Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Hvað gætum við gert næst?
Á faglegum nótum 7. mars 2016

Hvað gætum við gert næst?

Höfundur: Pétur Halldórsson, ráðunautur hjá RML
Þegar horfið var frá því á sínum tíma að auglýsa sérstaklega komandi útflutning íslenskra kynbótahrossa var stórt skref stigið í átt til nær algers frjálsræðis íslenskra hrossaræktenda í sölumálum. Augljós afleiðing þessarar ákvörðunar var að Íslendingar ætluðu óhræddir að keppa á frjálsum samkeppnis-grundvelli við aðrar þjóðir sem rækta íslenska hestinn; hvað sem liði einstefnuflæði erfðaefnis frá upprunalandinu.
 
 Árangur í harðri samkeppni ræðst af því hvort varan/þjónustan er betri, traustari eða ódýrari en það sem samkeppnisaðilar geta falboðið. Íslenskir hrossaræktendur geta kannski hvað síst keppt í því að vera ódýrari, enda fellur sami kostnaður á gæðinginn, frístundahestinn og ræktunargripinn þegar kemur að flutningi til annarra landa og álfa. Þó má vera að t.d. kostnaður við uppeldi gripa sé hvað minnstur, eða reiknaður hvað minnstur hérlendis miðað við nágrannalöndin? Hvaða tromp eigum við þá í erminni þegar þessu sleppir og árangur á að nást? Trompin verða að vera betri hross, betur unnin og tamin, meiri gæði – meira traust og trúverðugleiki. Fagmennska og heilindi ofar hverri kröfu. Sérstaða í gæðum, metnaði og þjónustu við kaupendahópinn.
 
Væri snjallt að ...?
 
Einn liður í því að auka á gæðin, auka á öryggi þeirrar vöru sem frá landinu fer, væri að taka DNA-stroksýni úr öllum hrossum á útleið, til staðfestingar á ætterni. Árið 2015 voru útflutt hross alls 1.360 (661 hryssa, 466 geldingar og 233 stóðhestar). Í þessum 1.360 hrossa hópi voru 430 hross þegar með DNA-arfgerðargreiningu, eða rétt um 32%. 
 
Spurningin snýst í grunninn um kostnað; hvers virði er trúverðugleiki og öryggi? Miðað við núverandi kostnað við vinnslu sýna á Íslandi þá væri greiningarkostnaður fyrir öll útflutt hross ársins 2015 rétt um 11,5 milljónir króna, á 1.360 greind sýni. Greining á einu stroksýni kostar nú kr 8.432,- hjá þekkingarfyrirtækinu Matís. Það er strípuð greining og án tillits til kostnaðar við sýnatökuna sjálfa; vinnutíma og komugjalds. Ef sýni er tekið af starfsmanni RML þá má nálgast verðskrá fyrirtækisins á heimasíðu þess, rml.is:  http://www.rml.is/static/files/RML-verdskra/2016/verdskra-2016-net.pdf 
Ætti eitt yfir öll hross að ganga? Kaupandinn sem leitar að blóðlínu til að byggja undir sína ræktun vill klárlega vera viss um að fá rétt erfðaefni en ekki eitthvað allt annað. Kaupandanum sem finnur draumahestinn sinn í geldingi er kannski nokk sama hvað stendur á bak við hann og sama má líkast til segja um kaupandann sem vill og finnur litfagurt folald. En þar með er ekki öll sagan sögð. Þegar keppnisárangur bætist við undirstöður kynbótaspárinnar (BLUP) þá verður að líkindum ekki síður mikilsvert að keppandi geldingar séu rétt ættfærðir eins og dæmd kynbótahross.
 
Sérstaða okkar sem seljenda er sem kunnugt er að hér er ekki um nein vöruskil að ræða. Útflutt hross kemur ekki heim. DNA-staðfesting á réttum grip myndi ekki aðeins verja erlendan kaupanda gegn mistökum heldur ræktandann líka. Fátíð en vel þekkt folaldavíxl hjá hryssum er dæmi um mál sem erfitt er að verjast, nema með DNA-greiningu. Hross hafa verið flutt út sem aldrei hefði hvarflað að íslenskum ræktendum að láta frá sér ef sannleikurinn hefði komið í ljós fyrir útflutning. Orsakir sjaldgæfra „útflutningsslysa“ geta verið margþættar en pattstaðan sem kemur upp milli kaupanda og seljanda getur verið erfið og ekki eftirsóknarverð fyrir neinn. Tæknin og möguleikarnir eru fyrir hendi til að losna alveg við þessar uppákomur. Hér vegast á kostnaður og ávinningur, kostnaður sem nemur svo sem einni járningu á lífsleið hvers hests. 
 
Spennandi tímar
 
Það styttist óðum í landsmótsvor og eftirvæntingin eftir því að sjá hvað ræktendur koma fram með eykst hröðum skrefum. Farseðill kynbótahrossa á landsmót er barátta við einkunnakommur til eða frá, á því verður engin breyting frá því sem áður hefur verið. Nú verður málum hins vegar þannig fyrir komið að sem næst fastur fjöldi hrossa, í hverjum aldursflokki kynbótahrossa, kemur til dóms á Hólum. Nánar um það hér: http://www.rml.is/is/bufjarraekt/hrossaraekt/kynbotasyningar/val-kynbotahrossa.
 
Nú er í burðarliðnum afar jákvætt og metnaðarfullt átak í markaðssetningu íslenska hestsins, sjá hér: http://www.islandsstofa.is/frettir/markadsverkefni-um-islenska-hestinn-til-naestu-fjogurra-ara/662/ . Á komandi landsmóti á Hólum viljum við helst af öllu geta sagt kinnroðalaust, kannski með agnarögn af sárasaklausum þjóðrembingi og stolti upprunalandsins, að hér séu bestu hrossin og  gullæð erfða-efnisins. Hér séu góðir og sanngjarnir reiðmenn, hestamenn sem kunna að sækja og höndla afköst og vinnugleði – en þó þannig að aldrei sé krafið umfram getu, þjálfun eða þroska hrossa; aldrei til skaða.
 
Stóraukin tíðni endursýninga sömu gripa hefur jafnan fylgt kynbótasýningum á landsmótsvorum. Engin ástæða er til annars en ætla að svipað verði upp á teningnum nú. Íþróttaiðkendur hjá Knattspyrnu-félaginu Val, að Hlíðarenda í Reykjavík, hafa einkunnarorð stofnanda félagsins, Friðriks Friðrikssonar, í heiðri: „Látið aldrei kappið bera fegurðina ofurliði“. Þessi hugsun mætti gjarna einkenna allt sýningahald ársins 2016 og um alla framtíð.
„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...