Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 mánaða.
Blómlegar sveitir í nágrenni Bled.
Blómlegar sveitir í nágrenni Bled.
Mynd / Aðsend
Á faglegum nótum 26. júlí 2024

Frá ráðstefnu ICAR – 2. hluti

Höfundur: Guðmundur Jóhannesson, ábyrgðarmaður í nautgriparækt.

Árleg ráðstefna og aðalfundur ICAR (International Committee for Animal Recording) voru haldin í Bled í Slóveníu dagana 19.–24. maí sl.

Guðmundur Jóhannesson.

Þessi samtök eru á heimsvísu og láta sig varða allt sem viðkemur skýrsluhaldi og skráningum búfjár og má þar nefna staðla fyrir skýrsluhald og rafræn samskipti, arfgreiningar, efnamælingar á mjólk, sæðisgæði og svo mætti áfram telja. Alls eru fyrirtæki og samtök frá 55 löndum aðilar að ICAR nú og fer stöðugt fjölgandi.

Í öðrum hluta frásagnar minnar af ráðstefnu ICAR í Bled beini ég sjónum að öðrum degi hennar en sem var í raun fyrsti hluti ICAR-ráðstefnunnar. Dagurinn hófst með allsherjarfundi og síðan sameiginlegum opnum fundi ICAR og Interbull. Upphafserindin fjölluðu um sjálfbæra ræktun og hvað það þýðir í raun og veru, nýja staðla og prófanir á sæðisgæðum þar sem ICAR mun senda staðalsýni milli nautstöðva til stillingar á þeim búnaði sem metur sæðisgæði og svo ungmennskiptaáætlun ICAR (Brian Wickham Young Persons Exchange Program). Þrjár ungar vísindakonur fóru þar yfir reynslu sína af áætluninni og hversu mikils virði hún er fyrir ungt fólk innan greinarinnar.

Sameiginlegur fundur ICAR og Interbull beindi sjónum að stóraukinni notkun holdasæðis á mjólkurkýr í kjölfar aukningar í notum kyngreinds sæðis. Í upphafi fór Jo Newton frá Ástralíu yfir hversu mikil aukningin hefur verið um heim allan út frá tölum um bæði sæðissölu og sæðingar. Sem dæmi þá er notkun holdasæðis á mjólkurkýr í Bretlandi að nálgast 50%, kyngreinds sæðis um 40% og hefðbundið sæði því aðeins notað í um 10% tilvika. Svo öra þróun er að vísu ekki að sjá neins staðar annars staðar í heiminum en alls staðar er þróunin á þá vegu, eigi að síður. Vandamálið sem greinin stendur frammi fyrir er hins vegar hvernig á að safna og meðhöndla gögn um þá gripi sem fæðast og eru þá holdablendingar. Í dag eru kynbótakerfi heimsins þróuð fyrir annað hvort hreinræktaðar mjólkurkýr eða holdagripi, ekki blendinga. Ákveðinna viðbragða er því þörf og fyrstu skrefin hljóta alltaf að vera þau að safna gögnum. Án þeirra er lítið hægt að gera.

Næsta erindi var frá Danmörku en þar fór Kevin Byskov yfir reynslu Dana af söfnun gagna um át og metanlosun holdablendinga með það að markmiði að framleiða gripi með betri fóðurnýtingu og minni metanlosun án þess að úr kjötgæðum dragi. Gerðar voru mælingar á 7.500 dönskum bláum- (danskir Belgian Blue-gripir), 2.500 Angus- og 2.000 Charolais-blendingum þar sem mælt var át og metanlosun með þefurum (sniffers). Tilraunin er enn í gangi en meðal fyrstu niðurstaðna er að afkvæmi 10 bestu bláu dönskunautanna éta um 0,5 kg eða um 8% minna fóður á dag en vaxa jafnmikið og afkvæmi þeirra 10 lökustu. Það bendir því allt til þess að samhliða hefðbundnum kynbótum fyrir fóðurnýtingu, vexti og kjötgæðum megi kynbæta fyrir minni metanlosun í nautakjötsframleiðslu.

Brian Van Doormaal frá Kanada fór yfir hvernig Lactanet í Kanada hefur byrjað að aðstoða bændur við val á holdanautum á mjólkurkýr með notkun erfðamats. Í því skyni hefur Lactanet tekið upp samstarf við Angus Genetics í Bandaríkjunum og í stað þess að nota eigin gögn leggur Angus Genetics til gögn sem eru umreiknuð í erfðamat fyrir Lactanet þannig að bændur geta valið holdanaut m.t.t. eiginleika eins og gangs burðar, fæðingarþunga, vaxtarhraða, kjötgæða og fóðurnýtingar. Í Kanada hefur, eins og annars staðar, notkun holdasæðis á mjólkurkýr stóraukist á undanförnum árum og nemur orðið nærri 40% í Ayrshire-kúm, nærri 30% í Holstein og 25% í Jersey. Notkun holdasæðis í Kanada er að miklu leyti bundin við Angus en yfir 75% alls holdasæðis þar er Angus-sæði.

Ross Evans frá ICBF í Írlandi sagði frá stöðu mála þarlendis. Á sl. ári urðu þau tímamót að fjöldi kálfa undan holdanautum varð meiri en undan nautum af mjólkurkúakynjum. Notkun hefðbundins sæðis hefur dregist saman, notkun holdasæðis aukist gríðarlega og kyngreint sæði er nú notað í yfir 10% tilvika og eykst hratt. Yfir 60% alls nautakjöts á Írlandi kemur frá mjólkurframleiðslunni. Írar hafa lengi haft kjötframleiðslueiginleika eins og vaxtarhraða og kjötgæði í sinni heildareinkunn enda er írsk nautgriparækt í mörgu frábrugðin því sem gerist annars staðar í Evrópu. Framleiðslan byggir að miklu leyti á beit og útflutningur er ráðandi. Írsk nautgriparækt er því kannski skyldari nýsjálenskri en evrópskri nautgriparækt. Írskir kúabændur kjósa, eins og aðrir, naut sem gefa miklar mjólkurkýr og eru frjósamar sem fer ekki að öllu leyti saman við framleiðslu nautakjöts. Til þess að hjálpa bændum við val á holdanautum á mjólkurkýr hafa Írar því sett saman nýja einkunn, Dairy Beef Index, mjólkur- og kjöteinkunn. Þar er lögð áhersla á léttan burð, kjötgæði og kolefnisspor. Þeir eiginleikar sem vega mest í einkunninni eru fallþungi, burðarerfiðleikar, át og aldur við slátrun. Samhliða þessu er gögnum safnað um blendingana til þess að þróa enn frekar og bæta erfðamat gripanna auk þess sem áhersla er lögð á að nýta öll gögn fyrir meira en einungis að auka erfðaframfarir.

Martino Cassandro frá Ítalíu greindi frá aðstæðum ítalskra kúabænda. Þar kom fram að Ítalir framleiða rétt rúman helming (52%) sinnar nautakjötsneyslu innanlands og ítalskir bændur flytja inn tvo þriðju allra gripa til nautakjötsframleiðslu, þ.e. þeir kaupa kálfa til eldis erlendis frá. Martino sagði að notkun annarra kynja á Holstein-kýr á Ítalíu væri vaxandi og næmi nú yfir 20%, þar af væri 95% holdasæði. Notkun holdasæðis á Holstein-kýr hefur verið á þann veg að Belgian Blue er yfirgnæfandi, notkun Limousine og Piemontese hefur minnkað mikið en notkun Angus fer vaxandi. Eins og annars staðar fer notkun kyngreinds sæðis vaxandi, nam 23% á síðasta en eykst um 1,6% á ári þannig að hún verður orðinn þriðjungur innan áratugar ef svo heldur fram sem horfir. Ástæðan er hin sama og hjá öðrum, blendingskálfar eru verðmætari til kjötframleiðslu en hreinræktaðir kálfar af mjólkurkúakyni. Martino tiltók að hreinræktaður Holstein- nautkálfur skilaði bónda um 145 evrur meðan að Holstein/Belgian Blue- blendingur skilar um 406 evrum. Það vakti athygli mína að þeim búum sem nota kyngreint sæði fjölgar ekki og notkunin fer vaxandi með aldri kúnna, þ.e. hærra hlutfall kúa á t.d. 5. mjaltaskeiði eru sætt með kyngreindu sæði en á 2. mjaltaskeiði. Ítalir hafa þróað reiknilíkan fyrir bændur til þess að velja holdanaut á mjólkurkýr sem tekur m.a. tillit til burðarerfiðleika, kálfadauða og verðmætis. Þannig geta bænda skoðað hvaða naut er hagstæðast að nota hverju sinni með hliðsjón af því t.d. líkum á hvort kálfurinn lifir eða burðurinn verður erfiður. Ástæðan er einkum sú að reynt er að ýta undir aukna kjötframleiðslu innanlands en eins og áður sagði framleiða Ítalir ekki nema rétt rúmlega helming sinnar neyslu.

Randy Culbertson, prófessor við Háskólann í Iowa, sagði frá stöðunni í Bandaríkjunum (BNA). Þar dróst sala á hefðbundnu sæði saman um 30% frá 2017 til 2021 en á sama tíma jókst sala á holdasæði um 225%. Ástæðan er auðvitað aukin notkun holdasæðis á mjólkurkýr samfara aukinni notkun kyngreinds sæðis vegna þess að blendingskálfar skila hærra verði. Randy sagði ýmis vandamál fylgja blendingunum, alla vega við bandarískar aðstæður. Vöxturinn væri mun minni en hreinræktaðra holdagripa, breytileikinn væri meiri og skap og heilsufar væri lakara. Þetta væru atriði sem nautakjötsframleiðendur þyrftu að takast á við þar sem að mjólkurframleiðendur veldu holdanaut á mjólkurkýrnar eftir þáttum eins og sæðisverði, fanghlutfalli og burðarerfiðleikum en horfa minna til kjötgæðaþátta. Hún fór einnig yfir að BNA horfa nú til uppbyggingar á erfðamati fyrir blendingsgripi en það sem vantaði væri svipfarsupplýsingar, þ.e. mælingar á blendingum. Breytileikinn væri til staðar og mikill munur milli kynja. Það væri því mikilvægt að bændur hefðu tól og tæki til þess að byggja valið á, tæki þar sem hægt væri að velja fyrir velferðarþáttum, eins og minni burðarerfiðleikum, á sama tíma og valið væri fyrir auknum vexti og meiri kjötgæðum.

Samandregið fjallaði þessi annar dagur ráðstefnunnar um mikilvægi sjálfbærni og alþjóðasamvinnu í nautgriparæktinni þar sem menn líta einkum til þess að deila reynslu, gögnum og fólki. Þá var umfjöllun um kyngreint sæði og samhliða aukna notkun holdasæðis umfangsmikil. Notkun holdasæðis á mjólkurkýr hefur vaxið hraðar en menn áttu von á og það skapar ákveðin vandamál í kynbótum og framleiðsluferlunum. Rætt var hvort þessi aukna holdasæðisnotkun hefði mögulega þau áhrif að úr erfðabreytileika innan mjólkurkúnna myndi draga og erfðaframfarir því minnka í kjölfarið. Mér sýnist að við getum dregið þann lærdóm af þessu að innleiðing kyngreinds sæðis er eitthvað sem við megum ekki hafa hömlu- og stjórnlausa, við verðum að leggja hlutina niður fyrir okkur og gera áætlun um skynsamlega notkun þess og holdasæðis samhliða.

Frá ráðstefnu ICAR í Bled í Slóveníu - Fyrri hluti
„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...