Er frumutalan of há?
Höfundur: Snorri Sigurðsson sns@seges.dk Sviðsstjóri hjá SEGES P/S Danmörku
Júgurbólga í mjólkurkúm er langalgengasti sjúkdómurinn í mjólkurframleiðslunni og veldur bændum miklum búsifjum bæði vegna kostnaðar við meðhöndlun, afurðataps og fleiri þátta.
Margar rannsóknir hafa verið gerðar víða um heim á kostnaðarþáttum sem tengjast júgurbólgu og má ætla að árlegt tap bænda vegna sjúkdómsins sé að jafnaði í kringum 10% af verðmætum mjólkurfram-leiðslunnar. Þetta getur þó verið æði misjafnt á milli búa og víða má ætla að þetta tap sé langtum meira.
Frumutala mjólkur
Frumutala mjólkur er líklega algengasti mælikvarði á júgurheilbrigðisástand kúabúa í dag enda mælir frumutalan fjölda þekjufruma og hvítra blóðkorna í mjólk. Hvítum blóðkornum fjölgar verulega þegar bólga eða bólgubreytingar í júgurvef verða af völdum sýkla.
Þessi aðferð við gæðaeftirlit mjólkur hefur verið notuð í rúma hálfa öld og eru flest lönd með viðmið um heimilaðan hámarks-fjölda af frumum í hverjum millilítra mjólkur, eigi að nýta hana til manneldis.
Í Evrópu á þriggja mánaða faldmeðaltal frumutölu tankmjólkur að vera lægra en 400 þúsund/ml en margar afurðastöðvar hafa mun lægra viðmið fyrir úrvalsmjólk líkt og þekkist hér á landi, þar sem einn af grundvöllum úrvalsmjólkurgreiðslu er að faldmeðaltal frumutölu fjögurra mælinga innan mánaðar sé 200 þúsund/ml eða lægra.
Þó svo að margar afurðastöðvar miði einmitt við 200 þúsund/ml fyrir úrvalsmjólkurálag þá eru nokkrar sem greiða enn betur fyrir enn frumulægri mjólk. Þannig greiðir t.d. ein dönsk afurðastöð, Them Ost, úrvalsmjólkurálag niður í 100 þúsund frumur/ml. Them Ost, sem er sérhæfð afurðastöð í ostavinnslu, borgar aukið álag í 100 þrepum frá 200 þúsund frumum/ml niður í 100 þúsund frumur/ml. Þannig fá innleggjendur betur og betur greitt fyrir mjólkina eftir því sem frumutalan verður lægri.
Þetta hefur gert það að verkum að innlögð mjólk til afurðastöðvarinnar hefur tekið miklum breytingum og fyrir vikið hefur hráefnið sem unnið er með batnað til muna, svo mikið að hægt hefur verið að breyta vinnslunni og fá enn meiri arðsemi með mjólkurvinnslunni. Framlegðar-aukningin hefur með öðrum orðum greitt fyrir úrvalsmjólkurálagið.
Hvað er há frumutala tankmjólkur?
Undanfarna áratugi hefur þekking á frumutölu mjólkur og sýkingum í júgurvef tekið miklum framförum. Má nefna sem dæmi að fyrir um aldarfjórðungi var oft miðað við að væri frumutala einstaks júgurhluta hærri en 300 þúsund, þá væri um júgurbólgu að ræða. Í dag miða flest lönd við helmingi lægra viðmið þ.e. mælist kýrsýni með meira en 150 þúsund frumur/ml þá sé kýrin með sýkingu.
Sé frumutala einstakra kúa hærri hafa rannsóknir sýnt að það dregur úr afurðaseminni að jafnaði auk þess sem t.d. dönsk rannsókn frá þessu ári sýndi að þau bú sem eru með lægri frumutölu hafa að jafnaði betri afkomu en þau sem hærri eru.
Líkleg skýring felst í mun lægri tíðni á dulinni júgurbólgu en það er júgurbólgutilfelli sem ekki valda sýnilegum einkennum júgurbólgu.
Af þessu leiðir að sé tankmeðaltalið hærra en 150 þúsund/ml þá ætti að leita leiða til þess að ná tökum á ástandinu, og það er alltaf hægt!
Hvað er til ráða?
Sé frumutala tankmjólkur hærri en 150 þúsund/ml þarf að skoða kýrsýnin vel og skálaprófa allar frumuháar kýr til þess að komast að því hvort tilfallandi hækkun hafi orðið á kýrsýnatökudegi eða hvort um raunverulega sýkingu er að ræða. Þá þarf alltaf að meta aðstæðurnar enda getur frumutala hækkað eftir því sem líður á mjaltaskeiðið auk þess sem frumutala hækkar með hækkandi aldri kúa svo dæmi sé tekið.
Svari skálaprófið mælum við alltaf með því að erfðaefnisgreina kýrsýnin (PCR greina) enda þarf að vita nákvæmlega hvaða sýkill er að valda vandræðum í hverju tilfelli fyrir sig, enda eru viðbrögðin afar ólík eftir því hvaða sýklar eru að herja á kýrnar hverju sinni og eiga bændur alltaf að ráðfæra sig við sína dýralækna og mjólkurgæðaráðgjafa um hvernig eigi að bregðast við.
Gróflega má flokka sýklana þannig að sé Staphylococcus aureus að valda vandræðum, er ástæðan oft vanstilling eða röng uppsetning mjaltatækja/mjaltaþjóna eða röng vinnubrögð við mjaltir/umhirðu mjaltaþjónanna.
Sé Streptococcus uberis að valda vanda, eru kýrnar oftast of óhreinar og þarf þá oft að gera átak í bættum vinnubrögðum á búinu.
Rétt er að taka fram að þegar sýkingarvandinn á rætur sínar að rekja í umhverfi kúnna er lausnin ekki að bera sótthreinsandi efni í tíma og ótíma á legusvæði kúnna. Skítur er og verður skítur þó svo að það sé búið að hella yfir hann sótthreinsandi efni. Skít þarf að hreinsa frá kúm oft á dag og halda honum frá kúnum!
Sé E. coli að valda vanda er oft um samspilsþætti að ræða; oft skítugt legusvæði kúnna ásamt neikvæðu orkujafnvægi sem gerir ónæmiskerfi kúnna erfitt fyrir.
Ef Klebsiella er vandamálið er reynsla okkar í Danmörku sú að oftast megi finna skýringuna í menguðu sagi eða spæni. Ef um kóagúlasa neikvæða stafylokokka er að ræða er oft um allt of hátt hlutfall af dulinni júgurbólgu að ræða í hjörðinni og er þá oftast horft til þess að meðhöndla í geldstöðunni (sjá síðar).
Þó svo að alltaf sé mælt með því að gera sérstaka aðgerðaráætlun fyrir hvert bú, byggt á erfðaefnis-greiningu á sýklum í mjólk, má heilt yfir gefa hér nokkur almenn ráð:
1. Yfirfara mjaltatækin og vinnubrögð við mjaltir
Reglubundið viðhald mjaltatækjanna er afar mikilvægt en við sjáum allt of oft ranglega stillt mjaltatæki og/eða bilaða tækni sem veldur skaða við mjaltir.
Í Danmörku eru óháðir ráðgjafar sem starfa m.a. við það að gera úttektir á mjaltatækjum og mjaltaþjónum og þrátt fyrir þjónustusamninga sem bændur gera oft við fyrirtækin sem selja mjaltatækin þá finnast eiginlega ótrúlega oft bilanir eða rangar stillingar.
Vísbendingar um rangar stillingar geta verið t.d. ef hefta þarf kýr fyrir mjaltir en við miðum almennt við að ef fleiri en 1–2 kýr af hverjum 100 mjólkandi spraka af sér tækjunum, þá sé eitthvað að. Þetta sést einnig á búum með mjaltaþjóna sé hlutfall ólokinna mjalta of hátt.
Hefting kúa fyrir mjaltir er oft afleiðing rangrar virkni mjaltatækninnar eða rangra vinnubragða við mjaltir, en getur vissulega átt sér stoð í geðstirð sumra íslenskra kúa.
Algengustu tæknilegu mistökin sem við finnum, bæði á hefðbundnum kerfum og mjaltaþjónum, eru sogskiptar sem ganga ekki í takt eða hafa rangt sogskiptihlutfall, óhreinindi í soglögnum sem heftir hreyfingu lofts og þar með veldur vanstillingu og óþéttir mjaltakrossar sem gerir það að verkum að þegar tækin eru tekin af þá fellur sogið allt of hratt.
Önnur algeng mistök sem finnast eru ranglega staðsettar mjólkurlagnir og/eða rangur halli á mjólkurrörum, of litlar sogvélar miðað við þarfir kerfanna, vanstillir sogjafnar, lélegt viðhald frátökufötu og ranglega stilltir aftakarar.
Varðandi vinnubrögð við mjaltir er erfitt að gefa upp eina staðlaða mynd en líklega eru algengustu mistökin þau að kýrnar eru ekki undirbúnar rétt fyrir mjaltir og selja því ekki nógu vel. Mjaltatíminn eykst og líkur á tómmjöltum einstakra júgurhluta aukast. Þá á alltaf að passa upp á hreinlæti við mjaltirnar og forðast að bera möguleg smitefni á milli kúnna, annað hvort með höndum, ermum eða mjaltatækjunum sjálfum.
Reglubundin þrif þegar á mjöltum stendur er eðlilegur vinnuliður við mjaltir og sé mjólkað með mjaltaþjóni þarf að þrífa arm hans nokkrum sinnum á dag eigi vel að vera.
2. Þrífa spena með sápu og sótthreinsa
Það kemur engum á óvart að óhreinindi og sýkingar haldast verulega mikið í hendur og þar sem líklega rúmlega 99% júgurbólgusýkinga eiga sér stað í gegnum spenaendann, er afar mikilvægt að hugsa um smitvarnir við hann. Af þessum sökum á og þarf að halda mjólkurkúm eins hreinum og mögulegt er og ætti hlutfall af skítugum spenum fyrir mjaltir að vera í lágmarki á hverjum tíma.
Í Danmörku ráðleggjum við í dag að nota þar til gerð spenaþvottaefni, oft borið á spena með froðu-hylkjum, fyrir mjaltir en þessi efni bæði gera það að verkum að auðveldara er að þrífa spenana en einnig draga þau verulega úr fjölda sýkla í nánd við spenaendann.
Eftir mjaltir mælum við alltaf með notkun á spenadýfu en ekki spenaspreyi. Spenadýfan er oftast þykkari, loðir betur við spenann og ver betur hinn viðkvæma spenaenda fyrir innrás sýkla.
Varðandi val á spenadýfu er ágætis þumalfingursregla að nota spenadýfu sem inniheldur gott virkt joð sé tankfrumutalan hærri en 150 þúsund/ml en sé hún lægri má skoða aðrar gerðir s.s. þær sem byggja á mjólkursýrugerlum eða tveggja þátta dýfur. Þetta þarf þó alltaf að skoða og meta miðað við þá sýkla sem verið er að slást við hverju sinni. Þetta ætti dýralæknir búsins að geta aðstoðað við að velja.
Áhugasömum um þetta efni má benda á grein í 20. tbl. Bændablaðsins árið 2012 sem fjallar nánar um þetta.
3. Bregðast hratt við sýnilegum sýkingum
Ef upp kemur sýking þarf að bregðast hratt við og meðhöndla kúna. Allt of margir láta hjá líða að setja kýr sem eru með sýnilega júgurbólgu í einangrun en þessar kýr geta hæglega smitað aðrar kýr. Takið því alltaf frá kú sem er með sýkingu og hafið í sér aðstöðu þar til meðhöndlun er hafin og hefur náð árangri. Eftir það ætti að vera óhætt að setja hana samanvið á ný. Á stærri kúabúum hafa margir það viðmið að flokka kýrnar í frumutöluhópa og þær sem eru mjög háar eru allar hafðar saman og geta þá ekki valdið skaða utan hópsins.
4. Meðhöndla kýr í geldstöðunni
Að hlúa vel að geldkúnum er eitt brýnasta starf kúabænda nú til dags en tilgangur geldstöðunnar er að gefa kúnum frí svo líkaminn geti aðlagað framleiðsluaðstæðurnar að komandi mjaltaskeiði.
Þegar þetta tímabil í lífi kýrinnar gengur í garð er hún hins vegar viðkvæm fyrir árásum baktería sem þó valda sjaldan klínískum einkennum júgurbólgu á geldstöðunni heldur duldum einkennum. Því bera kýr of oft með háa frumutölu og geta fengið klínísk einkenni í kjölfarið. Þá hefur það sýnt sig að meðhöndlun krónískra tilfella dulinnar júgurbólgu hefur best áhrif fari hún fram í geldstöðunni.
Reynslan sýnir að sé júgurbólgutilfelli meðhöndlað í geldstöðu og einnig notað spenakítti þá eru líkurnar á því að kýrin nái fullri heilsu >85%. Skýringin felst í fjórum þáttum: 1) notuð eru langvirk-andi lyf sem hafa >30 daga útskolunartíma, 2) vegna þess að kýrin er ekki mjólkuð eru lyfin ekki „fjarlægð“, 3) lyfin eru hönnuð til þess að leysast hægt upp en að vinna á bakteríum af öryggi og 4) þar sem mjólk er ekki til staðar er næring bakteríanna í lágmarki.
5. Taka út krónískar kýr
Síðasta almenna ráðið er að senda þær kýr í sláturhús sem hafa fengið sýkingar oft. Þetta eru og verða allt of dýrar kýr í rekstri.
Snorri Sigurðsson
sns@seges.dk
Sviðsstjóri hjá SEGES P/S
Danmörku