Degli (Pseudotsuga menziesii)
Pseudotsuga er lítil ættkvísl a.m.k. sex tegunda sígrænna barrtrjáa af þallarætt (Pinaceae).
Fjórar tegundir eru í Austur- Asíu, allar sjaldgæfar, og tvær í vestanverðri Norður-Ameríku. Önnur þeirra síðarnefndu hefur nokkuð verið reynd hérlendis og gæti verið framtíðartré í skógrækt á Íslandi með hlýnandi loftslagi.
Nafnaóreiða
Nokkuð hefur verið á reiki hvað kalla skuli þessa tegund á íslensku, degli, döglingsvið eða douglas- greni. Því síðasttalda er auðvelt að hafna því grenitegund er þetta ekki. Vísun í konungsheitið döglingur úr fornkvæðunum væri aftur á móti til sóma þvílíkri eðaltrjátegund. Þó virðist sem tillaga Axels Kristinssonar, degli, sé helst að festast í málinu. Það er þjált, stutt og laggott heiti.
En víðar er nafnaóreiða á degli en hérlendis. Í fyrsta lagi kemur ættkvíslarheitið Pseudotsuga spánskt fyrir sjónir því það þýðir eiginlega „gerviþöll“. Við sjáum líka erlend heiti á degli sem vísa ýmist til grenis, þallar, furu eða þins – en þó ekki til lerkis, einhverra hluta vegna. Það er nokkuð kostulegt því þróunarfræðilega er það lerkiættkvíslin sem er skyldust degliættkvíslinni af öllum ættkvíslum þallarættarinnar. Margt er skrýtið í kýrhausnum.
Heitið degli vísar beint og óbeint til grasafræðingsins skoska, Davids Douglas, sem fæddur var 1799. Douglas er sagður hafa komið fyrstur með deglifræ til Evrópu og vakið á tegundinni athygli. Uppruna latneska tegundarheitisins menziesii má hins vegar rekja til annars skosks grasafræðings sem hét Archibald Menzies og var fæddur hálfri öld fyrr, 1754. Hann lýsti tegundinni fyrstur og kom með sýni af henni vestan um haf. Af þeim sýnum var tegundin ranglega greind sem fura. Og þótt degli minni lítt á furu lifir furutengingin góðu lífi því timbrið úr degli er kallað Oregon pine sem þýðir „fura frá Oregon“. En svo við drögum þetta saman er degli sérstök ættkvísl innan þallarættar. Þar með er það skylt furu , greni , þallar , þin- og lerkitegundum, þróunarfræðilega skyldast lerkinu sem fyrr segir.
Með hæstu trjám
Degli er einstofna tré með keilulaga krónu og getur vaxið hratt við góðar aðstæður. Þetta er mjög stórvaxin trjátegund sem mun örugglega ná 30 metra hæð hérlendis og vafalaust miklu meira en það. Degli hefur núþegarnáðyfir20mhæðí Hallormsstaðaskógi og tegundina má finna í skógum víða um land þótt hvergi myndi hún skóg. Í upprunalegum heimkynnum sínum í miðhluta vesturstrandar Norður-Ameríku er talið að fyrrum hafi staðið deglitré sem náð höfðu yfir 120 metra hæð. Mögulega voru það hæstu tré í heiminum þá. Hæsta deglitréð sem nú er þekkt er um eitt hundrað metra hátt. Í nokkrum Evrópulöndum standa deglitré sem gróðursett voru á nítjándu öld og nálgast nú 70 metra. Hérlendis hefur degli þroskað fræ og hraustar sjálfsánar degliplöntur má finna í Stálpastaðaskógi í Skorradal – alíslenskt degli.
Framtíðartré
Degliviður er mjög eftirsóttur þegar krafist er stöðugs efniviðar sem haggast lítið við hita- og rakabreytingar, svo sem í gluggasmíði. Stór deglitré gefa mikinn kvistalausan við sem er mjög verðmætur. Á meginlandi Evrópu er litið til deglis sem framtíðartegundar í skógrækt, ekki síst eftir því sem loftslagsröskun sverfur að. Tegundin er hins vegar viðkvæm í æsku, bæði fyrir næðingi og haustfrostum. Hana verður því að rækta upp í skjóli eldri trjáa. Af því að degli getur nýtt sér samlífi við sömu svepprótartegundir og lerki getur verið mjög álitlegur kostur fyrir okkur að rækta það undir eldri lerkitrjám þar sem það getur notið bæði skjóls og frjósemi. Vel má sjá fyrir sér að á komandi árum verði degli víða látið taka við af lerki í íslenskum skógum, sérstaklega í innsveitum. Lerkireitir með illa aðlöguðum lerkikvæmum verða e.t.v. best nýttir með því að láta þá fóstra deglitré í uppvexti. Lerkitrén víkja þá í fyllingu tímans þegar deglið hefur harðnað og getur bjargað sér á eigin spýtur. Degli gæti þannig komið að góðu gagni á Íslandi við auka fjölbreytni og þar með mótstöðuafl skóganna, ekki síður en á meginlandi Evrópu.
Degli er falleg trjátegund og gefur mjög verðmætt timbur en hentar líka mjög vel sem jólatré.