Héraðssýning lambhrúta í Strandasýslu haustið 2017
Höfundur: Jón Viðar Jónmundsson
Á fögrum haustdegi þann 7. október blésu Strandamenn í fjórða skiptið til árlegra héraðssýninga á lambhrútum í sýslunni. Eins og áður þarf vegna sauðfjárveikivarna að hafa sýninguna tvískipta, sérstaka sýningu í hvoru hólfanna norðan og sunnan Bitrugirðingar.
Sýningastaðirnir voru þeir sömu og áður, sunnar girðingar að Bæ hjá Þorgerði og Gunnari en norðan girðingar á Heydalsá hjá Sigríði og Ragnari. Hin stórglæsilegu fjárhús á báðum stöðum skapa einkar góða sýningaraðstöðu. Dómstörfin á sýningunni annaðist ég með dyggri aðstoð Svanborgar Einarsdóttur en bæði teljum við okkur hafa einhverja eldri þekkingu á fjárrækt Strandamanna eftir fjölmargar lambaskoðunar- og fundarferðir til þeirra fyrr á árum þar sem oft var margt og mikið rætt um sauðfjárrækt á svæðinu.
Unga fólkið mætti til leiks með sína skrautgripi
Á síðasta ári tóku Strandamenn upp þá nýbreytni að sinna áhuga unga fólksins þó að í smáu væri. Unga fólkið mætti til leiks með sína skrautgripi, fagurlega litaðar gimbrar sem sumar hverja höfðu greinilega notið góðs atlætis eigenda áður. Þennan þátt endurtóku þeir og eiga hrós skilið fyrir. Þátttaka var með ágætum og litarskrúð hópsins mikið og gaman að sjá unga fólkið sýna þessa eftirlætisgripi sína. Viðurkenningu fyrir athyglisverðasta gripinn í þessum hópi hlaut Jónas Bjartur Samsonarson í Guðlaugsvík fyrir gullfallega mórauða gimbur.
83 lambhrútar í þrem sýningarflokkum
Lambhrútarnir, aðalsýningagripirnir, voru líkt og áður flokkaðir í þrjá hefðbundna sýningarflokka. Eins og áður á þessari sýningu voru kollóttu, hvítu hrútarnir flestir eða 40 samtals. Hyrndu, hvítu hrútarnir voru 24 og var það sá hópurinn sem taldi nokkru fleiri hrúta en haustið áður. Dökku og mislitu hrútarnir voru 19 að þessu sinni. Skipting á sýningarstaðina var þannig að 27 hrútar mættu að Bæ en 56 á Heydalsá.
Sýningarþátttakan var þannig samtals 83 gripir eða örfáum fleira en á síðasta ári. Þetta umfang sýningar er mjög hæfilegt fyrir samkomu sem þessa. Það vekur upp önnur atriði til umhugsunar. Þegar horft er yfir svæðið vitum við að alltof mörg bú á svæðinu eru ekki þátttakendur, bú þaðan sem bestu hrútlömbin á hverju hausti ættu fullt erindi á samkomu eins og þessa.
Lömbin vænni og glæsilegri en nokkru sinni
Önnur hlið er sú að í árferði eins og í ár þegar lömbin eru vænni og glæsilegri á svæðinu en nokkru sinni verður ekki rúm fyrir nema einstaka úrvalsgripi. Það verður líka að segja að var heildarsvipur þessarar sýningar. Öll lömbin sem til sýningar mættu voru úrvalsgóð ásetningslömb hvert og eitt. Fullyrða má að aldrei hefur áður komið saman slíkur hópur úrvalslamba og þarna var á einum stað hér á landi.
Sýningar með félagslega þýðingu
Gildi sýninga sem þessara þarf vert að ræða lengur. Þær eiga fyrst og fremst að hafa félagslega þýðingu þó að reynsla síðustu ári segi okkur líka að ótrúlegt hlutfalla topplambanna frá þessum sýningum er farið að enda æviferil sinn sem topphrútar sæðingastöðvanna nokkrum árum síðar. Það er gagn hverjum bónda að geta á þennan hátt séð bestu einstaklingana hverju sinni og borið þá saman við sitt eigin fé á hverjum tíma. Líka fást þar vísbendingar um hvar sterkustu einstaklinganna sé að leita eigi að huga að fjárkaupum.
Þrátt fyrir að framleiðsluumhverfi greinarannar hafi sjaldan verið erfiðara um langt árabil og stjórnmálegt moldrok ríkt í landinu þá var mæting búandliðs á svæðinu góð á sýninguna. Heldur minna var um aðkomumenn en stundum áður en þeir hefðu fleiri átt þarna verulegt erindi til að sjá það allra besta. Sjón er alltaf sögunni ríkari.
Mjög skipti í tvö horn eftir sýningastöðum um uppruna hrútanna með tilliti til hvort þeir væru tilkomnir við sæðingar eða ekki. Á sýningunni í Bæ munu 20 af 27 sýndum hrútum hafa verið þannig tilkomnir. Á Heydalsá voru aftur á móti aðeins 3 af 56 sýndum hrútum sem státuðu af slíku faðerni en sæðingar hafa sum ár lítt verið notaðar í nyrðra hólfinu og sjaldan víst minna en síðasta vetur. Það hef ég áður bent á að geti verið umhugsunarefni fyrir bændur á því svæði.
Mögulega meiri framfarir í syðra hólfinu
Áður er nefnt að heildarsvipur sýningarinnar var aldeilis frábær lömb. Ástæða er samt til að benda á að mögulega eru framfarir meiri í syðra hólfinu í augablikinu sem birtist m.a. í því að nú gerist það i fyrsta skipti að hrúta úr því hólfi má finna á meðal fimm bestu einstaklinganna í öllum sýningarflokkum.
Lambhrútur frá Miðdalsgröf fremstur dökku mislitu hrútanna
Rétt er þá að gera stutta grein fyrir bestu gripunum í hverjum sýningarflokki. Byrjum þar á dökku og mislitu hrútunum. Þar var skipað í efsta sæti ákaflega fallega flekkóttum, kollóttum lambhrúti frá Miðdalsgröf nr. 161. Þetta er mjög þroskamikill, ákaflega vel gerður og mjög vel vöðvafylltur hrútur með góða bollengd og frísklegur mjög. Sjálfur er hann fæddur þrílembingur en gekk sem tvílembingur. Móðir hans er ung en hefur til þessa verið frábær afurðaær. Að ætterni er hann mjög skemmtileg blanda úrvalseinstaklinga frá búunum á Heydalsá. Smáhömrum og Broddanesi.
Í þessum flokki féll annað sætið í hlut lambi nr. 96 frá Smáhömrum. Þessi hrútur var svartbotnóttur að lit og hyrndur. Hann er með afburðum vöðvaþykkur og vel gerður en ekki jafn bollangur og frísklegur og hrútlambið sem skipaði sér feti framar í þessum flokki. Þetta var eitt örfárra sæðingarlamba á Heydalsársýningunni en faðir hans er Bjartur 15-967. Hrúturinn sjálfur er tvævetlulamb en á móðurhliðina er að finna hópa þekktra hyrndra sæðingahrúta. Þriðji í þessum flokki kom síðan hrútur nr. 236 hjá Birni og Böddu á Melum í Árneshreppi. Þetta er mórauður og kollóttur hrútur, einkanlega bollangur, rýmisgóður með sterkt og breitt bak og ágæta vöðvafyllingu á mölum og í lærum. Faðir hrútsins er Móri 13-069 í Steinstúni, mikil afbragðakind sem nú dvelur í einangrunargirðingum sæðingastöðvanna. Móðir hans er fullorðin og mikil afurðaær undan Botna 09-555 í Bæ sem notaður hefur meira og lengur en flestir hrútar norður þar.
Hrútur nr. 163 á Heydalsá bar af meðal hyrndu hvítu lambanna
Meðal hyrndu lambanna, hvítu, þá var hrútur nr. 163 á Heydalsá bera af. Þetta er frábærlega samanrekinn holdakökkur og ótrúlega glæsilegt lamb. Faðir hans er Geymir 15-106 Smáhömrum/Heydalsá (mér er eignarhald ekki alveg ljóst) en það er ákaflega athyglisverður sonarsonur Hergils 08-870 sem athygli hlýtur að beinast að eftir þessa sýningu en móðir hans fullorðin afurðahít sem einnig mun eiga syni í öðrum landshlutum. Ættin virðist því gegnheil.
Í öru sæti var lamb 661 í Skálholtsvík en þetta er verulega fagurt lamb, bollangt og vel gert með þykka vöðva og allsstaðar þétt með holdum. Þessi glæsihrútur er sonarsonur Brakar 13-952 en ættin að öðru leyti uppljómuð af frægum stöðvar- og heimahrútum. Móðirin er mjög farsæl afurðaær sem urmull afkvæma hefur verið alin undan á langri ævi. Í þriðja sæti var lamb nr. 101 á Smáhömrum. Þetta er föngulegur hrútur hvar sem á er litið, bollangur og holdþéttur. Ekki skemmir ætternið. Hann er samfeðra efsta hrútnum í þessum flokki og móðir hans fullorðin afbragðsær bæði með frjósemi og mjólkurlagni.
Þess má geta að í þriðja ættlið er þá alla að finna Borða 08-838, Papa 04-964 og Bjart 05-536 í tvígang þannig að afbragsgerð er að finna hjá forfeðrum líka.
Kollóttu hrútarnir í gamla Bæjarhreppi voru miklu glæsilegri en áður
Kollóttu hrútarnir eru ætíð flestir og vekja mesta athugli. Ekki brást það að þessu sinni vegna þess að öflugri slíkan hóp hefur aldrei getið að líta en þessi lömb á sýningunni á Heydalsá, um leið og minnt er á að kollóttu hrútarnir í gamla Bæjarhreppi voru miklu glæsilegri en áður. Efsta sætið skipaði lamb 8 í Miðdalsgröf. Þessi hrútur er frábærlega glæsilegur að öllu leyti. Þroskamikill, bollangur með fádæma bolvídd hvort sem um var að ræða í framparti eða mölum og lærahold voru einkar mikil. Bakvöðvi var sérlega þykkur og vel lagaður. Ekki er ætt hans síður athyglisverð. Faðir hans er Glæsir 16-081 í Broddanesi. Það er hrúturinn sem stóð efstur með glæsibrag á sýningunni 2016. Í haust hefur hann skilað með ólíkindum af glæsilegum lömbum og verður hér næst á eftir vikið að öðru slíku. Glæsi sjálfan sá ég á sýningu veturgamalla hrúta daginn áður.
Óþarfi er að endurtaka lofgjörð síðasta árs en vil aðeins segja að hafi ég einhverju sinni séð kind sem ber nafnið Glæsir með sóma er það þessi einstaki hrútur. Móðir lambsins er ung ær en lofandi með afurðir. Að ætterni rekur hún sig verulega til hrúta sem Reynir hefur á síðustu árum sótt til Jóns.
Líklega er óþarfi að nefna sérstaklega að þessi úrvalshrútur frá Miðdalsgröf skipaði um leið efsta sæti sýningarinnar.
Í öðru sæti var lamb 44 frá Broddanesi. Í samanburði við efsta hrútinn skorti hann aðeins á bollengd og bolvídd en læraholdin voru einstök og tók hann þar topphrútnum fram.
Tveir efstu kollóttu hrútarnir eru hálfbræður
Ekki er óeðlilegt að bera toppana tvo saman því að þeir eru hálfbræður að föðurnum. Móðirin er tvævetla og því óráðin með afurðir þó að afurðir í ár lofi góðu. Hún er dóttir Kjarks 14-072 og í ættum hennar að finna mikinn fjölda þekktra kynbótahrúta af búinu að öðru leyti. Þriðji í röð kollóttu hrútanna var lamb 495 á Smáhömrum. Þetta er fádæma vel gerður, vöðvaþykkur og mikill holdaköggull sem ber ræktunareinkenni sem ætterni staðfestir þó að sé aðeins blandað. Faðir hans heitir Bliki 16-056 og sóttur í úrvalsræktunina í Árbæ (gamla Smáhamraféð) en móðir hans er farsæl afurðaær og ekki langt að sækja í hennar ættarranni í ákafleg þekkta hyrnda sæðingahrúta frá síðustu árum.
Athygli vekur hve mikil og þétt ræktun stendur að baki öllum þessum bestu hrútum sem aðeins er staðfesting þess að ræktunarstarfið er að skila því sem það á að gera. Mæður hrútanna virðast annað tveggja lofandi ungar ær eða fullorðnar afurðaskjóður.
Kollótta féð á Ströndum gimsteinar í ræktunarstarfinu
Kollótta féð á Ströndum er einn af gimsteinum ræktunarstarfsins í landinu. Á síðustu áratugum hefur það verið að skila bændum sem fást við að rækta kollótt fé ómældum verðmætum bæði í gegnum sæðingar með hrútum af svæðinu og einnig gríðarlega mikla sölu líflamba af svæðinu á önnur svæði landsins. Það hefur einnig með hverju árinu orðið skýrara og skýrara að kynbótastarfið verða bændur þarna öðru fremur að byggja á öflugu eigin ræktunarstarfi. Eina sem þar má benda þeim á er að líklega geta þeir sótt kynbætur með meiri notkun sæðinga en verið hefur. Þó að kollóttu sæðingahrútarnir séu mest sóttir á þetta svæði eru þetta margt bestu gripirnir þaðan og þeir mundu skila ræktunarstarfinu meiru með fleiri afkvæmum þar en þeim sem voru til orðin áður en þeir hurfu þaðan.
Glæsigripir Jóns og Ernu í Broddanesi
Á síðustu tveim sýningum þá yfirgnæfðu glæsigripir þeirra Jóns og Ernu í Broddanesi sviðið. Þó að þeir væru ekki jafn yfirgnæfandi að þessu sinni voru ræktunaráhrifin frá Broddanesi samt með ólíkindum mikil hjá úrvalslömbunum sem þarna voru. Mér virðist sem það úrvalsfé um gerð sem þarna hefur komið upp á síðustu tveim áratugum beri um þann eiginleika af umfram annað fé í landinu. Þess vegna er í mínum huga ljóst að ræktun í kollótta fénu í landinu mun einnig á komandi áratugi bera talsverðan svip af þessari ræktun.
Sauðfjárræktin á Ströndum hefur aldrei staðið ræktunarlega sterkari en nú þó að margar og meiri ógnir sæki að sauðfjárbúskapnum á svæðinu en áður hefur verið. Í því sambandi er erfiðasta að horfa upp á að hluti erfileikanna er af mannavöldum og ekki minnstur hlutur forustumanna BÍ allra síðustu árin. Skemmst er að minnast þess í því sambandi að þeir gerðu búvörusamning árið 2016 þar sem hart var vegið að þessari framleiðslugrein svæðisins. Nærtækast er fyrir mig að minnast þess að þar var samstaða Bændablaðsins með formanni BÍ þétt með það að stöðva alla slíka umræðu. Það er ósk mín að fjárbændum á Ströndum takist ásamt stéttarbræðrum sínum víða um land að hrinda þessu mannlega böli. Í staðin verði aftur snúið á þá braut að byggja upp sauðfjárrækt í Íslandi sem byggir á sjálfbærni og góðri meðferð beitilanda. Í þeim efnum geta bændur á Ströndum orðið skýr fyrirmynd og varðað veginn. Þeir kunna þar til verka. Þeim ber að njóta afrakstur þeirra vinnu sinnar og einnig áratuga markviss ræktunarstarfs í greininni til áratuga.
Sýning sú sem stuttlega hefur verið sagt frá í greininni var að hendi sýningarhaldara frábærlega unnin og líkt og áður til mikils sóma. Bestu hamingjuóskir með frábæran ræktunarárangur skulu verða lokaorðin.