Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Mynd 2: Jafnaldra lömb. Minna lambið vinstra megin er með hníslasótt, skitu og vaxtarskerðingu en stærra lambið hægra megin er heilbrigt.
Mynd 2: Jafnaldra lömb. Minna lambið vinstra megin er með hníslasótt, skitu og vaxtarskerðingu en stærra lambið hægra megin er heilbrigt.
Á faglegum nótum 9. maí 2016

Hníslasótt í lömbum

Höfundur: Hildur Edda Þórarinsdóttir dýralæknir, Hjalti Viðarsson dýralæknir, Sonja Hrund Steinarsdóttir, Hörður Sigurðsson dýralæknir.
Hníslasótt er algengur sjúkdómur í lömbum. Hníslar eru einfruma sníkjudýr, sem fjölga sér í frumum þarma og sprengja þær.  Lömbin smitast oftast þegar þau eru sett út á þrönga heimahaga þar sem hníslar (þolhjúpir/oocyster,) hafa lifað veturinn af. Lömbin geta einnig smitast í saurmenguðum fjárhúsum, þar sem egg hníslanna/þolhjúpir geta lifað mánuðum eða jafnvel árum saman.
 
Tveimur til þremur vikum eftir að lömbin fá í sig smit fá þau svarta blóðuga skitu, hætta jafnvel að éta og hægir oft verulega á vexti (mynd 2).  Þá hefur slímhúð þarmanna orðið fyrir skaða og upptaka næringarefna minnkað. Einnig verður greiðari leið sýkingavaldandi baktería í þarmana svo jafnvel þarf að meðhöndla veik lömb með vökva og sýklalyfi. Fá lömb deyja úr hníslasótt, en mörg þeirra verða fyrir vaxtarskerðingu, mismikilli þó.
 
Hvað er til ráða?
 
Það lyf sem nú er aðallega notað til meðhöndlunar á hníslasótt er toltrazuril. Lyfið drepur öll form hnísla inni í frumum þarmslímhúðarinnar, en ekki þau sem eru þar fyrir utan. Lambið myndar því mótefni gegn hníslum, ef lyfið er gefið á réttum tíma.
 
Ef lyfið er gefið of snemma næst lítil sem engin mótefnasvörun, en sé það gefið of seint er smitið orðið það mikið að þarmarnir hafa orðið fyrir varanlegum skaða.  Toltrazuril  (4 ml/kg) er aðeins gefin einu sinni, en meðhöndla ætti öll lömb.
 
Mikilvægt er að afla sér vitneskju um tímapunkt hugsanlegs smits á hverjum bæ svo hægt sé að  meðhöndla lömb á réttum tíma til að ná sem bestum árangri og koma í veg fyrir vaxtarskerðingu (mynd 3).
 
Í Noregi verða lömbin oftast fyrir smiti um leið og þau eru sett út.
 
Nýlegar rannsóknir hafa sýnt að meðhöndlun daginn sem lömbin fara út dregur úr sýkingu og í kjölfarið skilja þau út minna af þolhjúpum/oocystum á túnið þannig að smitmagn í haganum minnkar.  Sé smit í fjárhúsum er nauðsynlegt ásamt meðhöndlun lambanna að þrífa og sótthreinsa fjárhúsin með phenólefnum. Grundvallaratriði er þó að öll lömb fái nóg af broddi fyrstu daga lífs síns sem styrkir mótstöðu þeirra gegn sjúkdómum.
 
Hníslasótt hér á landi
 
Eldri rannsóknir á lömbum í Fjárborgum og Fossárdal sýna að hníslasótt er algeng hér á landi og í þeim greindust allt að 10 mismunandi hníslategundir.
Á síðasta ári (2015) var gerð ný rannsókn á hníslasótt í lömbum á Vesturlandi. Þar kom í ljós að 2.–4.vikna lömb sem voru á afmörkuðu þröngu heimatúni við fjárhús voru að skilja út mikið af þolhjúpum/oocystum í tengslum við skitu (hníslasótt að vori). Einnig kom í ljós aukið smitmagn í lömbum 1–2 mánuðum eftir að þau komu heim af afrétti þar sem þau voru sett á sömu heimatúnin aftur (hníslasótt að hausti).
Í fyrri rannsókn frá Austurlandi er einungis um að ræða hníslasótt að hausti en ekki að vori. Þar voru lömbin yngri (2.–4. vikna) þegar þau voru flutt á afrétt og voru því ekki höfð eins lengi í þröngum heimahaga á vorin eins og á haustin. Þar af leiðandi höfðu þau ekki náð að sýkjast og skilja út þolhjúpa/oocystur fyrr en þau komu aftur heim á þröngt beitiland um haust.
 
Rannsóknin á Vesturlandi
 
Í Noregi hafa rannsóknir sýnt fram á að meðhöndlun lamba með toltrazuril leiðir af sér að lömbin fá síður skitu og eru þyngri við slátrun.
 
Vorið 2015 var í fyrsta sinn hér á landi gerð rannsókn á meðhöndlun með toltrazuril. Sú rannsókn var gerð hjá 3 áhugabændum í Stykkishólmi (B1, B2, B3), á tilraunabúinu á Hesti (2 hópar: B4M, B4R) og í Norðtungu 3 (B5).
 
Að rannsókninni stóðu dýra­læknarnir Edda Þórarinsdóttir, Hjalti Viðarsson, Sonja Hrund Steinarsdóttir, Hörður Sigurðsson, Icepharma, Norges Veterinærinstitut, Köbenhavns Universitet (KU) og Bayer Animal Health.  Alls voru 244 lömb í rannsókninni (B1: 25 lömb, B2: 32 lömb, B3: 19 lömb, B4: 109 lömb og B5: 59 lömb.  
 
Tilgangur rannsóknarinnar var að sýna fram á hvenær lömbin smituðust og finna þar með árangursríkustu tímasetninguna til að meðhöndla fyrirbyggjandi með toltrazuril. Það var gert með því að vigta lömbin og fylgjast þannig með vexti þeirra og einnig að taka úr þeim saursýni og fylgjast með smitmagninu (fjölda þolhjúpa/oocysta).
 
Lömbin voru vigtuð og saursýni tekin alls 4 sinnum, en í fyrstu heimsókninni (B1, B2, B3: 21. maí, B4M: 22. maí og B4R, B5: 29. maí) var einnig um meðhöndlanir að ræða.
 
Rétt áður en lömbunum var sleppt á afrétt var önnur heimsóknin, sú þriðja um það bil 3 vikum eftir að þau komu heim af afrétti og sú fjórða rétt fyrir slátrun eða eftir slátrun og voru þá einungis um að ræða líflömbin.  
 
Tveir aðilar kusu að gefa öllum lömbum inn hníslasóttarlyf og var það gert með mismunandi hætti þar sem lömbin hjá B5 voru meðhöndluð aðeins þriggja til fimm daga gömul en hjá B2 seinna, eða 3 dögum fyrir fyrstu sýnatöku. Hjá 3 aðilum var hins vegar hægt að vera með samanburðarrannsókn þar sem annar tvílembingurinn var meðhöndlaður en hinn ekki.
 
Á mynd 5 er súlurit með upplýsingum um smitmagn (meðaltal þolhjúpa/oocysta) í saursýnum úr öllum sýnatökunum í tilrauninni.  Hjá B1, B3, B4M og B4R var gerð  samanburðarrannsókn, en þar voru lömbin að skilja út mikið smitmagn við fyrstu sýnatöku. Það telst mjög mikið þegar meðaltalið er yfir 10.000 (B3 og B4M). Það gefur okkur til kynna að smitið var þegir orðið það mikið að það hafði haft skaðleg áhrif á þarmslímhimnu í lömbunum. Lömbin sem fengu toltrazuril við fyrstu sýnatöku hefðu þurft að fá það fyrr, því þau urðu einnig fyrir vaxtarskerðingu vegna smitsins. Árangur meðhöndlunar var þannig takmarkaður því lömbin voru meðhöndluð of seint. 
 
Hjá B2 og B5 var smitmagn mjög lítið í upphafi tilraunar en þau höfðu öll verið meðhöndluð með toltrazuril. Lömbin hjá B2 voru meðhöndluð 3 dögum fyrir fyrstu sýnatöku. Það var þó ekki hægt að sýna fram á marktækan mun í vaxtaraukningu lambanna hjá B2 og er skýringin sú sama og í samanburðarrannsókninni, það hefði þurft að hefja meðhöndlunina fyrr.
 
Hjá B5 voru lömbin meðhöndluð aðeins þriggja til fimm daga gömul þegar þau voru fyrst sett út á heimatún. Smitmagnið var því mjög lítð við fyrstu sýnatöku en hækkaði verulega í þeirri næstu, sem þýðir að á því tímabili fengu lömbin hníslasótt. Lömbin voru því meðhöndluð of snemma, eða áður en þau fengu í sig hníslasóttarsmit og  þá varð mótefnasvörun og vörn gegn hníslasótt lítil sem engin.
 
Í rannsókninni var aðallega um að ræða hníslasótt að vori og smituðust lömbin fljótlega eftir burð hjá flestum (B1, B2, B3, B4M og B4R) sem bendir til þess að lömbin hafi smitast á húsi.
 
Hjá B5 smituðust lömbin seinna, eða fyrst eftir að þeim var sleppt út á heimatún. Skýringin á því gæti verið gott hreinlæti í fjárhúsinu hjá B5. Þar sem lömb smitast á húsi er mælt með fyrirbyggjandi meðhöndlun með toltrazuril 10–12 dögum eftir burð. Hjá B5 væri árangursríkara að meðhöndla seinna eða um 2 vikum eftir að lömbin fara út á heimatún.  
 
Rannsóknin sýnir hve mikilvægt er að fá vitneskju um  hvenær hníslasóttarsýkingin á sér stað. Það getur þó verið aðeins breytilegt á milli ára og getur til dæmis veðurfar haft áhrif á það hvenær lömbum er sleppt út á heimatún og á afrétti, sem hefur aftur áhrif á smitálagið í fjárhúsi og á heimatúni.
 
Verkefnið var samvinnuverkefni eftirtalinna aðila:
 
Stutt samantekt:
  • Meðhöndlun með toltrazuril minnkar smitdreifingu og kemur jafnframt ekki í veg fyrir mótefnasvörun lamba.
  • Ef tímasetning smits er óþekkt er mælt með sýnatöku.
  • Lömbin fá skitu u.þ.b. 2–3 vikum eftir að þau smitast.
  • Á bæjum þar sem lömb hafa smitast snemma (á húsi eða fyrstu daga á heimatúni) skal meðhöndla lömbin með toltrazuril (4ml/10 kg) þegar þau eru 10–12 daga gömul.
  • Á bæjum þar sem lömb hafa smitast snemma skal þrífa og sótt­hreinsa fjárhúsið fyrir sauðburð (Bayocide).
  • Á bæjum þar sem lömb hafa smitast seinna (á heimatúni) skal meðhöndla þau með toltrazuril (4ml/10 kg) 12–14 dögum áður en þau fá skitu, en það er byggt á reynslu fyrri ára.
 
Hildur Edda Þórarinsdóttir dýralæknir
Hjalti Viðarsson dýralæknir
Sonja Hrund Steinarsdóttir dýralæknir
Hörður Sigurðsson dýralæknir, Icepharma.
Norges Veterinærinstitut, Köbenhavns Universitet (KU) og Bayer Animal Health. 

6 myndir:

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...