ferðamanna ásamt breytingum í neyslumynstri á mjólkurvörum. Í þessari sviðsmynd er tekið tillit til fjölda annarra þátta, s.s. fóðrunar- og uppeldiskostnaðar, launakostnaðar, afurðaverðs o.fl. Það er hins vegar of langt mál að gera grein fyrir öllum forsendum hér og því bent á skýrsluna sjálfa.
Hluti verkefnisins var að meta hagrænt gildi útlits og umhirðuþátta gripanna, eins og júgur- og spenagerðar, mjalta og skaps. Það var m.a. gert með því að senda könnun til bænda þar sem þeir voru beðnir um að leggja mat á þann vinnusparnað sem verður með því að bæta þessa eiginleika. Jafnframt voru bændur spurðir um hvernig þeir vilja hafa vægi eiginleika í ræktunarstarfinu.
Gleitt settir framspenar og of mjóir spenar stærsta vandamálið
Helstu niðurstöður könnunarinnar voru þær að bændur telja gleitt setta framspena og of mjóa spena stærsta vandamálið varðandi spenagerð, þ.e. þetta væru þeir þættir sem yllu aukinni vinnu við gripina. Þeir lögðu lögðu nokkuð að jöfnu hvort gallar í júgurgerð stöfuðu af lítilli festu, ógreinilegu júgurbandi eða mikilli júgurdýpt enda fara þessir gallar oft saman. Varðandi mjaltir og skap töldu menn að hækkun þessara eiginleika um eitt stig í einkunn sparaði 30-60 sek. á kú á ári í mjöltum og samsvarandi tala fyrir skap var 20-30 sek. Þeir sem svöruðu könnuninni voru almennt nokkuð sammála um að lækka beri vægi afurða í heildareinkunn og hækka vægi annarra eiginleika eins og júgur- og spenagerðar, mjalta og skaps.
Danskur hugbúnaður, SimHerd, var aðlagaður eins og kostur var að íslenskum aðstæðum og þeirri stöðu sem líklegust þykir árið 2027. Í samráði við fagráð var gert ráð fyrir að framleiðslustýringu með greiðslumarki yrði viðhaldið og þróun í fækkun og stækkun búa væri með svipuðum hætti og verið hefur. Sjónarhornið á hagrænan ávinning kynbótanna í þessu verkefni er að markmiðið sé að lækka framleiðslukostnað mjólkur, og er þá látið liggja á milli hluta hver nýtur þess ávinnings, hvort það eru bændur, afurðastöðvar eða neytendur.
Erfðaframfarir í einstökum eiginleikum lækka framleiðslukostnað mjólkur
Í niðurstöðum verkefnisins kemur fram að erfðaframfarir í einstökum eiginleikum lækka framleiðslukostnað mjólkur um 1,05 kr/l á ári sé valið eftir nýrri heildareinkunn eða um 150 milljónir króna á ári. Þessar tölur um árlegan sparnað miða við framleiðslukostnað á þeim tíma þegar áhrifanna er farið að gæta að fullu. Ef að skoða á ávinning af fjárfestingu í kynbótum núna þarf að taka tillit til þess tíma sem áhrifin eru að koma fram. Sé miðað við að kostnaður við kynbótastarf komi fram við sæðingu, ágóðinn þegar þeir gripir sem þá verða til koma til framleiðslu, 4% ávöxtunarkröfu og að starfið borgi sig upp á 15 árum má kynbótastarf með þeim árangri sem metinn er í verkefninu kosta 960 milljónir á ári hérlendis. Samkvæmt samningi um starfskilyrði nautgriparæktarinnar (2016) eru lagðar nálægt 196 milljónum króna í kynbótastarf árlega af hálfu hins opinbera. Því til viðbótar kemur framlag bænda sjálfra á formi til dæmis sæðingagjalda og kynbótaáætlana. Miðað við sömu forsendur mega aðgerðir sem skila aukinni framför upp á 0,1 stig í heildareinkunn kosta 69 milljónir. Því má ætla að kostnaðarsamar aðgerðir eins og upptaka erfðamengisúrvals borgi sig upp á fáum árum. Stærsti ávinningurinn af erfðamengisúrvali liggur í styttingu ættliðabils og þar með þeim tíma sem tekur að fá fjárfestingu í kynbótum endurgreidda. Sú fjárfesting skilar varanlegum og margföldum ávinningi, ekki síst ef horft er til lengri tíma.
Fagráð ákvað að fara að þeim tillögum sem lagðar eru til í verkefninu og breyta útreikningi á heildareinkunn. Segja má að því felist einnig ákveðin breyting á ræktunarmarkmiði nautgriparæktarinnar. Sú breyting sem koma mun til framkvæmda við næstu keyrslu á kynbótamati á að auka ávinning af ræktunarstarfi nautgriparæktarinnar í formi minni framleiðslukostnaðar, sem metinn er af höfundum skýrslunnar nálægt 150 milljónum króna á ári. Það er því ljóst að verulegan ábata er að sækja í erfðaframfarir eða sem nemur um 1 krónu á hvern framleiddan lítra mjólkur.
Í breytingunni felst að vægi á afurðum verður lækkað úr 44% í 36% auk þess sem samsetningu afurðaeinkunnar verður breytt á þann veg að fituafurðir fá 47% vægi, próteinafurðir 48% og próteinhlutfall 5%. Þannig mun afurðaeinkunnin endurspegla verðhlutföll verðefnanna auk þess sem próteinhlutfallið fær 5% vægi til þess að halda því jafnháu og nú er. Vægi annarra eiginleika mun breytast lítillega en stærsta breytingin verður sú að ending mun eingöngu koma inn í heildareinkunn nauta sem hafa reiknaða endingareinkunn.
Í töflunni hér fyrir ofan má sjá vægi eiginleika fyrir og eftir breytingu. Þessi breyting er mjög í takt við vilja kúabænda eins og fram kom hér að framan.
Allar breytingar hafa áhrif á val gripa
Allar breytingar á heildareinkunn hafa áhrif á val gripa í ræktunarstarfinu. Með þessari breytingu munu þau naut sem eiga dætur sem mjólka fituríkri mjólk hækka í mati. Jafnframt kemur þessi breyting nautum sem skila okkur góðri júgur- og spenagerð ásamt mikilli endingu til góða. Við næstu keyrslu kynbótamats geta bændur því búist við því að sjá einhverjar breytingar í skrá yfir nautsmæður og efnilegar kvígur.
Rétt er að fram komi að þrátt fyrir að sú heildareinkunn sem nú verður tekin upp byggi í fyrsta skipti á mati á hagrænum gildum hinna einstöku eiginleika er breytingin ekki byltingarkennd. Heildareinkunnin sem unnið hefur verið með frá árinu 2005 er í töluverðum takti við hina nýju einkunn og þær breytingar sem gerðar hafa verið á henni gegnum tíðina hafa allar fært hana nær hinum hagrænu gildum eiginleikanna.
Við hvetjum kúabændur og aðra til að kynna sér skýrsluna sem finna má á heimasíðu RML á slóðinni https://www.rml.is/static/files/Nautgriparaekt/Fagrad/verkefni/hagraent_vaegi_eiginleika_nautgriparaekt.pdf.