Dulinn doði er algengt vandamál
Höfundur: Snorri Sigurðsson, snsig@arlafoods.com
Doði er líklega einn þekktasti sjúkdómurinn sem kýr fá, fyrir utan júgurbólgu, og er tíðni hans um það bil 5%. Tíðnin hækkar venjulega með aukinni nyt og aukinni tíðni mjaltaskeiða en kýr á fyrsta mjaltaskeiði fá sjaldan þennan sjúkdóm þar sem þær mjólka minna og líkami þeirra er betur fær um að takast á við breyttar aðstæður en líkamar eldri kúa.
Bandarísk rannsókn á Holstein kúm bendir til þess að tíðni sýnilegs doða sé 1% hjá kúm á fyrsta mjaltaskeiði, 4% hjá kúm á öðru mjaltaskeiði, 7% hjá kúm á þriðja mjaltaskeiði og 10% hjá kúm á fjórða mjaltaskeiði. Dulinn doði er aftur á móti minna þekktur sjúkdómur en einföld þumalputtaregla segir að fyrir hvert sýnilegt tilfelli af doða séu jafnvel allt að því 10 önnur sem eru dulin og með öðrum orðum þá séu flestar eldri kýrnar að takast á við þetta vandamál með einum eða öðrum hætti.
Toppurinn á vandamálinu
Skömmu fyrir burð fara 8-10 g/dag af kalki frá kúnni yfir í kálfinn og þegar hún ber flyst mikið af kalki frá henni yfir í broddinn og síðar mjólkina. Þessi mikla þörf líkamans til að skilja út kalk er allt að því 10 sinnum meiri en líkaminn þarf til viðhalds án mjólkurframleiðslu. Þessi mikla breyting á kalkþörf líkamans á einungis örfáum dögum gerir það að verkum að efnaskipti kýrinnar þurfa að aðlagast hratt breyttum aðstæðum til þess að styðja við aukna þörf fyrir kalk. Ef það gerist ekki nógu fljótt, eða af nægilegri stærðargráðu, getur styrkur kalks í blóði kýrinnar lækkað og farið undir krítísk viðmiðunarmörk og það getur leitt til sýnilegs doða en oft ná einkennin ekki að verða sýnileg. Það má því segja að hvert sýnilegt tilfelli sé aðeins toppurinn á vandamálinu. Þetta sýna niðurstöður bandarískrar rannsóknar sem einnig sýna að fóðrun síðustu vikurnar fyrir burð hafi mikil áhrif á fjölda kúa sem fái doða, bæði klínísk og dulin einkenni.
Dulinn doði
Rannsóknir benda til þess að dulinn doði geti verið í beinu sambandi við aðra efnaskiptasjúkdóma og geti verið aðal- eða afleidd orsök slakra afurða. Kýr með dulinn doða sýna ekki hefðbundin einkenni en hafa lágan styrk kalks í blóði, venjulega innan sólarhrings eftir burð. Þetta þýðir að eina leiðin til að vita hvort kýr eru að upplifa dulinn doða er að greina styrk kalks í blóði þeirra og þetta þarf að gera á fyrstu 1-2 dögunum eftir burð.
Þegar verið er að meta hvort kýr er með dulinn doða, þ.e. sýnir ekki sýnileg einkenni, er erlendis miðað við að kalkstyrkurinn í blóði sé 8,0 mg/100 ml eða lægri. Hins vegar sýndi nýleg rannsókn í Bandaríkjunum að ef viðmiðið er hækkað í 8,5 mg/100 ml þá er mun líklegra að finna kýr sem þurfa á aðstoð að halda og í þessari rannsókn komust vísindamennirnir að því að á þessum skurðpunkti séu í raun 60% eldri kúa og um helmingur fyrsta kálfs kvígna að upplifa dulinn doða með einhverjum hætti.
Hlutverk kalks
Kalk er lífsnauðsynlegt fyrir líkamann og tengist m.a. stoðgrind, vöðva- og taugastarfsemi og lægsti styrkur kalks í blóði verður venjulega 12-24 klukkustundum eftir burð og fer venjulega aftur í eðlilegt horf hjá heilbrigðum kúm innan 2-3 daga eftir burð.
Styrkur kalks í blóði er stjórnað með frásogi kalks úr fæðunni og losun eða upptöku kalks úr beinum. Tvö skjaldkirtilshormón, þekkt sem PTH, stjórna þessum ferlum og þegar styrkur kalks lækkar í blóði hefur PTH áhrif á nýrun til að draga úr útskilnaði kalks í þvag. Þessi breyting gerir þó aðeins kleift að aðlagast litlum breytingum á styrk kalks í blóði og ef þörf er á meira magni af kalki hefur PTH áhrif á beinin og kalk er þá losað þaðan og yfir í blóðið.
Til þess að PTH sé seytt frá kirtlinum og til þess að það geti unnið með réttum hætti þarf að vera til staðar nægilegt magn af magnesíum auk þess sem blóðsýrustigið þarf að vera aðeins minna basískt en venjulega. Þessar kröfur hafa áhrif á nauðsyn þess að gefa kúm kórrétt fóður á réttum tíma svo kýrnar hafi rétt og gott aðgengi að öll nauðsynlegum næringarefnum þegar þær þurfa á þeim að halda.
Það eru til margar þekktar leiðir til þess að koma kalki í kýrnar.
Að hverju á að leita?
Skipta má doða í þrjú stig miðað við alvarleika:
Fyrsta stig
Fyrsta stig doða er það sem venjulega er talið vera dulið ástand sjúkdómsins. Þetta getur oft verið afar erfitt að greina vegna þess að þetta stig stendur yfir í skamman tíma og einkennin geta verið breytileg. Þetta stig stendur yfirleitt í innan við klukkustund og meðal einkenna eru lystarleysi, taugaveiklun, riða og óeirð í afturfótum.
Annað stig
Annað stig doða varir venjulega allt frá 1-12 klukkustundum og sýnileg einkenni eru daufleiki til augna, köld eyru, skjálfti í vöðvum, óregla á göngu og óvirk melting. Líkamshiti kýrinnar gæti einnig lækkað.
Þriðja stig
Þriðja stigi doða er alvarlegast og nú getur kýrin ekki staðið upp og mun missa meðvitund sem svo leiðir til þess að hún fellur í dá. Hjartsláttur getur aukist hratt og gæti farið yfir 120 slög á mínútu. Venjulega lifa kýr í þriðja stigi, sem ekki fá meðhöndlun, ekki lengur en nokkrar klukkustundir.
Áhrif doða
Doði hefur áhrif á heilsu nýbæra og mjólkurframleiðslu þeirra í heildina tekið sem og frjósemi. Rannsóknir hafa sýnt að ónæmisstarfsemin er einnig í hættu hjá kúm með lága kalkþéttni í blóði og ef það á sér stað á fyrsta degi eftir burð er líklegra að kýrin fái vinstrarsnúning, súrdoða, alvarlegar sýkingar vegna fastra hilda eða jafnvel júgurbólgu. Kýr í of miklum holdum eru líklegri til að fá doða.
Forvarnir
Forvarnir gegn lágum styrk kalks í blóði við burð er mikilvægur þáttur þegar hugað er að meðhöndlun kúa á þessu mikla umbreytingaskeiði þ.e. þegar kýr fara úr því að vera í geldstöðu og yfir í að hefja mjólkurframleiðslu á ný. Öll kúabú ættu að hafa áætlun um það hvernig staðið skuli að meðferð kúnna á þessu tímabili svo þær nái sem bestri heilsu eftir burðinn og haldi góðri frjó- og afurðasemi. Eins og er með alla efnaskiptasjúkdóma þá eru réttar forvarnir lykillinn að góðum árangri og almennt gerist það með því að gefa þeim rétt fóður síðustu þrjár vikurnar fyrir burð.
Með því að gefa kúnni rétt samansett fóður getur líkaminn best búið sig undir það sem koma skal og tekist á við stóraukna þörf fyrir afsetningu kalks samhliða brodd- og mjólkurframleiðslu:
1. Fóður með lágu kalkinnihaldi
Þrátt fyrir að þessi aðferð geti dregið úr doðatilfellum þá getur það verið vandkvæðum bundið að framkvæma þetta í raun á kúabúum. Til þess að vel eigi að vera þarf að gefa fóður sem inniheldur minna en 20 grömm af nýtanlegu kalki á dag en miðað er við að fengin kýr af stóru kyni þurfi um 30 grömm á dag af nýtanlegu kalki og með því að gefa henni minna er líkaminn því vaninn við að draga kalk úr beinum. Oftar en ekki er þó kalkrýrt fóður almennt séð ekki af góðum gæðum og því hefur það áhrif á átgæði, eitthvað sem ekki ber að stefna að síðustu vikurnar fyrir burð.
2. Fóður með lágu kalíinnihaldi
Með því að gefa fóður sem er lágt í kalí er hægt að draga úr líkum á því að fá sýnileg doðatilfelli en dregur ekki úr líkum á duldum doða. Kalí er katjón líkt og natríum, kalk og magnesíum en efni sem eru katjónar hafa jákvæða hleðslu. Katjónar í fóðri kúa stuðla að hærra sýrustigi blóðsins og geta þar með valdið doða hjá kúm. Anjónir hafa hins vegar neikvæða hleðslu og dæmi um anjónir er klór, bennisteinn og fosfór. Anjónir stuðla að súrara efnaskiptaástandi og lægra sýrustigi blóðsins og draga því úr líkum á doða. Líkami kúnna aðlagast að lægra sýrustigi blóðsins með því að jafna út sýrustigið með því að losa kalk úr beinunum fyrir tilstuðlan PTH vakans. Með því að virkja þann feril hjálpar það kúnni að takast á við hina miklu kalkþörf sem myndast þegar mjólkurmyndunin hefst.
Með því að gefa fóður sem er lágt í kalí verða s.s. breytingar á hlutfallinu á milli á katjóna og anjóna í fóðrinu, kallað DCAD á ensku, en þær breytingar verða ólíklega nægar til að geta valdið nægilegri breytingu á sýrustigi blóðsins. Það er reyndar hægt að ná þessum áhrifum með því að gefa kúnum jafnframt fóður sem inniheldur aukið magn af klór og brennisteini en því jafnvægi er ekki auðvelt að stýra.
3. Fóður með anjónískum söltum
Sýnt hefur verið fram á að með því að gefa kúm fóður, sem er með neikvætt DCAD, síðustu þrjár vikurnar fyrir burð þá dregur það verulega úr líkunum á því að kýrnar fáí sýnileg doðatilfelli sem og dulinn doða. Eigi að takast vel til á fóðrið að vera þannig sett saman að DCAD sé -10 til -15 mEq/100g þurrefnis fóðursins en eigi það að nást þarf að nota rétta anjóníska steinefnablöndu og til að koma þessu í kýrnar í réttu hlutfalli er farsælast að gefa þeim heilfóður. Anjónísk sölt eru venjulega gefin í 21 sólarhring fyrir burð og ekki er mælt með því að þau séu gefin allt geldstöðutímabilið. Þegar fóðuráætlun er gerð fyrir þennan hóp kúa, þ.e. undir lok geldstöðunnar, ætti að halda magni kalíums og natríums í lágmarki. Fóðrið ætti að innihalda um 1,0% af kalki og 0,35% af magnesíum til að koma í veg fyrir doða. Styrkur fosfórs í fóðrinu ætti að vera 0,25% til 0,30% vegna þess að umfram fosfór, þ.e. 0,40% eða hærri, eykur hættuna á doða.
Varðandi sérstakt fóður fyrir kvígur síðustu vikurnar fyrir burð er vafasamt að þessi aðferð með aníónísk sölt skili tilætluðum árangri þar sem þeim rannsóknum sem liggja fyrir um ágæti slíks fóðurs fyrir kvígur ber ekki saman og sýna mikinn breytileika.
4. Kalk eftir burð
Kalk sem gefið er kúnum strax eftir burð og ekki sem hluti af venjulegu fóðri hefur gefið góðan árangur til þess að koma í veg fyrir of mikla lækkun á styrki kalks í blóði kúa. Mörg af þeim fæðubótarefnum sem eru á markaðinum og eru sérstaklega framleitt í þessum tilgangi eru tekin upp í meltingarveginum innan 30 mínútna eftir gjöfina og styrkur kalks í blóði kúnna ætti að hækka í 4-6 klukkustundir. Þessi efni koma oft í formi kalkklóríðs og gefin sem þykkni eða hlaup. Hafa þarf varann á þegar kúm er gefið kalk-klóríð þar sem efnið getu valdið öndunarerfiðleikum ef það er ranglega sett í kýrnar.
Hvernig á að mæla DCAD?
Einfaldast er að nota sýrustig þvagsins sem vísbendingu um það hvort DCAD stjórnunin á fóðri geldkúnna sé rétt. Sýrustig þvagsins gefur þó ekki beint til kynna hvort minni líkur séu á því að kýrnar fái doða. Þegar sýrustigið er mælt skal það tekið úr miðri bunu innan 48 klukkustunda eftir að kýrnar hafa fengið fóður sem inniheldur anjónískt salt. Hjá Holstein-kúm er mælt með því að sýrustigið eiga að vera á milli 6,2 og 6,8 og að minnsta kosti lægra en 7,0. Ef meðaltal sýrustigs þvagsins er miklu lægra er verið að gefa of mikið af anjónum og þá þarf að endurskoða fóðurskipulagið svo það dragi ekki um of úr þurrefnisáti kúnna.
Meðhöndlun
Eins og hér að framan segir er forvörnin besta ráðið gegn doða en ef hún er komin með sýnileg doðaeinkenni, en ekki lögst, er mælt með því að hella í hana þar til gerðu meltanlegu kalki eða með því að gefa henni kalkforðastaut. Kostir þess að gefa kalkið með þessum hætti eru að þá sér meltingarvegurinn um að soga til sín kalkið jafnt og þétt yfir lengri tíma.
Ef kýrin er lögst ætti alltaf að kalla til dýralækni en áhrifaríkasta leiðin til að snúa þessu ferli við er að gefa kalk í æð. Margir dýralæknar gefa þeim einnig glúkósa. Þó að þessi meðferð sé nauðsynleg í neyðartilvikum, getur of mikil kalkgjöf í æð á stuttum tíma valdið hjartaáfalli og auk þess falla áhrifin hratt og því þarf að mæta því með því að gefa kúnni fóðurkalk úr túpu eða sambærilegum hætti nokkrum klukkustundum eftir meðferð dýralæknis og að sjálfsögðu í samráði við dýralækninn.