Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
„Íslensk landnámshænsi“ í Bjarnarhöfn. Breski bóndinn Roger Mason verslaði allnokkur egg hjá Hildibrandi í Bjarnarhöfn og ungaði þeim út í Bretlandi.
„Íslensk landnámshænsi“ í Bjarnarhöfn. Breski bóndinn Roger Mason verslaði allnokkur egg hjá Hildibrandi í Bjarnarhöfn og ungaði þeim út í Bretlandi.
Mynd / HKr.
Á faglegum nótum 29. mars 2016

Hugmynd verður hænsnakyn

Höfundur: Jón Viðar Jónmundsson, ráðunautur hjá RML
Á gríðarlega áhugaverðu hugvísindaþingi HÍ síðastliðinn föstudag og laugardag varð ég fyrir þeirri undarlegu lífsreynslu að vera nánast staðinn að verki í einu erindi sem þar var flutt. Var það í málstofu sem bar það virðulega heiti „Landnámið í skarpari upplausn“.
 
Þar voru Albína Hulda Pálsdóttir og Jón Hallsteinn Hallsson með erindi sem hét „Landnámshænan – Er góð saga gögnum betri?“ Þetta var ákaflega áhugavert erindi sem ég hvet alla til að kynna sér (http://hugvis.hi.is/landnamid_i_skarpari_upplausn).
 
Í erindinu er saga landnámshænunnar rakin eins og skráðar heimildir leyfðu. Um upphaf þess starfs finnast ekki skráðar heimildir en ég þekki ögn til þar. Þegar í ljós kom að þetta væri nútímasaga var ekki áhugi fornleifafræðinganna til að kynna sér hana nánar. Fornöldin hafði forgang umfram að leita sannleikans betur, sem ég hafði að vísu vanist hjá þeim háskólum, sem ég þekki til, að þeir litu á sem hlutverk sitt. Hins vegar hvöttu nokkrir málstofugestir mig til að koma þessari sögu á blað og vil ég verða við óskum þeirra. Reynsla hefur líka þegar kennt mér að réttar frásagnir og heimildir geta, áður en maður sjálfur gerir sér grein fyrir, orðið ómetanlegar.
 
Hugmyndaríkur og einstakt ljúfmenni
 
Upphaf sögunnar er það að vorið 1972 sótti ég mitt fyrsta samnorræna lisensiatnámskeið af fjölmörgum í búfjárkynbótafræði. Fyrirlesari námskeiðsins var W.G. Hill frá Edinborg, en námskeiðið hafði prófessor Kalle Maijala í Finnlandi skipulagt og var það haldið í Helsinki. Örstutt um þessa einstöku heiðursmenn. Hill hafði þá nýverið skotið upp á himin þessara fræða sem skærasta ungstirninu. Þar hefur hann síðan skinið til þessa dags sem höfuðtungl og leiðarstjarna þessarar fræðigreinar. Nýverið birti ég hér í blaðinu greinarflokk um úrvalstilraunir þar sem mikið af hugmyndum voru sóttar í fræðagarð Hill. 
 
Maijala var hins vegar prófessor í Helsinki í nær fjóra áratugi og á þeim tíma heilinn að baki öllu búfjárræktarstarfi í Finnlandi (nema í hænsnum, sem hér eru til umræðu). Maijala var mjög hugmyndaríkur og einstakt ljúfmenni sem unun var að starfa með. Eins og síðar verður nefnt þá var hann ásamt Stefáni Aðalsteinssyni og fleirum sporgöngumaður norræns samstarfs um verndun erfðabreytileika hjá búfé. Þær fréttir bárust fyrir um hálfum mánuði að nú væri þessi heiðursmaður fallinn frá. 
 
Varðveiting erfðabreytileikans
 
Setjumst aftur á skólabekk í Helsinki. Í lok hinna stórsnjöllu fyrirlestra fór Hill að fjalla um það sem fyrir öllum var þá ný hugsun. Jafnhliða því að við störfuðum að því að ná sem mestum kynbótaárangri með vinnu okkar væri fyllilega tímabært að fara að huga að því á hvern hátt við varðveittum erfðabreytileikann í stofnunum og ekki síður að ekki mætti útrýma öllum erfðabreytileika sem við í dag mætum gagnslausan vegna þess að þar gæti leynst margt, sem kæmi ef til vill að notum fyrr en okkur grunaði. Fyrir okkur sem á hlýddum og vafalítið flesta þá voru þetta alveg ný fræði.
 
Þarna held ég að sé raunar að finna upphaf að því sem síðan varð á örfáum árum að heimshreyfingu í þessum málum. Maijala var þarna á staðnum og hugmyndirnar breiddust hratt til annarra landa með stúdentunum sem þarna voru. Forystumenn allra Norðurlandanna mynduðu strax starfshóp um málið. Þar voru Maijala og Stefán sem áður eru nefndir, Rendel frá Svíþjóð, Neimann-Sörenssen frá Danmörku og Nils Kolstad í Noregi. Allt menn úr fylkingarbrjósti búfjárræktarstarfs í sínum löndum. Í framhaldinu kemur  mjög öflugt starf á þessu sviði hjá Evrópska búfjárræktarsambandinu (EAAP) og starf á heimsvísu hjá FAO. 
 
Á þessum tíma starfaði ég sem aðstoðarmaður hjá Stefáni Aðalsteinssyni á RALA. Við tömdum okkur þá að gefa okkur tíma á morgnana til að setjast niður og yfirfara það sem við vorum að vinna hverju sinni og skýra hvor fyrir öðrum það sem við höfðum nýjast lesið af athyglisverðum hugmyndum.
 
Heillaðist af nýjum hugmyndum
 
Nú kem ég þarna úr austurvegi útbólginn af nýjum hugmyndum að ég taldi. Svo kom síðan undir lokin hjá mér eins og verið hafði í fyrirlestrunum hjá Hill að ég sagði að mögulega hefði samt verið það merkilegasta hjá honum þessar nýju hugmyndir um verndun erfðabreytileika. Þeir sem þekktu Stefán vita hve hann gat heillast af nýjum hugmyndum. Þarna var eins og eldingu lysti í höfuð honum. Fljótsagt er að þetta var nánast hans lífshugsjón til æviloka frá þessum tíma. Skilaði hann þar flestum öðrum meira starfi eins og vænta mátti þar sem hann beitti sér. Beinum afskiptum mínum að þessum málum lauk að mestu með þessu.
 
Sagan um hænsnin í þoku
 
Stefán þekkti öllum öðrum betur erfðir hjá og sögulega sérstöðu íslenska búfjárins. Ljóst var að íslenski hesturinn, íslenska kýrin og íslenska sauðféð voru gimsteinar sem öllu varðaði að yrðu varðveittir. Geitastofninn var í útrýmingarhættu. Heimildir sögðu okkur að engan séríslenskan svínastofn var að finna. Hvað um hænsnin? Þar var sagan í þoku.
 
Stefán fékk þá hugsjón að reyna að koma upp gömlum íslenskum hænsnastofni ef mögulegt reyndist að finna þar einhver forn tengsl. Safnaði hann fuglum og eggjum til útungunar frá stöðum þar sem hann fékk upplýsingar um fugla sem mögulega ættu eldri stofnsögu. Eldri saga var yfirleitt ákaflega rýr. 
 
Nýi „íslenski“ stofninn á RALA
 
Ég sá þessa fugla þarna, en þá hafði ég nýlokið námi í almennum búfjárfræðum og fundist of margt þessara hænsna afsteypa af erlendum blendingslínum, sem ég hafði þá kynnst. Auk þess hafði ég lítt spennandi lífsreynslu af hænsnum. Sem strákstauli hafði ég lent í því þegar karl faðir minn ásamt fleiri hænsnaeigendum þar í sveit tóku upp þá sérkennilegu hugmynd að unga út hænsnaeggjum til að fjölga hænum en vegna þess að þeir kunnu ekki til að kyngreininga kvikindin kom stór hanahópur, sem kom í minn hlut að annast. Ég gat ekki varist því að útlitsbreytileikinn í þessum nýja „íslenska“ stofni á RALA minnti mig óþægilega á hanakvikindin. Óþarfi að nefna að þekkingar minnar á hænsnum var ekki frekar óskað vegna ræktunar „íslensku hænunnar“.
 
Stefán var sérlega vandur vísindamaður og í hans skrifum mun hvergi neitt að finna um uppruna landnámshænsnanna, sem tengir þau við landnám. Eins og áður segir var norrænn uppruni íslenska búfjárins Stefáni hjartans mál og hann átti sér áreiðanlega þann draum að finna mætti norrænan uppruna hænsnanna, sem sennilega er nú ljóst að ekki er fyrir hendi.
 
Goðsögnin um „íslensku landnámshænuna“
 
Síðar tekur við ræktun á svokölluðum „landnámshænsnum“ hér á landi. Þar hygg ég að mest hafi farið fyrir einstöku áhuga- og hugsjónafólki. Þessu fólki hefur tekist, eins og Albína og Jón rekja svo skemmtilega, að koma upp goðsögninni um „íslensku landnámshænuna“. Eldri flökkusagnir tala um að ein fjöður geti orðið að nokkrum hænsnfuglum en þetta er fyrsta dæmi, sem ég þekki, um að hugmynd hafi orðið að nýjum hænsnastofni. Sjálfur kynntist ég í verki í vor hve útbreiðsla hænsnanna getur gengið hratt fyrir sig. 
 
Í júníbyrjun kom hingað til lands breskur bóndi, Roger Mason, sem er þekktur fyrir það að vera sá einstaklingur, sem staðið hefur fyrir nánast öllum þekktum innflutningi til Bretlands á sauðfé til kynbóta síðustu tvo áratugi. Undir lok heimsóknar hans fór ég með hann í ferð vestur á Snæfellsnes. Heimsóttum við þar snillinginn Hildibrand í Bjarnarhöfn og Roger sá hjá honum „landnámshænsni“ þannig að hann verslaði allnokkur egg hjá Hildibrandi. Snemma vetrar fékk ég tölvupóst frá Roger, sem sagði hróðugur frá því að nokkrar skrautlegar „íslenskar landnámshænur“ hefðu seinnipart sumars sprangað um hlöð hjá honum fyrir þær á milli 30–40 þúsundir gesta, sem heimsækja hans opna bú á hverju ári.
 
Enn og aftur hvet ég lesendur til að kynna sér hið bráðskemmtilega erindi Albínu og Jóns. Lokaorð þeirra segja allt um það sem gerst hefur. „Íslenska landnámshænan þjónar því sem skemmtilegt dæmi um hvernig markaðssetning og ófullnægjandi heimildanotkun fræðimanna geta í sameiningu myndað vítahring sem viðhaldið getur upprunagoðsögn í beinni mótstöðu við fyrirliggjandi gögn.“

Skylt efni: Landnámshænan

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...