Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Þruma frá Skagaströnd.
Þruma frá Skagaströnd.
Mynd / Aðsend
Á faglegum nótum 3. mars 2023

Hryssur sem hlutu heiðursverðlaun haustið 2022

Höfundur: Halla Eygló Sveinsdóttir Elsa Albertsdóttir, ráðunautar í hrossarækt. BJÁLKAHÚS - GARÐHÚS Bjóðum fjölmargar gerðir garðhúsa. Þök, skýli, lítil og stór bjálkahús. Pallaefni, girðingar og sauna tunnur. Mjög góð verð og stuttan afhendingartíma. www.bkhonnun.is - sala@bkhonnun.is - Sími 571-3535

Tuttugu hryssur á Íslandi hlutu heiðursverðlaun fyrir afkvæmi árið 2022. Til þess að hljóta þá heiðursnafnbót þarf hryssa að eiga að lágmarki fimm dæmd afkvæmi og vera með 116 stig í kynbótamati ýmist fyrir aðaleinkunn eða fyrir aðaleinkunn án skeiðs. Af þeim 20 hryssum sem hlutu verðlaun fyrir afkvæmi árið 2022 voru fjórar sem ná viðmiðinu 116 fyrir aðaleinkunn án skeiðs.

Í síðasta blaði var fjallað um þær hryssur sem voru í 1.–9. sæti. Hér á eftir verður fjallað um þær hryssur sem röðuðust niður í sæti tíu til tuttugu.

Þruma frá Skagaströnd

Hryssan í tíunda sæti er Þruma frá Skagaströnd. Hún er undan heiðursverðlaunahrossunum Markúsi frá Langholtsparti og Sunnu frá Akranesi. Ræktandi hennar er Sveinn Ingi Grímsson en eigandi er Þorlákur Sigurður Sveinsson. Þruma er með 119 stig í kynbótamati fyrir aðaleinkunn en hún á 16 afkvæmi þar af hafa 5 hlotið kynbótadóm.

Dómsorð afkvæma: Þruma gefur stór hross. Fríðleiki á höfuð er í rúmu meðallagi, vel opin augu en stundum djúpir kjálkar. Hálsinn er með hvelfdri yfirlínu og háum herðum. Bakið yfirleitt breitt með góðri yfirlínu, lendin öflug en stundum gróf. Afkvæmin eru framhá, léttbyggð og fótahá. Fætur eru traustir með öflugum sinum en réttleiki er misjafn, framfætur stundum útskeifir. Hófar efnistraustir með hvelfdum hófbotni. Prúðleiki breytilegur, allt frá því að vera slakur upp í að vera allgóður. Tvö afkvæmanna eru klárhross en hin sýna nokkra skeiðgetu. Töltið er taktgott, skrefmikið með hárri fótlyftu. Brokkið er skrefmikið og takthreint. Stökkið er yfirleitt ferðmikið og teygjugott. Fet að jafnaði gott. Afkvæmin fara vel í reið með góðum fótaburði og viljinn er ásækinn og þjáll.

Grýla frá Þúfum

Hryssan í ellefta sæti er Grýla frá Þúfum. Hún er undan heiðursverðlaunahestinum Álfi frá Selfossi og Lygnu frá Stangarholti. Ræktandi og eigandi hennar er Mette Camilla Moe Mannseth. Grýla er með 119 stig í kynbótamati fyrir aðaleinkunn en hún á 9 afkvæmi og hafa 5 þeirra hlotið kynbótadóm.

Dómsorð afkvæma: Grýla gefur hross í meðallagi að stærð. Höfuð er fremur frítt, hálsinn er grannur, reistur og hátt settur. Baklínan góð en bakið er stundum fremur vöðvarýrt og lendin misjöfn. Afkvæmin eru hlutfallarétt og fremur léttbyggð. Fætur eru þurrir og réttleiki í lagi. Hófar efnistraustir. Prúðleiki afar misjafn frá því að vera mjög góður niður í að vera tæpur. Tvö afkvæmanna eru klárhross en hin þrjú sýna skeið. Töltið er takthreint, rúmt og með góðri fótlyftu. Brokkið er taktgott, rúmt og skref- og svifmikið. Stökkið er svifgott og rúmt, hæga stökkið heldur síðra. Fetið er takthreint og skrefmikið. Afkvæm Grýlu eru viljug, þjál, samstarfsfús og fara vel í reið með fallegum höfuð- og fótaburði.

Grýla frá Þúfum Mynd/Aðsend

Jóna frá Kjarri

Hryssan í tólfta sæti er Jóna frá Kjarri. Hún er undan heiðursverðlaunahestinum Gusti frá Hóli og Jónínu frá Hala. Ræktandi og eigandi er Helgi Eggertsson. Jóna er með 118 stig í kynbótamati fyrir aðaleinkunn en hún á 10 afkvæmi og hafa 5 þeirra hlotið kynbótadóm.

Dómsorð afkvæma: Jóna gefur smá hross. Höfuð svipgott og lýtalaust. Hálsinn mjúkur og bógar skásettir. Bakið misjafnt, stundum aðeins stíft en lendin öflug. Afkvæmin eru hlutfallarétt. Fótagerð og réttleiki eru um meðallag en hófar efnistraustir en stundum aðeins víðir. Prúðleiki misjafn. Afkvæmi Jónu eru öll alhliða hross. Töltið er taktgott með góðri fótlyftu. Brokkið er misgott, stundum fremur sviflítið. Skeiðið er öruggt og skrefmikið. Stökkið er gott en hæga stökkið lakara. Fetið er misjafnt. Afkvæmin eru viljug og samstarfsfús og fara vel í reið.

Jóna frá Kjarri Mynd/Aðsend

Hrefna frá Vatni

Hryssan í þrettánda sæti er Hrefna frá Vatni. Hún er undan heiðursverðlaunahestinum Álfi frá Selfossi og Teklu frá Vatni. Ræktendur hennar er Helga Halldóra Ágústsdóttir og Sigurður Hrafn Jökulsson en eigandi er Sigurður Hrafn Jökulsson. Hrefna er með 117 stig í kynbótamati fyrir aðaleinkunn en hún á 10 afkvæmi og hafa 5 þeirra hlotið kynbótadóm.

Dómsorð afkvæma: Hrefna gefur hross í tæpu meðallagi að stærð. Höfuð lýtalaust með beinni yfirlínu. Hálsinn allgóður, oft hátt settur. Bakið breytilegt að gæðum, sama má segja um lendina. Afkvæmin eru hlutfallarétt. Fótagerð misjöfn, réttleiki tæpur en hófar góðir. Prúðleiki misjafn. Afkvæmin eru öll alhliðahross, þó vekurðin sé mismikil og í raun aðeins eitt afkvæmið sem skeiðar af öryggi. Töltið er misgott en oftast rúmt og takthreint. Brokkið er ekki svifmikið en yfirleitt skrefgott. Stökkið er teygjugott en hæga stökkið síðra. Fetið misjafnt stundum skrefstutt. Viljinn góður og fegurð í reið allgóð.

Hrefna frá Vatni Mynd/Aðsend

Kreppa frá Feti

Hryssan í fjórtánda sæti er Kreppa frá Feti. Hún er undan Árna Geir frá Feti og Jósefínu frá Feti. Ræktandi hennar er Brynjar Vilmundarson en eigandi er Fet ehf. Kreppa er með 116 stig í kynbótamati fyrir aðaleinkunn en hún á 9 afkvæmi og hafa 5 þeirra hlotið kynbótadóm.

Dómsorð afkvæma: Kreppa gefur hross undir meðallagi að stærð. Höfuð er svipgott. Hálsinn langur og reistur. Bakið sterklegt og lendin öflug. Afkvæmin eru hlutfallarétt og ágætlega fótahá. Fótagerð í meðallagi, sinar oft heldur grannar en réttleiki yfirleitt góður. Hófar misjafnir að gerð. Prúðleiki yfirleitt yfir meðallagi. Afkvæmin eru öll utan eitt klárhross, þau eru með úrvalsgott tölt, ferðmikið, takthreint og lyftingargott. Brokkið er skrefmikið og taktgott. Stökkið er ferðmikið. Fetið misjafnt stundum skrefstutt. Viljinn einkennist af mikilli framhugsun og þjálni. Þau fara vel í reið með miklum fótaburði.

Kreppa frá Feti Mynd/aðsend

Álöf frá Ketilsstöðum

Hryssan í fimmtánda sæti er Álöf frá Ketilsstöðum. Hún er undan heiðursverðlaunahestinum Álfi frá Selfossi og Hefð frá Ketilsstöðum. Ræktandi hennar er Jón Bergsson en eigandi er Guðbrandur Stígur Ágústsson. Álöf er með 116 stig í kynbótamati fyrir aðaleinkunn en hún á 10 afkvæmi og hafa 5 þeirra hlotið kynbótadóm.

Dómsorð afkvæma: Álöf gefur hross í rúmu meðallagi að stærð. Höfuð einkennist af beinni neflínu. Hálsinn er yfirleitt ágætlega reistur og yfirlína góð. Baklína góð með einni undantekningu þó, sama má segja um lendina hún er yfirleitt jöfn. Afkvæmin eru fótahá og sívöl. Fætur traustir með öflugum sinum en réttleiki í meðallagi, afturfætur oft nágengir. Hófar eru vel lagaðir með hvelfdum botni. Prúðleiki slakur. Töltið einkennist af góðri fótlyftu, það er skrefmikið og oftast takthreint. Brokkið er skrefmikið, það sama má segja um skeiðið sé það fyrir hendi. Stökkið er ferðgott. Fetið er misjafnt. Afkvæmin eru yfirveguð og þjál og fara vel í reið með góðum fótaburði, eitt afkvæmanna er þó lágengt.

Álöf frá Ketilsstöðum Mynd/Aðsend

Heilladís frá Selfossi

Hryssan í sextánda sæti er Heilladís frá Selfossi. Hún er undan Suðra frá Holtsmúla og heiðursverðlaunahryssunni Álfadísi frá Selfossi. Ræktandi og eigandi hennar er Olil Amble. Heilladís er með 116 stig í kynbótamati fyrir aðaleinkunn en hún á 10 afkvæmi og hafa 5 þeirra hlotið kynbótadóm.

Dómsorð afkvæma: Heilladís frá Selfossi gefur fremur smá hross en hlutfallarétt. Höfuð oft skarpt en neflína stundum tæp. Frambygging heldur góð, hálsinn yfirleitt langur en ekki léttur. Bak og lend sterkleg en lendin stundum gróf. Fætur góðir en réttleiki í meðallagi, afturfætur stundum nágengir. Hófar vel gerðir og prúðleiki góður. Afkvæmi Heilladísar eru ýmist klárhross eða alhliðahross.Töltið er taktgott, sama má segja um brokkið með einni undantekningu þó. Ef skeið er til staðar er það skrefgott. Stökk er fremur ferðlítið. Fetið er oftast takthreint og skrefmikið. Afkvæmin eru takthrein á gangi, viljinn þjáll og þau fara vel í reið.

Heilladís frá Selfossi. Mynd / Aðsend

Mirra frá Þúfu í Landeyjum

Hryssan í sautjánda sæti er Mirra frá Þúfu. Hún er undan heiðursverðlauna hestinum Orra frá Þúfu og Iðu frá Þúfu. Ræktandi hennar er Indriði Theódór Ólafsson og eigandi Susanna Braun. Mirra er með 115 stig í kynbótamati fyrir aðaleinkunn en 121 stig í kynbótamati fyrir aðaleinkunn á skeiðs. Hún á 15 afkvæmi og hafa 5 þeirra hlotið kynbótadóm.

Dómsorð afkvæma: Mirra frá Þúfu í Landeyjum gefur fremur stór hross. Höfuð er skarpt. Hálsinn er reistur og yfirlína góð. Bakið er misjafnt, stundum framhallandi en oftast vel vöðvafyllt. Lendin er öflug en stundum aðeins gróf. Afkvæmin eru fótahá og sívöl. Fætur sterklegir með öflugum sinum og góðum sinaskilum en réttleiki í meðallagi. Hófar yfirleitt sterklegir en stundum aðeins víðir. Prúðleiki misjafn. Afkvæmi Mirru eru klárhross að upplagi þó sum tæpi á skeiði. Töltið er takthreint með skrefmiklum og háum hreyfingum. Brokkið er taktgott með góðum fótaburði. Stökkið er afbragð ferð- og svifmikið. Hæga stökkið oft heldur síðra. Fet yfirleitt taktgott. Viljinn afbragð sem lýsir sér með yfirvegun og mikilli framhugsun. Hrossin fara vel í reið með miklum fótaburði og fallegum höfuðburði.

Mirra frá Þúfu í Landeyjum. Mynd / Susanne Braun

Spes frá Ketilsstöðum

Hryssan í átjánda sæti er Spes frá Ketilsstöðum. Hún er undan Sveini-Hervari frá Þúfu í Landeyjum og Þernu frá Ketilsstöðum. Ræktandi hennar er Jón Bergsson en eigandi er Bergur Jónsson. Spes er með 113 stig í kynbótamati fyrir aðaleinkunn en 126 í kynbótamati fyrir aðaleinkunn án skeiðs. Hún á 10 afkvæmi og hafa 5 þeirra hlotið kynbótadóm.

Dómsorð afkvæma: Spes frá Ketilsstöðum gefur hross í tæpu meðallagi að stærð. Höfuð er skarpt en eyrnastaða stundum slök. Frambygging þokkaleg en hálsinn er stundum fremur djúpur. Lendin er öflug og baklína oftast góð. Afkvæmin eru hlutfallarétt. Afturfætur nágengir en fótstað rétt og hófar góðir. Prúðleiki er misjafn. Afkvæmi Spes eru klárhross en þau eru takthrein, hágeng og skrefmikil bæði á tölti og brokki. Stökkið er yfirleitt ferðmikið, með góðu skrefi og lyftu. Fet takthreint. Viljinn er afbragð, þjáll en ásækinn. Afkvæmin fara vel í reið með miklum fótaburði og fasi.

Spes frá Ketilsstöðum. Mynd / Aðsend

Prestsfrú frá Húsatóftum 2a

Hryssan í nítjánda sæti er Prestsfrú frá Húsatóftum 2a. Hún er undan Forseta frá Vorsabæ II og Viðju frá Hoftúni. Ræktandi og eigandi hennar er Ástrún Sólveig Davíðsson. Prestsfrú er með 110 stig í kynbótamati fyrir aðaleinkunn en 117 stig í kynbótamati fyrir aðaleinkunn án skeiðs. Hún á 8 afkvæmi og hafa 5 þeirra hlotið kynbótadóm.

Dómsorð afkvæma: Prestsfrú frá Húsatóftum 2a gefur stór hross. Höfuð er skarpt og svipgott en eyrnastaða stundum aðeins slök. Hálsinn er reistur, vel settur og með háum herðum. Bakið er breitt og vöðvafyllt með góðri baklínu, lendin er jöfn og öflug. Samræmi er gott og einkennist af jöfnum hlutföllum. Fótagerð er þurr og sinar öflugar. Réttleiki er um meðallag, flétta gjarnan að framan og nágeng að aftan. Hófar eru vel formaðir og efnisþykkir. Prúðleiki misjafn stundum með ágætum en stundum lítill. Afkvæmin eru rúm og skrefmikil klárhross. Töltið og hæga töltið er taktgott, skrefmikið með góðri fótlyftu. Brokkið er taktgott og skrefmikið. Stökkið er takthreint, skrefmikið með góðri fótlyftu. Fetið er um misgott. Afkvæmin eru viljagóð og samstarfsfús, fara vel í reið með fallegum fótaburði og hvelfdri yfirlínu.

Prestsfrú frá Húsatóftum 2a. Mynd/ Eiríkur Jónsson

Lýsing frá Þúfum

Hryssan í tuttugasta sæti er Lýsing frá Þúfum. Hún er undan Hróðri frá Refsstöðum og Birtu frá Ey II. Ræktendur og eigendur hennar eru Mette Camilla Moe Mannseth og Gísli Gíslason. Lýsing er með 108 stig í kynbótamati fyrir aðaleinkunn en 120 stig í kynbótamati fyrir aðaleinkunn án skeiðs. Hún á 13 afkvæmi og hafa 5 þeirra hlotið kynbótadóm.

Dómsorð afkvæma: Lýsing frá Þúfum gefur fremur stór hross. Höfuð er fremur frítt, hálsinn er reistur, með hvelfdri yfirlínu og háum herðum. Yfirleit góð baklína og breitt og vöðvafyllt bak. Samræmi er gott og einkennist af jöfnum hlutföllum og fótahæð. Fótagerð er þurr með góðum sinaskilum. Réttleiki er í góðu meðallagi. Hófar eru efnistraustir, með þykkum hælum. Prúðleiki yfirleitt fremur góður. Afkvæmin eru að uppistöðu klárhross. Töltið og hæga töltið er taktgott með góðri fótlyftu. Brokkið er taktgott og skrefmikið. Stökkið er takthreint með góðu svifi. Fetið er skrefmikið og takthreint. Afkvæmin eru samstarfsfús og þjál og fara afar vel í reið. Höfuð- og fótaburður prýðir.

Lýsing frá Þúfum. Mynd/Aðsend

RML sendir ræktendum og eigendum þessara hryssna innilegar hamingjuóskir. Mikil vinna liggur að baki þessum mikla árangri sem er ómetanlegt fyrir ræktunarstarfið. Ef ræktendur tækju ekki þátt í kynbótasýningum hefðum við engan grunn til að byggja kynbótamatið á. Það er ekki víst að allir geri sér grein fyrir því hvað þetta sameiginlega starf við skýrsluhald og sýningarhald hefur mikið að segja fyrir hrossaræktina í heild sinni. Í því samhengi má ekki gleyma mikilvægi WorldFeng sem heldur utan um allar þessar upplýsingar.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...