Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Valurt – gróskuleg og hrjúf blöð.
Valurt – gróskuleg og hrjúf blöð.
Á faglegum nótum 29. júlí 2016

Hin volduga valurt

Höfundur: Hafsteinn Hafliðason

Á þeim tímum þegar skærur og vopnaskak var meira í návígi, vopnin frumstæð og meira gerð til að lumbra á náunganum, þótt menn hafi nú samt beitt þeim í fullri trú um að þau myndu alveg ganga frá honum. Stundum tókst það.

En mikill meirihluti þeirra sem féllu í valinn á vígvellinum voru fremur hálfdauðir en aldauðir í lok bardagans. Lemstraðir og sárir lágu þeir eftir og myndu hafa borið þar beinin ef ekki hefðu komið til læknar, oftast konur, sem kunnu sitt fag til að binda um benjarnar, spelka saman bein og hlúa að þeim sem lifðu af bardagann. Þá gilti að hafa græðandi jurtir við höndina. Valurtin var ein af þeim og dregur reyndar sitt norræna nafn af þessu notagildi. Það hefur meira að segja haldið sér í íslensku og þótt Danir kalli hana nú „kulsukker“ þá eiga þeir enn til valurtarheitið einhvers staðar í gömlum bókum.

Tuttugu og fimm til þrjátíu tegundir

Í ættkvíslinni Symphytum, sem kallast einu nafni valurtir á íslensku eru á milli 25–30 skrásettar og viðurkenndar tegundir. Ættkvíslarheitið er dregið af grísku sagnorði yfir að sameina eða græða saman. Mörkin á milli tegunda eru oft óljós vegna þess hve auðveldlega þær víxlfrjóvgast hver með annarri þar sem vaxtarsvæði þeirra skarast. Ættkvíslarheitið er dregið af grísku sagnorði yfir að sameina eða græða saman. Flestar koma þær við sögu grasalækninga, hver á sínu svæði. Og það var ekki lítið sem valurtirnar gátu áorkað.

Þrjár bera af

En eiginlega eru valurtir grasalæknanna bara þrjár. Sú sem kölluð hefur verið „hin eiginlega“ valurt, Symphytum officinale, kemur upphaflega úr héruð- um Suðausturevrópu. Til hennar hefur verið vísað frá upphafi ritaðrar lækna- og ræktunarsögu. Önnur valurtartegund, Symphytum asperum, sem kölluð hefur verið burstavalurt á íslensku kemur frá Vesturevrópu. Báðar hafa þær verið fluttar til og ræktaðar í lyfjajurtagörðum gömlu apótekaranna. Þar sem þær hittust æxluðust þær gjarna saman svo að upp kom blendingstegundin benjavalurt, Symphytum × upplandicum.

Hún var fyrst greind í Upplöndum Svíþjóðar og dregur hið fræðilega viðurnefni sitt af því. Þessi blendingur er næsta fjölbreytilegur og á í vandræðum með að halda sér við sem sjálfstæð tegund. Þar sem báðar foreldrategundirnar vaxa í námundanum víxlfrjóvgast hún með þeim svo að afkomendurnir fá þá svip þess foreldris sem lagði frjóduftið til. Benjavalurtinni gengur ekki vel að frjóvga sjálfa sig og mynda þroskuð fræ. Þó kemur það fyrir en er samt nokkuð einstaklingsbundið. Flestar benjavalurtir eru því ófrjóar og dreifast ekki út með fræi. En allir litlir rótarbútar sem losna frá rótinni hafa getu og hæfileika til að mynda brum og blöð og verða þannig að sjálfstæðum plöntum. Því getur verið erfitt að losna við benjavalurtina þaðan sem hún hefur einu sinni náð að koma sér fyrir. Annars er það regla að allar valurtartegundir þroska mikið fræ og sá sér út meira en flestum þykir góðu hófi gegna. Þessar þrjár eru enn ræktaðar sem lyfjajurtir. Þær tvær fyrri samt frekar lítið vegna þess hve óvið- ráðanlegar þær eru með fræfallinu. Bastarðurinn á milli þeirra, benjavalurtin, hefur nú orðið víðast hvar yfirhöndina, þrátt fyrir ódauðleika rótanna. Allar búa þær því sem næst yfir sömu eiginleikum.

Benjavalurtin ríkir á Íslandi

Benjavalurtin er sú valurtanna sem helst má rekast á hér í görðum. Valurtin, burstavalurtin og líklega tvær til þrjár tegundir annara valurta hafa borist hér í garða en eru ekki algengar. Benjavalurtin er hinsvegar nokkuð algeng. Einkum hjá fólki sem ræktar hana sem „áburðarverksmiðju“, og iðkar ræktun án verksmiðjuáburðar. Fáar plöntur eru betur til þess fallnar né bjóða upp á aðra eins ofgnótt af næringarefnum í moltugerðina eða jafnvel í áburðarlög sem nota má blandaðan við vökvunarvatnið í hvert sinn sem matjurtirnar eru vökvaðar. Kem að því í lokin.

Allra meina bót

Elstu heimildir um valurtir sem græðijurtir og vitað er um eru frá því um árið 400 fyrir okkar tímatal. Grikir og Rómverjar notuðu valurtina til að stöðva blæðingar úr svöðusárum, lækna lungnakvilla, græða sár og beinbrot. Blöð og rót voru tekin og gerður úr þeim grautur sem lagður var yfir ljót sár. Til inntöku voru gerð seyði sem áttu að vinna á öllum innanmeinum. Valurtarbakstrar, smyrsl og seyði sem lögð voru við húð voru talin ráða bót á skinnákomum, endurnýja og mýkja húðina.

Enski læknirinn Nicholas Culpeper tók saman mikið rit um læknisdóma sina og lyfjagrös árið 1789 og segir þar um valurtina – lauslega þýtt, stytt og staðfært:

„Hún heyrir undir plánetuna Satúrnus og stjörnumerkið Steingeit. Valurtin hjálpar þeim sem spýta blóði eða hafa blóðug þvaglát. Rótin, soðin í víni sem síðan er drukkið, hjálpar við innvortis meinum, lagar krönk lungu, losar slím og eflir blóðflæði til höfuðsins. Slær á magaólgu og kviðverki kvenna á klæðaföllum. Síróp gert af rótinni gagnast við flestum slæmskum, innvortis sem útvortis. Mauk af rót eða blöðum stöðvar blóðflóð samstundis og flýtir fyrir að sár grói. Valurtin er svo samandragandi að skurðir og beinbrot gróa fljótt og vel.“

Og svo segir Culpeper að plantan sé það kröftug að kjötbitar sem soðnir eru með valurt hlaupi saman og verði að heilu stykki á ný. Svo mikil var trúin, en varla hefur Culpeper sannreynt þessa kenningu!

Nútíminn

Enn þann dag í dag eru gerðar ýmiss konar heilsuvörur úr valurtunum. Hún er notuð af grasalæknum og hómópötum. Úrval afurðanna er nokkuð umfangsmikið og töluverðar rannsóknir hafa verið gerðar á gildi valurta sem lækningajurta. Víst er um að þær innihalda hátt hlutfall af alkólíðanum allantóníni og nokkurt magn af sútunarsýru. Hvort tveggja hefur mildandi, samandragandi og græðandi áhrif á sár sem gengur illa að gróa. Auk þess er urmull annarra efna í plöntunum. Þau er ekki hægt að sundurliða hér. En hafið hugfast að nota ekki plöntur, þótt þær séu mjög rómaðar lækningajurtir, til lækninga án samráðs við lækna. Og inntaka á valurt er sögð geta haft mjög slæm áhrif á lifur og nýru. Í sumum löndum er jafnvel bannað að selja valurtarafurðir til inntöku vegna þess.

Áburðarverksmiðjan

Þótt valurtin sé kannski ekki alveg áreiðanleg sem lækningajurt, fyrir leikmenn að minnsta kosti, þá er verðmæti hennar sem hráefni í „lífrænar” áburðarblöndur mjög hátt. Valurtina er auðvelt að rækta. Hún kýs gjarna frjóa jörð, jafnan raka og þolir vel að standa í skugganum. Auðveldast er að fjölga henni með rótarbútum eða skiptingu.

Ef fara á út í valurtarækt af fullri alvöru með áburðarframleiðslu í huga duga tvær til þrjár plöntur fyrir meðalstóran garð. En í stórrækt þarf um það bil 100 plöntur í 100 fermetra reit til að framleiða áburðarefni í eins hektara akur. Valurtina er hægt að verka í moltu og sem áburðarlög. Í fyrra tilvikinu er valurtin skorin og lögð í moltubinginn, söxuð eða marin eftir getu og síðan blandað saman við annað efni í honum. Þar er valurtin fljót að moltna niður og sameinast moltunni sem fyrir er. Þurrkuð, mulin valurt er líka góð sem moltuhvati.

Áburðarlögur

En vinsælla og jafnvel hagstæðara er að gera lög úr valurtinni. Þá eru plönturnar marðar og troðið þétt ofan í hæfilega stór ílát, ef menn eru stórhuga þá má gjarna nota stór pallettuker, dunka eða tunnur með víðu opi að ofan og útbúnaði fyrir afrennsliskrana næst botninum. Eins miklu af valurt og hægt er troðið í ílátið og síðan fyllt á með vatni. Þetta er svo látið standa utandyra þar sem sól nær að skína á. Lokið er haft lauslega á eða einhver dula sem ver ílátið gegn regni lögð yfir.

Eftir nokkra daga byrjar gerjun í ílátinu. Valurtin rýrnar og safinn úr henni sameinast vatninu. Vökvinn verður dökkur og illa þefjandi, minnir kannski mest á úrhrærða mykju. Þegar þetta byrjar að gerast, það tekur oftast 14-20 daga eftir lofthita, má láta safann renna undan. Hann er síðan blandaður til helminga eða jafnvel 1:10 með vatni sem svo er vökvað með eins og við á með reglulega áburðargjöf.

Valurtarlögurinn inniheldur inniheldur áburðarefnin NPK nokkurn veginn í hlutföllunum 1,8-0,5-5,3 auk allra snefilefnanna, stórra sem smárra og urmuls af góðkynja örverulífi. Hægt er að bæta valurt og vatni í ílátin eftir því sem lækkar í þeim. En vegna hættu á að ílátin springi eða rifni í frostum er ekki gott að hafa þau full undir vetur. Að lokinni uppskerutíð er því betra að tæma ílátin, vökva þá gjarna leginum yfir gróðurbeðin og setja gumsið í moltuna. 

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...