Góð ráð fyrir drykkjarkerið
Höfundur: Snorri Sigurðsson
Vatn er án vafa ódýrasta fóðrið sem hægt er að gefa nautgripum og því betri sem gæði þess eru, því meira drekka gripirnir, sem skilar sér m.a. í aukinni nyt mjólkurkúa og auknum vexti geldneyta.
Vegna þessa er mikilvægt að halda drykkjarkerum og drykkjarstöðum hreinum, svo vatnsgæðin spillist ekki og þau spillast oft hratt vegna þess að þegar gripirnir drekka berast fóðurleifar í vatnið frá munni og munnhárum. Þá kemur auðvitað fyrir að vatnið geti mengast af skít eða hlandi.
Þrif skipta miklu máli
Brynningarskálar haldast yfirleitt nokkuð vel hreinar og því er ekki mikil vinna við að þrífa þær ef á þarf að halda, vegna smæðar þeirra. Annað á við um drykkjarkerin. Þau eru oftast vatnsmikil og því þarf að tæma þau fyrst og þrífa svo vel. Á sumrin þarf að þrífa oftar en á veturna vegna þess að þegar hlýrra er í veðri eykst vöxtur þörunga og mögulega baktería einnig.
Eftirfarandi vinnulag er ráðlagt að viðhafa varðandi þrif á drykkjarkerum:
1. Tíðni
- Þrífa skal drykkjarker daglega yfir heitustu mánuðina
- Þrífa skal drykkjarkerin á 2ja til 3ja daga fresti á veturna
2. Verkfærin
- Best er að nota góðan og stífan bursta ásamt tusku
- Stundum gæti reynst nauðsynlegt að nota einnig hreinsiefni
3. Þrifin
- Fyrst á að tæma kerið
- Bursta síðan alla innfleti þess og sérstaklega í og kringum flotholtið sem stýrir vatnsflæðinu (oft undir loki)
- Leggja skal sérstaka áherslu á kverkar kersins því þar leynast oft óhreinindi
- Ef mikið er um þörungavöxt, eða grunur leikur á því að bakteríur hafi náð að fjölga sér í vatninu, gæti þurft að sótthreinsa kerið. Leita skal ráða hjá fagfólki varðandi val á sótthreinsiefnum sem nota má í þessum tilgangi
4. Gæðaeftirlit
- Einföld þumalputtaregla er að kerið skuli þrifið það vel að sá sem það gerir treysti sér til að drekka vatnið eftir þrifin.