Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Á faglegum nótum 6. maí 2016
Gróska lands hefur aukist og ástand batnað undanfarna tvo áratugi
Höfundur: Bjarni Maronsson
Haustið 2015 fór fram þriðja úttekt á mælistöðvum sem settar voru niður í hrossa- og sauðfjárhögum á láglendi og afréttum/almenningum á Norðurlandi og láglendi á Suðurlandi 1997–1998, en þær voru teknar út í annað sinn árið 2005.
Verkefnið er, svo vitað sé, hið eina þar sem kerfisbundið er fylgst með gróðri og ástandi beitilands hér á landi til langs tíma með föstum mælistöðvum.
Gróska hefur aukist
Niðurstöður úttektar 2015 sýna að yfir það heila tekið er ástand lands mun betra en það var þegar stöðvarnar voru settar niður fyrir tæpum 20 árum. Gróska lands hefur aukist, dregið úr rofi og beitarálagi bæði á láglendi og til heiða. Þessar breytingar komu þegar í ljós árið 2005, og úttekin 2015 staðfestir það einnig. Hins vegar sýnir hún að breytingar á gróðri og ástandi lands eru minni nú en á fyrra tímabili.
Líkleg skýring á þessu er veruleg loftslagshlýnun á landinu frá því um 1995 til 2005, en hægt hefur á henni síðustu ár. Fremur litlar breytingar hafa hins vegar orðið á fjölda hrossa og sauðfjár í landinu undanfarin 20 ár.
Við úttektina 2015 kom í ljós að á um helmingi stöðva var ástand lands óbreytt frá árinu 2005, á þriðjungi þeirra var það betra og á tæpum fimmtungi hafði ástand versnað. Af 97 stöðvum sem teknar voru út 2015 var ástand lands metið viðunandi (ágætt, gott, sæmilegt) á 81 stöð, en óviðunandi (slæmt, mjög slæmt, óbeitarhæft) á 16 stöðvum, samkvæmt beitarskala fyrir hrossahaga.
Þegar litið er til landshluta kom fram að í Eyjafirði og Skagafirði höfðu að meðaltali orðið minnstar breytingar á ástandi og grósku lands frá 2005 til 2015 og þar voru flest dæmi um að ástand hefði versnað milli úttekta. Í Húnavatnssýslum og á Suðurlandi komu hins vegar í ljós meiri breytingar milli úttekta og flestar í jákvæða átt. Vísbendingar um þetta má sjá í meðfylgjandi töflu er sýnir niðurstöður mælinga á grashæð (blaðhæð grasa og stara) eftir árum og landshlutum.
Skýrslur um einstakar stöðvar voru sendar landeigendum nú um miðjan apríl frá Landgræðslu ríkisins. Þessi þriðji áfangi verkefnisins var unninn í samstarfi Landgræðslunnar, Landbúnaðarháskóla Íslands og Náttúrufræðistofnunar Íslands af þeim Borgþór Magnússyni, Járngerði Grétarsdóttur, Sigþrúði Jónsdóttur og Bjarna Maronssyni.
Nánar má fræðast um niðurstöður úttektarinnar 2015 í erindi þeirra Borgþórs og Járngerðar á Hrafnaþingi frá 30. mars, sem er aðgengilegt á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands:
https://www.youtube.com/user/natturufraedistofnun.