Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Í Danmörku á sér nú stað þung umræða um breytingar á ráðgjafarkerfinu, sem þykir hafa staðnað um of og sé ekki nógu sveigjanlegt. Langstærsti hluti landbúnaðarframleiðslunnar í Danmörku fer til útflutnings og því hefur landbúnaðurinn lagað sig að því brey
Í Danmörku á sér nú stað þung umræða um breytingar á ráðgjafarkerfinu, sem þykir hafa staðnað um of og sé ekki nógu sveigjanlegt. Langstærsti hluti landbúnaðarframleiðslunnar í Danmörku fer til útflutnings og því hefur landbúnaðurinn lagað sig að því brey
Mynd / HKr.
Á faglegum nótum 24. júní 2019

Breyttir tímar kalla á breytta þjónustu við landbúnaðinn

Höfundur: Snorri Sigurðsson - snsig@arlafoods.com
Landbúnaður í heiminum hefur tekið miklum breytingum síðastliðna öld og sér í lagi síðustu áratugi. Bændum heimsins hefur fækkað jafnt og þétt en á sama tíma hefur matvælaframleiðslan aukist umtalsvert. Skýringin felst auðvitað í aukinni sérhæfingu og bættri skilvirkni auk þess sem bæði bústofnar og plöntur hafa tekið miklum erfðafræðilegum framförum. 
 
Víða erlendis hefur umgjörð landbúnaðarins í raun tekið minni breytingum en landbúnaðurinn sjálfur og skiptir þar litlu hvort um er að ræða opinbert kerfi eða t.d. nærumhverfi búanna eins og ráðgjöf og dýralæknaþjónusta.
 
Fyrirtækjaráðgjöf vaxið ásmegin
 
Í Danmörku á sér nú stað þung umræða um breytingar á ráðgjafarkerfinu, sem þykir hafa staðnað um of og sé ekki nógu sveigjanlegt. Langstærsti hluti landbúnaðarframleiðslunnar í Danmörku fer til útflutnings og því hefur landbúnaðurinn lagað sig að því breytilega landslagi sem útflutningsmarkaðir leiða af sér í frumframleiðslunni. 
 
Fyrirtæki sem þjónusta bændur hafa verið dugleg aðlaga sig að þessum veruleika og mörg þeirra bjóða í dag upp á öfluga ráðgjöf samhliða sölu á vörum og þjónustu. Þessi leið hefur einnig verið að ryðja sér til rúms hér á landi s.s. varðandi fóðurráðgjöf svo dæmi sé tekið. Margir bændur og forsvarsmenn afurðafyrirtækja í Evrópu vilja þó gjarnan sjá ráðgjafarþjónustuna hlutlausa og óháða sölumarkmiðum fyrirtækja og hefur það nú leitt til þess að hin hefðbundna ráðgjafarþjónusta þarf að líta í eigin barm og finna lausn sem hentar nútíma landbúnaði og um leið getur skákað fyrirtækjaráðgjöf.
 
Ef þörf bænda sem búa með búfé er skoðuð með hlutlausum hætti er ávinningur bænda af slíkri samþættingu all augljós, en líklega vegna hefða hefur þetta skref ekki verið tekið að neinu marki í Evrópu. Svona samþætting er þó til og skarar þar eitt land fram úr og það er Ísrael, en þar hefur hið svokallaða Hachaklait ráðgjafarkerfi verið í notkun í áratugi fyrir þarlenda mjólkurframleiðslu. 
 
Ísrael leiðandi
 
Þegar þessi mál eru skoðuð í grunninn í Evrópu er eiginlega sláandi hvað lítið er um samvinnu eða samþættingu á hefðbundnu ráðgjafarstarfi og dýralæknaþjónustu. Ef þörf bænda sem búa með búfé er skoðuð með hlutlausum hætti er ávinningur bænda af slíkri samþættingu all augljós, en líklega vegna hefða hefur þetta skref ekki verið tekið að neinu marki í Evrópu. Svona samþætting er þó til og skarar þar eitt land fram úr og það er Ísrael, en þar hefur hið svokallaða Hachaklait ráðgjafarkerfi verið í notkun í áratugi fyrir þarlenda mjólkurframleiðslu. Hachaklait er samvinnufélag flestra kúabúa landsins og sér félagið um alla ráðgjöf og þjónustu sem kúabú þurfa á að halda s.s. varðandi jarðrækt, kynbætur, fóðuráætlanir, skyndiútköll vegna veikinda, fyrirbyggjandi dýralæknaþjónustu, sæðingar og allt þar á milli. Öll þessi þjónusta er á einni hendi og er líklega sú hagkvæmasta sem um getur í heiminum og það er einmitt ástæðan fyrir því að fleiri lönd, sér í lagi þau sem þurfa að efla samkeppnishæfni síns landbúnaðar, horfa til Hachaklait lausnarinnar þar sem menntað fagfólk í landbúnaði og dýralækningum vinna saman.
 
Taka Danir upp ísraelsku leiðina?
 
Sem stendur starfar sérstakur hópur að því að móta tillögur fyrir danskan landbúnað og á vinnuhópurinn að skila af sér tillögum í haust. Hvaða leið verður farin er óvíst sem stendur en skilaboð formanns dönsku bændasamtakanna, Martin Merrild, eru skýr en hann segir að nauðsynlegt sé að bæta sérhæfinguna og að fólk hafi þrek og þor til að taka erfiðar ákvarðanir en í Landbrugsavisen, sem kom út fyrir síðustu helgi, sagði hann í viðtali að „það væri of mikið af umframfitu í danska ráðgjafarkerfinu“ sem þyrfti að skera frá. 
 
Hver sem niðurstaðan verður er ljóst að margir, sérstaklega danskir kúa- og svínabændur, vilja gjarnan sjá aukið vægi faglegrar ráðgjafar og fyrirbyggjandi starfs dýralækna.
 
Breytt starf dýralækna
 
Undanfarin ár hefur dýra­læknaþjónustan í Danmörku nefninlega breyst úr því að vera hálfgert „slökkvistarf“ þ.e. fyrst og fremst að sinna útköllum, yfir í að vera starf sem felst í að „koma í veg fyrir eldinn“ þ.e. heilbrigðisráðgjöf sem dregur úr líkum á því að skepnur veikist yfirhöfuð. Þetta hefur eiginlega gerst af sjálfu sér en með auknum heimildum til bænda að meðhöndla sjálfir sjúkar skepnur með lyfjum, hefur starf dýralæknanna breyst mikið og yfir í ráðgjöf, fyrirbyggjandi heimsóknir á bú og kennslu í meðhöndlum sjúkdóma. Þessi leið er bæði mun betri fyrir búfénaðinn og búskapinn, en einnig mun meira gefandi fyrir þá sem við þetta starfa. Með því að tvinna svo saman forvarnarstarf á sviði heilbrigðismála á búum við t.d. fóðurráðgjöf, kynbótaráðgjöf eða annað það sem brýnt er að taka fyrir hverju sinni, er hægt að ná fram afar góðum samlegðaráhrifum við ráðgjöf og þjónustu og með því tryggja að viðkomandi bú fái bestu mögulegu aðstoð sem unnt er hverju sinni.
 
Taka fyrirtækin yfir?
 
Ef horft er út fyrir Evrópu og t.d. til Bandaríkjanna eða Asíu er svokölluð fyrirtækjaráðgjöf nánast allsráðandi. Kynbótaráðgjöfin er veitt af þeim aðila sem selur bændum sæði eða fósturvísa og fóðurráðgjöfin veitt af þeim sem selur bændum hráefni eða t.d. tilbúið kjarnfóður. Þá er ráðgjöf varðandi t.d. mjaltir og vinnubrögð við mjaltir á höndum þeirra fyrirtækja sem selja og þjónusta mjaltabúnaðinn og sé horft til málefna varðandi mjólkurgæði og júgurheilbrigði þá eru þau mál oft á höndum afurðastöðva eða jafnvel ráðgjafa á vegum lyfjafyrirtækja! Þessi þróun er alls ekki óeðlileg og afar vel skiljanleg út frá sjónarhóli þeirra sem starfa við sölu. Hins vegar er alls ekki tryggt að bóndinn fái bestu mögulegu þjónustuna með þessum hætti, enda ráðgjöfin ekki hlutlaus. Hverjar ætli séu líkurnar á því að t.d. mjaltafyrirtæki mæli með spenagúmmíi frá öðrum framleið-anda, kynbótafyrirtæki sem mælir með sæði frá öðru fyrirtæki eða fóðursali sem mælir með fóðri eða hráefni frá öðrum? Auðvitað getur þetta gerst, og vonandi sem oftast, ef ráðgjafinn sér að lausnir annarra séu betri. Vandinn er þó sá að afar ólíklegt er að ráðgjafi, sem starfar fyrir fyrirtæki, hafi þá yfirsýn sem þarf að hafa til að geta ráðlagt bóndanum að nota sér aðrar lausnir en einmitt þær sem viðkomandi fyrirtæki selur. Þetta hefur hlutlaus ráðgjafarþjónusta víða um heim margsannað.
 
Framtíðin á Íslandi?
 
Aðstæður hér á landi eru töluvert frábrugðnar aðstæðum í mörgum öðrum löndum sökum fjarlægðar á milli búa og smæðar markaðarins. Hér hefur þó sérhæfingin snaraukist á liðnum áratugum og sér í lagi í svína-, alífugla- og loðdýrarækt en einnig í hefðbundinni mjólkurframleiðslu. Þessi staða hefur vissulega haft áhrif á þarfir búanna fyrir sérhæfðari og faglegri ráðgjöf en fyrr og hefur RML mætt því eftir bestu getu. Samhliða hefur einkaráðgjöf aukist jafnt og þétt, bæði af sjálfstæðum ráðgjöfum en einnig frá fyrirtækjum. Þá hafa verið fengnir ráðgjafar erlendis frá í einstaka verkefni.
 
Hvernig þessi mál munu þróast á Íslandi á komandi árum og áratugum er erfitt að segja fyrir um, en líklegra er en hitt að aukin sérhæfing í landbúnaði hér muni kalla á breyttar áherslur og aukið samstarf bæði innanlands og við önnur lönd. Hvort breytt ástand leiði til myndunar eins konar Hachaklait kerfis skal ósagt látið, en það væri vissulega ákjósanlegt enda er það án nokkurs vafa faglega og þjónustulega besta ráðgjafarkerfi sem greinarhöfundur hefur kynnst í heiminum.
„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...